25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í C-deild Alþingistíðinda. (2776)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Finnur Jónsson:

Ég vildi aðeins taka það fram út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um útsvarsálagningu á Ísafirði, að ég hefi ekki fylgzt með henni um margra ára skeið, hvorki á olíu né öðru. En sé það rétt, að þar sé lagður 7% veltuskattur á olíu, eins og gert er víða á landinu, verður það vitanlega til þess að gera útgerðarmönnum hana dýrari. Samt hygg ég, að þótt þessi skattur sé mishár á ýmsum stöðum, sé alstaðar jafnt verð á olíunni, nema þar, sem útgerðarmenn hafa komið sér upp einhverskonar tækjum til þess að verzla með olíu sjálfir. Ég vil ganga það langt í því að beina fé til útgerðarinnar með opinberri tilstuðlun, að ég tel, að samtök útgerðarmanna til að koma upp slíkri verzlun með nauðsynjar sínar eigi að vera skattfrjáls. Ég mundi álíta, að það væri eitt af því, sem Alþingi ætti að gera, að hvetja þá til þeirra samtaka með skattfrelsi bæði til sveitar- og bæjarfélaga. En það eiga ekki að vera fyrirtæki einstakra manna eða félaga, heldur eingöngu samvinnufyrirtæki útgerðarmannanna sjálfra.