08.12.1939
Efri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (2782)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Flm. (Jónas Jónsson):

Enda þótt ýtarleg grg. fylgi ekki frv. þessu, hygg ég, að það þurfi ekki mikilla skýringa við, vegna þess, að einstök atriði tala sínu máli. Ég vil þó með nokkrum orðum víkja að því, hvers vegna frv. þetta er fram komið. Frv. er undirbúið af meiri hl. fjvn., en þar sem n. gat ekki borið frv. fram í deildum, varð niðurstaðan sú, að þrír af nm. skyldu flytja það. Ef til vill má segja, að sum atriði frv. snerti ekki þau efni, sem fjvn. fæst við á venjulegum tímum. En eins og kunnugt er, er nú byrjuð styrjöld, sem líklega verður langvarandi og hefir skapað okkur margskonar erfiðleika nú þegar.

Um fjármálaástandið er það að segja, að þótt okkur hafi gengið framar öllum vonum að halda uppi verzlunarsamböndum við önnur lönd til þessa, þá er sá blær á baráttunni milli ófriðarríkjanna, að á því getur orðið breyting áður en varir. Ef það t. d. kynni að fara svo, að okkur yrði meinað að skipta við Norðurlönd, en siglingar til Englands yrðu svo hættulegar, að við gætum ekki lengur átt verzlun við það, hlyti að draga að því, að ríkissjóður missti miklar tekjur, en það skapaði aftur þá örðugleika, að ríkisstj., hver sem hún kann að vera, neyddist til þess að draga úr fjárgreiðslum, sem undir venjulegum kringumstæðum eru taldar sjálfsagðar. — (Ég ætla að bíða á meðan menn eru að tala saman).

Nú hafa landsmenn yfirleitt tekið þessu ástandi, sem skapazt hefir af völdum stríðsins, mjög skynsamlega, og flestir reynt að laga sig eftir aðstæðunum. t. d. má geta þess, að í Reykjavík mun í haust ekki hafa verið notað nema helmingur þess kolamagns, sem eyðzt hefði undir venjulegum kringumstæðum. Þetta hafði þó ekki verið fyrirskipað.

Það má segja, að flestar gr. frv. snúi að þessu ástandi, og þær eiga fyrst og fremst að miða að því, að gera þjóðinni auðveldara að sigrast á erfiðleikunum vegna styrjaldarástandsins með úrræðum hennar sjálfrar.

Ég vil þá fyrst minnast á fyrsta atriði frv., sem af mörgum mun talið aðalatriði þess, þ. e. framfærslu atvinnulausra manna og þeirra, sem þiggja af sveit. Tel ég ekki ástæðu til þess að ræða það ýtarlega við þessa umr., en vil aðeins benda á, að þeir erfiðleikar, sem nú eru fyrir hendi, hljóta að opna augu þjóðarinnar fyrir því, að ekki muni heppilegt að hafa það skipulag, sem nú er í atvinnu- og framfærslumálum, þar sem hundruð og jafnvel þúsundir manna geta verið framfærsluþurfar í bæjunum samtímis því, að næg verkefni bíða þeirra annarstaðar á landinu. Í Reykjavík einni voru á 6. þús. manns á sveit í haust. Að vísu er talan ekki svona há allan tíma árs og margt af þessu fólki er gamalmenni eða börn, en þar er líka fjöldi vinnufærra manna, sem fær ekki að vinna hér.

Sú spurning hlýtur því að vakna, ekki aðeins hjá okkur, sem hér erum búsettir, heldur og öllum landsmönnum: Er nokkurt vit í því, þegar eins erfitt er að lifa og nú er, að halda þessum mönnum hér atvinnulausum, þegar þeir geta gert eitthvað annarstaðar? Ég býst við því, að þeir menn, sem eru á móti þeirri till. sem í frvgr. felst, muni segja, að þetta verði svo að vera, því það sé svo mikil skerðing á mannréttindum, ef menn geti ekki setzt að hvar sem er á landinu, þótt þeir séu atvinnulausir styrkþegar, að annað verði ekki þolað í frelsisins nafni. Ég býst hinsvegar við því, að þótt þetta hafi verið látið að miklu leyti óátalið á meðan betra var í ári, muni það ekki fært nú.

Ég minnist eins dæmis, sem gerðist í minni stjórnartíð. Fyrir 10 árum síðan var búsettur hér í bænum þekktur óreiðumaður, sem átti sveit vestur á Snæfellsnesi. Þar í sveit voru 28 gjaldendur. Þessi óreiðumaður — hann var víst líka sprúttsali — vildi ekki héðan fara, en að greiða með honum 3000 kr. á ári hingað eyðilagði fjárhag þessarar einu sveitar. Mér er þetta minnisstætt. — Þegar maður lítur nú á, að 28 bændur bogna undan því að kosta einn ómaga í Reykjavík, getur maður skilið, hvað það þýðir fyrir Reykjavík, Akureyri og Hafnarfjörð, svo að ég nefni ekki fleiri bæi, að sjá sínum þurfalingum farborða.

Í frv. til. l. um breyt. á framfærslulögunum, er nú liggur fyrir hv. deild, er svipað ákvæði og í 1. gr. frv. á þskj. 398. Í framfærslulagafrv. er gert ráð fyrir, ef um er deilt, hvort maður telst vinnufær eða ekki, að lögreglustjóri skeri úr um það. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að fullnaðar úrskurðarvald sé hjá nefndinni, hverjir teljist vinnufærir, en skv. hinu frv. má skjóta úrskurði lögreglustjóra til ráðuneytisins. Bæði þessi frv. vilja gæta fullrar mannúðar, enda er ekki að efa, að svo verði gert. Sá tími er löngu liðinn, að farið var ómannúðlega með styrkþega, og er það m. a. því að þakka, að landsmönnum hefir liðið betur tvo undanfarna mannsaldra.

Nú mætti segja, að ekki þyrfti neina þriggja manna landsnefnd til þess að taka á þessum málum, að hvert sveitarfélag geti sjálft séð mönnum fyrir vinnu. En reynslan sýnir annað. Við skulum taka bæ eins og t. d. Eskifjörð. Þar hafa verið miklir atvinnuörðugleikar, bærinn er orðinn of stór, og niðurstaðan hefir orðið sú, að þessum bæ hefir hvorki nægt það fé, sem hinir betur stæðu borgarar gátu greitt, né heldur jöfnunarsjóður, og hefir ríkissjóður orðið að koma honum til hjálpar. Þetta getur orðið svo víðar. Í vaxandi kreppu geta fleiri kauptún sagt: Við getum ekki séð fyrir okkar fólki, nema ríkið taki okkur á föst laun. Ég álít, að á Eskifirði séu ekki úrræðaminni menn en annarstaðar, en þar hefir ekki tekizt að koma á nokkurri nýjung í atvinnu- og framfærslumálum, nema greiðslunum úr ríkissjóði. Þótt ég hafi tekið Eskifjörð sem dæmi, er víða líkt á komið.

Ég veit t. d. um miklu stærri bæ en Eskifjörð — það er ekki Reykjavík —, þar sem bæjarstjórnin gerði þá tilraun, að láta þurfamenn bæjarins vinna fyrir bæinn, en þetta tókst ekki; bærinn hafði ekki nóg viðfangsefni og gat ekki kostað þá. Þetta var viðurkennt af einum frjálslyndum forráðamanni þessa bæjar.

Ég geri nú ráð fyrir, að það muni álit flestra þm., að nauðsyn beri til að skipa slíka landsnefnd, sem ferðist um til þess að kynnast ástandinu í sveit og bæ og leitist fyrir um, hvað unnt sé að koma því fólki fyrir í atvinnu, sem bæirnir hafa ekki þörf fyrir. Í frvgr. er ennfremur gert ráð fyrir, að n. hafi með höndum margskonar uppbyggingarstarf víðsvegar á landinu. Höfuðstyrkur slíkrar n. er auðvitað sá, að hún hafi stuðning þingsins að baki sér, enda eru ekki líkur til þess, að þessi tilraun verði gerð, nema því aðeins, að þingið styðji hana. Fari hinsvegar svo, að Alþingi felli þessa till., verður niðurstaðan án efa sú, að atvinnuleysingjunum á framfæri bæjanna fjölgar og þeir erfiðleikar aukast, sem því eru samfara.

Um aðrar einstakar greinar frv. get ég verið stuttorður. Ég vil þó lauslega minnast á þá grein, er lýtur að starfsmannahaldi ríkisins. Það má segja, að undanfarið hafi það verið ákveðin stefna í þjóðlífinu, að yngra fólkið leitar sér lífsviðurværis við innivinnu frekar en útivinnu og sækir í þéttbýlið úr dreifbýlinu. Þetta hefir haft þær afleiðingar í för með sér að óhemju aðsókn hefir verið að öllum launuðum störfum ríkis og bæja. Þetta hefir haft þau áhrif á þessa vinnu, að reynt hefir verið að koma þar að fleira fólki en raunverulega hefir verið þörf á, en það hefir enn í för með sér, að daglegur vinnutími hefir verið næsta stuttur.

Nú er það svo, að hvorki bændur né sjómenn hafa lögfestan hvíldartíma, þeirra vinnudagur er langur og án þess að þeir hafi nokkra kauptryggingu. Það er því ekki nema eðlilegt, að þeim finnist ekki megi minna vera en að það fólk, sem vinnur í skrifstofum, vinni nokkurn veginn dagsverk að tímalengd. Það er og vitað, að skrifstofufólk hefir yfirleitt ekki önnur þjóðnýt áhugamál, og að þeir eru fáir, sem vinna andlega vinnu í hjáverkum, eins og t. d. Jón Trausti gerði, sem var prentari.

Þá er og annað nýmæli í frv., en það eru samkeppnispróf um störfin. Hingað til hefir venjan verið sú, að menn hafa sótt um störf hjá ríkinu til forstjóra viðkomandi stofnunar, hann ræður svo fólk til starfans, og hefir stundum farið svo, að sá hæfasti hefir ekki orðið fyrir valinu, heldur hefir ráðið þar úrslitum kunningsskapur eða frændsemi, og hefir sumstaðar verið svo langt gengið, að heilar fjölskyldur hafa haft atvinnu við sömu ríkisstofnun.

Það er afareinfalt mál að koma á slíkum samkeppnisprófum, enda ekki óþekkt annarstaðar. Mér er af tilviljun kunnugt um, að fyrir nokkru var t. d. haldið samkeppnispróf í París milli kennara, er sóttu um enskukennslu við menntaskóla. Um 200 kennarar tóku þátt í prófinu, en aðeins 13 þeir beztu voru teknir. Einn af leiðandi mönnum hér hefir sagt mér, að einn starfsmanna sinna ynni á við þrjá aðra, sem ynnu þar á skrifstofunni. Þetta er þó enginn sérstakur yfirburðamaður, en hann vinnur verk sín fljótt og vel. Í einni stórri stofnun, sem er hálfgert ríkisfyrirtæki, er talið, að helmingur starfsmanna gæti afkastað þeim störfum, sem þar eru unnin, ef unnið væri af fjöri og kappi. Þetta er ekkert einsdæmi. Það orkar ekki tvímælis, að ef þessi aðferð yrði tekin upp, myndi starfsmannahópur á opinberum skrifstofum taka miklum stakkaskiptum, þar sem ríkið gæti þannig valið þá beztu úr, sem um stöðurnar sæktu.

Út af frvgr. um útvarpið vil ég minnast á það, að það hefir verið talsvert á orði undanfarið, hvort ekki væri gerlegt að gera fréttastofu útvarpsins að sérstakri deild, og tækju blöðin nokkurn þátt í rekstri hennar. Þetta myndi spara ríkinu nokkurt fé og ekki verða óhagstæðara fyrir blöðin.

Þá gerir frv. ráð fyrir að lækka afnotagjald þeirra útvarpsnotenda, sem ekki hafa straumtæki, um ? hluta. Höfum við hugsað okkur, að spara mætti svo á rekstri útvarpsins, að það kæmi á móti þessari lækkun afnotagjaldanna. Eins og kunnugt er, er það miklum erfiðleikum bundið fyrir þá útvarpsnotendur, sem hafa rafhlöður, að fá geymana hlaðna, og er auk þess kostnaðarsamt. Virðist því ekki nema sanngjarnt, að þeim verði veitt þessi ívilnun á afnotagjaldi. Ég vil geta þess til skýringar, að okkur hefir komið í hug, að spara mætti á rekstri útvarpsins með því t. d. að fella niður nokkuð af músik á laugardögum og sunnudögum og með því að útvarpa ekki svo mörgum jarðarförum sem gert er. Að vísu má segja, að útvarp jarðarfara beri sig, en þess má þó gæta, að mörg tæki útvarpsins eru mjög dýr, t. d. lamparnir, sem kosta frá 10–15 þús. kr. upp í 50 þús. kr., og er því nauðsynlegt, að þeir verði ekki fyrir óþarflega miklu sliti, þar sem gera má ráð fyrir, að erfitt verði að endurnýja þá, m. a. vegna skorts á erlendum gjaldeyri.

11. gr. frv. gerir ráð fyrir að fresta að prenta umræðupart þingtíðindanna fyrir árið 1940.

Þetta er nú ekki eins slæmt eins og komið hefir fram í sumum blöðum, að með þessari ráðstöfun eigi að loka þinginu, svo að almenningur geti ekki vitað um þær illu gerðir, sem hér eru framkvæmdar. Umræðurnar verða auðvitað skrifaðar eftir sem áður, og því hægt að gefa þær út síðar, þegar batnar í ári, en það geta þeir tekið ákvörðun um, sem þá lifa.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að greinum þeim, er vita að skólunum. Fyrir nokkrum árum var gerð breyt. á fræðslulögunum, sem lengdi starfstíma skólanna að mun. Eins og nú eru horfur með eldivið, er varla hægt að gera ráð fyrir, að skólarnir geti starfað svo lengi, og þótti þá heppilegt, að fræðslumálastjórnin gæti vikið þessu við, eftir því sem hentast væri.

Um aldurstakmark við inngöngu í menntaskólana get ég verið fáorður. Í háskólanum er nú svo komið, að 70 læknaefni stunda þar nám, og í lögfræðideild eru helmingi fleiri en þörf er fyrir í þau lögfræðistörf, sem ríkið hefir yfir að ráða. Það verður því ekki séð, að það sé nein þjóðarnauðsyn, að þessi stofnun verði gerð að barnaskóla. Margir foreldrar álíta, að börnin verði að byrja menntaskólanám við 12 ára aldur, en ég held því fram, að það sé of snemmt. Við erum nokkuð seigir og við endumst lengi, en við erum ekki bráðþroska. Það hefir líka verið svo gegnum aldirnar, að okkar skólar hafa ekki verið neinir barnaskólar. Ég held, að það sé ekki mikill skaði að því fyrir þjóðfélagið, þó að börnin séu ekki strax eftir að hafa setið í barnaskóla látin fara í menntaskólann og þaðan í háskólann. Það má m. a. geta þess, að ein ástæðan til þess, hvað erfitt reynist að fá embættismenn til að fara út í sveitirnar, er vafalaust sú, að börnin í kaupstöðunum, t. d. í Reykjavík, hafa ekki séð annað en Rvík og eru ókunnug lífsbaráttu sveitanna og venjast við að líta á það sem einhverskonar norðurpól, ef talað er um einhvern stað vestur eða norður á landi. Það kom fram í viðbótartill., að n. var ekki sammála um það atriði, hvort rétt væri að skylda unglinga til þess, sem fara í ríkisskóla, að hafa verið eitt ár í sveit og lært alla algenga sveitavinnu. Ég skýri frá því hér af því að það snertir þetta. En gr. um háskólann og takmörkunina þar hefði átt að vera búið að samþ. fyrir mörgum árum. Í læknadeild fóru t. d. í haust 28 nemendur, og sú deild hefir oft áður verið yfirfull. Það er engin ástæða fyrir okkar þjóð að vera að ala upp fleiri lækna en við höfum þörf fyrir. Það eina, sem hugsazt gæti fyrir þessa menn, er það, að þeir fengju eitthvað að gera í öðrum löndum. En þá er spurningin: Höfum við efni á því að leggja svo mikla áherzlu á það að ala hér upp lækna handa einhverjum mönnum langt úti í heimi? Við höfum meira en nóg við duglega menn að gera á ýmsum sviðum.

Ég sé ekki ástæðu til að tala meira um einstakar gr., heldur aðeins nefna það, að þetta frv. hefir fengið, eins og góðu börnin fá oft, mörg gælunöfn. Þetta frv. er í raun og veru einskonar mótmæli frá allmörgum mönnum, því menn eru farnir að koma auga á það, að innan þjóðfélagsins er að myndast einskonar linka, sem er þess eðlis, að hún gæti riðið okkur að fullu. Okkar land hefir fengið að kenna á því, eins og aðrar þjóðir, hvernig getur farið, ef ekki er til í landinu nógu sterk stj. Það má taka til dæmis Þýzkaland. Þar í landi voru eftir stríðið margir flokkar, en þó að þessa flokka greindi ekki mikið á, þá gátu þeir aldrei myndað sterka stj., og upp risu tveir öndverðir flokkar, sem gerðu það að verkum, að ástandið varð ennþá sjúklegra en áður, og allur þessi flokkadráttur endaði með því, að þar í landi var komið á einræði undir stj. Hitlers. Þetta sama átti sér einnig stað í Rússlandi, þó að það væri þá a. m. k. allt önnur stefna, sem þar varð ofan á. Þegar atvinnuástandið var sem verst í Þýzkalandi, voru þar um 7 millj. atvinnulausra manna. Þýzka þjóðin tók á þessum vandamálum í stórum stíl, en við verðum að láta okkur nægja að taka á þeim í litlum stíl. Þýzka þjóðin var búin að reyna frjálslyndu flokkana þar í landi, og þegar henni virtist, að þeir hefðu ekki orku til þess að rétta þjóðina við, þá hugsaði hún með sér: Við erum búnir að reyna frjálslyndu flokkana, — því þá ekki að reyna hina? Og þetta var einmitt það, sem þýzka þjóðin gerði.

Ég ætla ekki að fara að bera í bætifláka fyrir eða lofa gerðir nazistastj. þýzku; ég vil aðeins taka þetta sem dæmi til þess að sýna, hvernig farið getur fyrir lýðræðisríkjunum, ef þau finna ekki ráð til þess í tíma að bæta úr erfiðleikunum. Sem sagt, það, sem lýðræðisflokkunum ríður á að gera, þegar erfiðleikatímar standa yfir eins og t. d. núna, er það, að stjórna röggsamlega og láta ekki þá, sem vinna, finna, að á stjórninni sé nein linka. En það er því miður mjög mikið um þetta hjá okkur. Það má geta þess t. d., að í einn kaupstað fluttust á einu hausti um 50 fjölskyldur, og það án þess að minnstu líkur væru fyrir hendi til þess, að þær gætu haft möguleika til að vinna fyrir sér. Þannig hefir þetta gengið til á undanförnum árum, að það hefir farið vaxandi óánægjan meðal fólksins, sem vinnur. Ég á hér ekki eingöngu við þá menn, sem stunda almenna erfiðisvinnu, heldur einnig við hina, sem endilega vilja komast á „kontor“, þá menn, sem hugsa fyrst og fremst um það að velta erfiðinu yfir á aðra. Það er algerlega sami hugsunarhátturinn, sem ríkir í hinum ýmsu stéttum þjóðfélagsins, eins og hjá þessum 28 í læknadeild, sem ég var hér fyrir skömmu að tala um. Þess vegna er það, að ég get ekki annað en fylgt þeirri stefnu, sem fram kemur í þessu frv., og er það af því, að ég hefi trú á því, að við Íslendingar munum rétta okkur við, en við verðum bara að gæta þess, að verða ekki of seinir, — gá að okkur í tíma. Ég er alveg viss um, að það kemur bráðlega að því, að meiri hluti þjóðarinnar vill byrja á því að rétta þjóðfélagið við.

Ég mun nú ekki ræða mikið meira um þetta mál að sinni; ég veit ekki, hvort þetta mál ætti frekar að lokinni umr. að ganga til fjhn. eða allshn. Ég gæti trúað, að fjhn. hefði minna að gera, en ég vil vísa því til hæstv. forseta, hvað honum sýnist um þetta.