08.12.1939
Efri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í C-deild Alþingistíðinda. (2784)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Brynjólfur Bjarnason:

Þessu frv., sem hér liggur fyrir, hefir þegar verið nafn gefið og hlotið nafnið „höggormurinn“. Ég held, að þetta frv. beri nafn með rentu, — nafnið er vel valið, því að þetta frv. er í stuttu máli árás á íslenzka alþýðu. Hv. flm. frv. ræddi nú aðallega 1. gr., sem er nú líka eitt aðalatriðið, eins og frv. ber með sér. Þetta frv. hefir í för með sér gagngerða breyt. á því fyrirkomulagi, sem nú er. Þetta frv. og þær breyt., sem gerðar eru í sambandi við það, stendur í nánu sambandi við þær breyt., sem bornar eru fram hér á framfærslul., þær hafa verið hugsaðar samtímis 1. gr. þessa frv. og af sömu mönnum. Ég gat þess við 1. umr. um breyt. á framfærslul., sem lá hér fyrir d., hversu mikið vald sveitarstj. væri fengið í hendur yfir þurfamönnum. Nú er þetta komið miklu greinilegar í ljós, hvað hugsað er með þessu fyrirkomulagi, eftir að þetta frv. er komið fram. Það er beinlínis verið að stofna til þrælahalds, — önnur orð er ekki hægt að nota. Það á eftir þessari gr. að skipa 3 manna n., sem er gefið alræðisvald yfir allri atvinnubótavinnu, og hún fær alræðisvald til að ráðstafa atvinnulausum verkamönnum og framfærsluþurfum til vinnu. Hér kemur fram það, sem ég sagði í umr. um breyt. á framfærslul., að ég óttaðist þessa breyt. M. ö. o., það á að gera þurfamenn að þrælum, þeir mega ekki lengur vera frjálsir verkamenn. Og með þessari ófrjálsu þrælavinnu verður auðvitað vinnan tekin frá frjálsum verkamönnum og kaup þeirra verður troðið niður. Hvað snertir vald n. til að ráðstafa þurfamönnum á sveitaheimili, þá er ég ansi hræddur um, að það sé eins og sakir standa í sveitunum heldur minna pláss fyrir þessa menn en n. vill vera láta.

Sveitirnar eiga nógu erfitt með að framfleyta þeim, sem fyrir eru, þó að ekki verði þar bætt við.

Höfuðatriðið er það að með þessu móti er horfið að því ráði að halda uppboð eða öllu heldur niðurboð á þurfamönnum. Ef þetta verður samþ., þá þýðir það að hægt er að flytja menn til og frá með lögregluvaldi. Þá kæmi það fram, að þeir stórbændur, sem vantaði vinnukraft, myndu senda útboð til sveitarstj., en þær myndu keppast við að bjóða þurfamenn fyrir sem allra lélegust kjör, því aðeins lægsta tilboði yrði tekið. Það er samskonar undirboð, sem hér á nú að fara að lögleiða, og tíðkaðist áður fyrr og það, sem hingað til hefir ekki þótt sæma nútíma Íslendingum, en það er nauðungarflutningur á þurfamönnum. Hv. flm. þessa máls var að tala um það, hvað mikil sældarkjör þurfamenn hér ættu við að búa, — þessir menn sem fá 80 aura á dag, — það finnast honum vera „luksus“-kjör fyrir þá. Nei, sannarlega eru þessir níðingar, sem sitja hér á þingi og bera slíka svívirðingu fram .. (Forseti; Þetta eru ekki þingleg orð). Þetta er ekki heldur þinglegt frv. — Hv. þm. var að tala um, að það væru kannske sumir, sem heldur vildu hafa ástandið eins og það er, með miklum framfærsluþunga og vandræðum, sem af því stafaði, heldur en að reyna að útvega þessu fólki vinnu. Þetta er ekkert annað en slúður; enginn maður óskar eftir því, að það ástand haldist, sem nú er. En það á að benda þessum mönnum á atvinnu sem sæmir frjálsum mönnum.

Þessi hv. þm. fer fram á það, að fá að gera þessa menn að þrælum; allur hans rökstuðningur gengur út á það að gera þessa menn að þrælum, skaffa þeim nauðungarvinnu.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði um Þýzkaland og Rússland, þá er það að vísu alveg rétt að í þessum löndum á það sér ekki stað, að 5 þús. þurfamenn komi á hverja 100 þús. menn. En þessi leið, sem hv. þm. er að tala um að koma á hér, hún á sér ekki stað í Rússlandi; sú aðferð er löngu afnumin þar í landi. Í Rússlandi er ekkert atvinnuleysi til. Þar getur hver maður fengið vinnu, og þar af leiðandi þekkist það ekki að skipa atvinnuleysingjum til vinnu með þvingunarlögum, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Í Þýzkalandi var aftur farin sú leið, að skapa þurfamönnum vinnu við hervæðingu þjóðarinnar. Mér skildist á flm. till., að hann teldi rétt í þessu tilfelli að fara að dæmi Þýzkalands. En þar hefir atvinnan verið sköpuð með þeim hætti, eins og ég áðan sagði, að hervæða þjóðina til þess að fara í stríð, — sem nú er skollið á. Þau réttindi, sem þjóðin hafði á tímum Weimar-lýðveldisins, þótt hún ætti við bág kjör að búa, voru afnumin, þegar nazistar komust til valda. Þetta þótti hv. flm. fagurt fordæmi. Hann hrósaði mjög dugnaði þessara manna og af þeim vildi hann læra og láta Alþ. njóta þessa lærdóms síns. Það, sem lýðræðisflokkarnir hér eiga að gera, segir hv. flm., er að fara að dæmi Þýzkalands: Taka upp stefnu fasista og kalla hana lýðræði! Það er skemmtilegt og gott, þegar menn segja í hreinskilni skoðanir sínar og eru ekkert að klípa utan af þeim. Væri æskilegt, að þdm. vildu hlýða á hvaða stefna það er, sem verið er að taka hér upp.

Þá er það öryggið á sjónum, sem á með þessu frv. að eyðileggja að verulegu leyti. Mér datt í hug, um leið og ég las þessa gr., skrif hv. 1. þm. Reykv., þar sem hann skírskotar til norsku skipanna. Hann hefir orðið svo hamingjusamur að ferðast með þessum norsku döllum, og orðið mjög hrifinn af því, að þar vantar loftskeytatæki o. s. frv. Það er eins og frvgr., sem um þetta fjallar, sé hugsuð af hv. 1. þm. Reykv. Það er furðulegt, að í frv., sem borið er fram vegna núv. styrjaldarástands, skuli vera gerðar ráðstafanir til þess að eyðileggja öryggið á sjónum. Menn hefðu getað vænzt þess, að bornar hefðu verið fram till. um að auka það, ef hagsmunir sjómannastéttarinnar hefðu verið hafðir fyrir augum, jafnstórhættulegar og siglingar eru á þessum tímum.

Þá er í frv. opnuð leið fyrir atvinnurekendur til að hafa ótakmarkaða tölu námsmanna í iðngreinum, og þar með eyðilögð samtök iðnaðarmanna og réttur til takmörkunar á nemendafjölda. Með þessu er stefnt að því, að gera lærða iðnaðarmenn atvinnulausa og fá kaupið lækkað. — Þá segir í þessu dæmalausa styrjaldarfrv., að starfsemi rannsóknarstofu atvinnuveganna skuli falla niður! Þetta er falleg styrjaldarráðstöfun! Falleg ráðstöfun á tímum, þegar allra mest nauðsyn er á starfsemi þessarar stofnunar.

Þá á að takmarka tölu stúdenta við háskólann og nema fræðslulögin að nokkru leyti úr gildi. Við inntökupróf í 1. bekk menntaskólanna skal leggja megináherzlu á kunnáttu nemendanna í íslenzku og íslenzkum bókmenntum! Hvað finnst mönnum um styrjaldarráðstafanirnar? Það er eins og heili þeirra manna, sem að samningu þessa frv. hafa staðið, hafi verið í eitthvað skrítnu ástandi. Hvaða erindi á svona ákvæði í frv., sem flutt er vegna styrjaldarástandsins?

Þá er það líka lagleg ráðstöfun að leggja útvarpið undir stjórn þjóðstjórnarflokkanna sameinaðra.

Í stuttu máli: Stríðið er notað sem tækifæri til þess að gera hatramma árás á frelsi og mannréttindi þjóðarinnar. — Þegar um frv. vegna styrjaldarástandsins er að ræða, gæti maður vænzt þess, að þar kæmu fram till. um, hvað mætti gera til frekara öryggis fyrir sjómennina en nú er, — hvernig mætti gera þjóðina sem bezt sjálfbjarga, — hvernig mætti skattleggja stríðsgróðamennina, — hvernig mætti, í fám orðum sagt, framfylgja þeirri reglu, að eitt skuli yfir alla ganga. — En það er ekkert um þessa hluti í frv. því, sem hér liggur fyrir. Í frv. er ekkert annað en það, sem miðar að því að gera hlut alþýðunnar ennþá verri í skjóli stríðsins, ráðstafanir til þess að kúga og undiroka fólkið.