03.04.1939
Neðri deild: 33. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Þorsteinn Briem:

Herra forseti! Ég vil byrja á því að þakka hv. flm. fyrir þetta frv. Frv. ber vott um, að þeir, sem hafa haft sérstaka aðstöðu til að kynna sér sjávarútvegsmálin, hafa ekki komið auga á annað ráð en það, sem Bændafl. benti á fyrir 5 árum og hefir haldið fram sem réttlætismáli. Það er eftirtektarvert að heyra nú jafngreinilegt bergmál af því, sem Bændafl. hefir haldið fram, og í ræðu hæstv. atvmrh. Það er eftirtektarvert, að hv. þm. Ísaf. og meiri eða minni hluti hans flokks er farinn að skilja það, að ef framleiðslan hrynur, verður verkalýðurinn undir rústunum. Það er eftirtektarvert, ekki sízt þegar þess er minnzt, hvaða orð flokkur hans hafði um gengismálin fyrir síðustu kosningar. En þegar þeir taka loks að kynna sér málið, verða þeir að breyta um skoðun. Ég verð að láta í ljós fögnuð minn yfir því, að þessi þm. og ýmsir samflokksmenn hans hafa nú snúið frá villu síns vegar, og vona ég, að þeir, sem nýlega hafa lagt niður flokk sinn, verði nú jafnliðugir að leggja niður núverandi skoðanir sínar í gengismálinu.

Loks er eftirtektarvert að heyra yfirlýsingu hæstv. fjmrh. um, að varla mundi auðið nú að halda genginu óbreyttu. Það er eftirtektarvert að heyra svar hans til hv. 3. þm. Reykv., er hann svaraði honum um 22% svikin við launþega.

Hann spurði, hvað mætti þá segja um það, sem framleiðendum hefði verið boðið undanfarin ár. Mér þykir vænt um, að þessi viðurkenning er komin fram, þó að hún komi nokkuð seint. Ég vil samfagna hæstv. fjmrh. með þennan nýja skilning á málinu, þar sem hann lýsti yfir því, að þetta yrði til að auka álit landsins út á við. Ég held nú, að það hefði sízt rýrt okkar álit, þó að þetta hefði verið gert fyrr.

Ég skal játa, að ég hefi ekki haft nægilegt tækifæri til að lesa frv. ofan í kjölinn, svo sem slíku máli er samboðið, þar sem frv. var útbýtt nú fyrst í dag. En ég þykist þó geta fellt mig við það í aðalatriðum. Þó að framleiðslan sé illa komin, munu framleiðendur horfa bjartari augum fram á veginn, en það mun draga úr flóttanum frá framleiðslunni og í atvinnubótavinnuna á mölinni.

Þó að nú sé 1. umr. málsins, get ég ekki látið hjá liða að benda á nokkur atriði, sem ég vildi hreyfa aths. við. Í fyrsta lagi eru það tvö smærri atriði, sem við yfirlestur virðast ekki nógu ljós. Seint í 2. gr. ræðir um uppbót, ef laun eru minni en 300 kr. á mánuði. Ég vil spyrja hv. flm., hvort þá sé ekki lítið hald í ákvæðum næstu gr., um að ekki megi hækka kaup. Þá er í frv. ákvæði, sem skyldar útgerðina til að ráða sjómenn upp á hlut. Þó að ég sé því fylgjandi yfirleitt, verð ég að spyrja, hvort ætlunin sé, að þetta taki til togara nú á þessari vertíð. Ef svo er, er þá ekki óþörf töf, ef gera á nýjan hlutaráðningarsamning? Ég verð því að telja, að allharkalega sé farið að þessum framleiðendum, og vil mega vænta, að þessum ákvæðum frv. verði sanngjarnlega beitt gagnvart þeim framleiðendum, sem hér eiga hlut að máli. Þar verður að leggja ríka áherzlu á, að jafnhliða því, að þessi leið er farin, verði og gerðar aðrar sjálfsagðar ráðstafanir til léttis og viðreisnar fjárhag atvinnuveganna. Þar með á ég fyrst og fremst við, að kostað verði alls kapps um að spara öll útgjöld, sem unnt er, svo að skattþunginn dragi ekki út framtaki framleiðendanna. Ég vildi því óska yfirlýsingar frá stj. um það, hver verður væntanleg viðleitni hennar í þessa átt. Jafnframt vildi ég óska upplýsinga um það, hvort stj. hafi ekki hugsað sér að gera sérstakar ráðstafanir til þess að veita aðstoð við skuldaskil fyrir þann hluta framleiðenda, sem ekki hefir þegar fengið þau. Og loks vildi ég spyrja, hvaða ráðstafanir eru fyrirhugaðar, til þess að unnt verði að gera hreint borð í gjaldeyrismálunum út á við. Er þegar fyrirhugað að taka gjaldeyrislán, og ef svo er, hefir verið hafinn undirbúningur í þá átt, og ætlar ríkisstj. sjálf að taka lánið eða er bönkunum ætlað að hafa á hendi framkvæmd í því máli? Af því að ég er þessu máli fylgjandi, vil ég ekkert láta ógert til þess að leysa það sem bezt, og hefi ég þess vegna kastað fram þessum aths.

Skal ég svo ekki hafa fleiri orð um þetta, en vænti þess að fá þær upplýsingar, sem ég hefi beðið um.