22.12.1939
Efri deild: 91. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (2790)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

Ég vil taka undir það með hv. 10. landsk. (ErlÞ), að ég tel það alveg ófært, að sú meðferð verði höfð á þessum málum hér í hv. d., sem hæstv. forseti leggur til, sem sé að það verði hafðar um þau þrjár umr. hver á eftir annari og allt saman afgr. með afbrigðum. Það er ekki nóg með það, að ég vilji mótmæla þessum till., heldur vil ég líka mótmæla því, að þessi mál séu tekin á dagskrá í dag, áður en hv. þdm. hafa haft nokkur tök á því að kynna sér innihald þeirra. Þessum þskj. var útbýtt nú fyrst eftir að búið var að setja fund í dag. Og þegar þau eru tekin til umr., hafa hv. dm. alls ekki haft tækifæri til að lesa frumvörpin, hvað þá annað. Þetta er óviðunandi málsmeðferð um hvaða mál sem er, og þó sérstaklega um mál, sem þýða geysilega röskun á lífi þjóðarinnar. En það virðist vera svo, að það sé fyrst og fremst lagt kapp á, að slík óþingleg meðferð sé höfð um þessi mál, sem eru svo svívirðileg, að þau þola ekki dagsins ljós né að menn hafi tíma til þess að ræða þau í næði. Það lítur helzt út fyrir, bæði eftir þessum till. og eftir því, hvernig ætlað er með þær að fara, og ennfremur eftir ræðum þeim að dæma, sem fluttar hafa verið hér, bæði af hv. frsm. fjhn. og hæstv. atvmrh., að það sé ekkert annað en skrípaleikur að vera að leggja þessi mál hér fyrir þessa hv. d. Það er stöðugt klifað á þessu:

Það er samkomulag um þessi mál á milli stjórnarflokkanna, — og þar með á allt að vera klappað og klárt; þá á ekki að þurfa að ræða það meira! En hvað á þá þingið að þýða? Er þá ekki alveg nóg, að fulltrúar frá þessum þremur stjórnarfl., afturhaldsflokkunum, sem kalla sig lýðræðisflokka, komi sér saman um það, hvaða löggjöf skuli vera sett, og það svo tilkynnt þjóðinni? Hvað þýðir þá að vera að hafa Alþ. með öllum þeim kostnaði, sem það hefir í för með sér? Ekkert annað en að slá ryki í augu þjóðarinnar, með því að láta líta svo út, að lýðræði sé þar, sem ekkert lýðræði er, heldur klíkuskapur bak við tjöldin. Þessi klíkuskapur gægist fram í hverju máli, sem stjórnarflokkarnir koma fram með hér á Alþ., og þó sérstaklega í þessum málum, sem hér hafa verið rædd nú.

Ég get, eins og hv. frsm. fjhn., minnzt á öll þessi mál sameiginlega. Það er alveg óþarfi að ræða þau þannig, að hvert þeirra sé tekið út af fyrir sig. Því að hér er ekki í raun og veru um annað að ræða en höggormsfrv. En eftir er nú af því sáralítið í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Það er helzt 11. gr., um að fresta prentun Alþt. fyrir árið 1940. Það er nú eitt aðalafturhaldsákvæðið í þessu frv. (BSt: Prenta Rússar ræður þm.?). Já, já, það er allt saman prentað. Þetta afturhaldsákvæði, um að fresta eða fella niður prentun Alþt., er vitanlega gert til þess, að landslýðurinn geti sem allra minnst fylgzt með því, sem gerist á þinginu, sem er líka von. Það er eðlilegt, þegar um er að ræða eins skuggaleg vinnubrögð eins og hér eiga sér stað á Alþ., að þeir, sem að þeim standa, vilji, að sem fæstir geti með þeim fylgzt.

Annars skal það viðurkennt, að samkv. till. n. eru felld niður nokkur af hinum svívirðilegustu ákvæðum í þessu frv. En jafnframt því eru líka felld úr því þau ákvæði eða þær gr., sem helzt virðist vit í, eins og t. d. 18. gr. Ég vildi spyrja hv. n., hvers vegna hún hefir fellt einmitt þá gr. burt.

Þá kem ég að þessum höggormsungum, sem, ef þeir ná því að verða að l., eru það, sem aðallega verður eftir af höggorminum, ef þessar till. hv. n. ná fram að ganga.

Þá er það fyrst frv. um útvarpsrekstur ríkisins. Þar er lagt til, að fréttastofa útvarpsins verði í „praksis“ raunverulega lögð undir ritstj. blaða þeirra flokka, sem standa að ríkisstj. — m. ö. o.: Það, sem hér er farið fram á, er ekkert annað en það, að eftirleiðis verði fréttastofa útvarpsins, í staðinn fyrir að vera hlutlaus fréttastofa, eins og hún hefir átt að vera hingað til, með lagaákvæði gerð að áróðurstæki fyrir stjórnarflokkana í landinu. Í raun og veru virðist nú þegar vera verið að framkvæma þetta, án þess að nokkur l. séu fyrir eða komi þar til. En sem sagt, nú á að skipuleggja þetta með ákveðnum lagaákvæðum og breyta útvarpinu úr hlutlausri stofnun, sem það hefir átt að vera, í áróðurstæki fyrir stjórnarflokkana, — fyrir nú utan orðalagið á þessu. Það er svo „idiódiskt“ áróðurskennt eins og það væri tekið upp úr Alþýðublaðinu eða Morgunblaðinu. (Rödd af þingbekkjum: En ekki upp úr Vísi?). Ja, þó að Vísir sé stjórnarblað, þá skrifar hann ekki eins kjánalega stundum eins og Alþýðublaðið og Morgunblaðið; það verður þó að viðurkenna það, enda þó afstaða hans sé sú sama og hinna blaðanna.

Hvaða flokkar eru lýðræðisflokkar? Ég veit ekki betur en að allir stjórnmálafl. í landinu hafi lýðræði á stefnuskrá sinni. Þetta er því ekki annað en bjánalegt áróðursslagorð, að hér er talað um lýðræðisfl. í frv. Það, sem meint er með þessu, eru blöð stjórnarflokkanna. Það á að gera útvarpið að áróðurstæki fyrir þessa stjórnarfl. Það er ofur einfalt mál.

Þá er annað frv., sem er um breyt. á fræðslul., sem gengur m. a. út á það, að fjölga skuli kennslustundum í íslenzku en minnka að sama skapi kennslu í öðrum bóklegum fræðigreinum. Og það, sem þörf þykir á að minnka kennslu í þessum greinum, á að heita „vegna ófriðarástandsins í Norðurálfu“! Hvílík dæmalaus vitleysa! Auk þess er óþarft með öllu að setja löggjöf um þetta, því að það er hægt að auka íslenzkukennslu og minnka aðra kennslu í skólunum án þess að setja nein l. um það, með því aðeins að setja um það reglugerð. Ég sé ekki annað en að svona frv. eins og hér er á ferð sé borið eingöngu fram til þess að þóknast hv. 1. flm. höggormsins, þm. S.-Þ. (JJ). Það er dálítið vandgæft gamalmenni, og það þarf að gera ýmislegt, þó að það sé barnalegt, til þess að þóknast honum. En það er nokkuð langt gengið til þess að þóknast vandgæfu gamalmenni, að gera hæstv. Alþ. hlægilegt með því að flytja svona frv. eins og þetta er.

Þá er frv. um rannsóknarstofnun í þarfir atvinnuveganna við Háskóla Íslands, þar sem lagt er til, að yfirstjórn þeirra mála skuli vera í höndum 3 manna n., sem skipuð sé samkv. tilnefningu þriggja stærstu flokka Alþ., þ. e. stjórnarflokkanna. Þetta er líka barnaleg löggjöf. Yfirstjórn rannsóknarstofu háskólans falin á hendur 3 mönnum af stjórnarflokkunum!

Sama er að segja um frv. á þskj. 552. Þar á einnig að koma n., sem þannig er skipuð. Það er nákvæmlega það sama um það frv. að segja. Það er ekki nema gott, ef hægt er að koma því við, að reynt sé að spara að því er snertir störf fiskimálan. En þó þyrfti þar til að koma eitthvað annað en svona vitleysa, að skipa n. á þann hátt, sem hér er lagt til.

Ég held, að ég þurfi svo ekki að ræða um þetta meira. Ég vil alvarlega mótmæla því, að farið verði með þessi mál þannig, að hv. þdm. fái ekki tækifæri til að kynna sér þau áður en þeir greiða atkv. um þau.