22.12.1939
Efri deild: 91. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (2791)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Árni Jónsson:

Eins og hv. frsm. n. gat um, hefir þessu frv., sem er uppistaðan að þeim málum, sem við erum nú að ræða, verið valið ömurlegt heiti; höggormurinn.

Þeir, sem að þessum höggormi standa, sem lítið er nú orðið eftir af, hafa komizt út í gamlar biblíuskýringar um það, að höggormurinn hafi verið vitrasta dýr jarðarinnar og þess vegna nauðsynlegur í tilverunni. Ég hygg nú, að þótt höggormurinn hafi verið æði-slægur, þá hafi hann átt mjög erfitt uppdráttar fram að þessu, og eigi það í raun og veru enn. Því að það er nú svo, að þetta frv., sem vafalaust er borið fram af góðum huga og af þeirri viðleitni að bregðast nú mjög röggsamlega við þeim erfiðleikum, sem að steðja um þessar mundir, þá er það nú samt svo, að þó að miklir bokkar standi að þessu frv., þá hefir það fengið ömurlega útreið í þinginu, því að það er búið að skera það niður í marga parta, mörgu í því er alveg stungið undir stól, annað er komið fram í öðru formi, og loks eru einstaka atriði frv. látin halda sér.

Það er alveg rétt, sem hæstv. atvmrh. lagði áherzlu á, að frv. þetta hefir verið mikið rætt í flokkunum. Og þess vegna er ekki ástæða til að ræða það nú, vegna þess einnig, að nú er komið nærri þinglausnum. Samt hygg ég rétt að láta það álit í ljós, að þetta mál ber þannig að hér á hæstv. Alþ., að það er alls ekki til eftirbreytni. Og þótt að þessu sinni sé látið við svo búið standa, má alls ekki skilja það svo, að sumir þm. séu ánægðir með það, hvernig það hefir borið að. Ég tel, að þetta mál hafi ranglega að borið og sé slíkt sízt til eftirbreytni fyrir störf þingsins, að nefndir fari að taka upp óskyld mál, sem vel geta ekki talizt til þeirra starfsviða, og beri þau fram.

Ég ætla ekki að ræða nema eitt atriði af því, sem hér er nú til umr., nefnilega 17. gr. í upphaflega frv. (höggorminum), sem ég verð að segja um, að mig furðar á, að hér hefir verið upp tekin af hv. fjhn., vegna þess að ég tel, að ákvæði 17. gr. sé ekki einungis óþarft, heldur líka varhugavert, sem sé að lækka afnotagjald þeirra útvarpsnotenda, sem ekki hafa straumtæki, niður í 20 krónur. Nú er afnotagjaldið 30 kr., og ég hygg, að það hafi verið uppi allmiklar raddir um það fyrir nokkrum árum síðan, að þetta þætti fullhátt. En þessar raddir eru miklu færri nú en þá var. Ber m. a. það til, að verðgildi peninganna hefir nú breytzt svo, að ef þetta afnotagjald yrði lækkað nú niður í 20 kr., þá væri það samsvarandi því, að afnotagjaldið væri nú 14 kr., miðað víð 30 kr. áður, þegar tekið er tillit til verðfalls krónunnar.

Annað er í þessu sambandi, sem ég vil undirstrika, sem útvarpsstjóri hefir bent á í bréfi, sem hann hefir sent hv. þingmönnum, sem ég er ekki viss um, að allir hv. þm., í þeim önnum, sem nú steðja að, hafi athugað eins vel og vert hefði verið. Áður en ég vitna í þetta bréf, vil ég enn segja það, að þó ég telji bændur alls góðs maklega, þá hygg ég, að þessi lómur, sem sífellt er barinn fyrir þá, sé ekki mjög að skapi þeirra eins og nú horfir, vegna þess að sem betur fer er ýmislegt, sem hefir gerzt nú, og sérstaklega síðan styrjöldin byrjaði, sem gerir það að verkum, að bændur úti um land standa æðimiklu betur að vígi nú heldur en áður var. Vil ég sérstaklega benda á það, að það hefir orðið gífurleg hækkun á gæruverði, svo mikil, að gærurnar gera nú í sumum tilfellum eins mikið að verðmæti eins og var fyrir nokkrum árum síðan í lambinu öllu saman með kjöti, gæru og mör, svo að þetta hefir náttúrlega sín áhrif til þess að bæta efnahag bænda og gera þessar 30 krónur, sem afnotagjaldið hefir verið, dálítið léttbærara að greiða en annars. Þess vegna hygg ég, að ekki séu háværar kröfur um það frá bændum nú, að þetta sé lækkað. En með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa upp nokkurn kafla úr bréfi útvarpsstjóra til þm.

„Samkvæmt útreikningi verkfræðings útvarpsins er árlegur kostnaður vegna raforku- og lampastraumtækja þar, sem raforkuverð er mjög hátt, eins og t. d. á Siglufirði, Stykkishólmi og mörgum öðrum kaupstöðum og kauptúnum landsins, hærri en rekstrarkostnaður rafhlöðutækja í sveit. Kemur þar m. a. til greina hærra verð straumtækja en rafhlöðutækja. Af þessu leiðir, að aðstöðumunur manna í landinu um hagnýtingu útvarpsins yrði ekki jafnaður með slíkri ráðstöfun, heldur þvert á móti aukinn, og myndu fátækir verkamenn í kaupstöðum og kauptúnum ekki síður eiga kröfurétt um slíka tilhliðrunarsemi. Enda mun það flestum kunnugt, er til vilja þekkja, að verkamenn yfirleitt eiga örðugra um að veita sér þessi þægindi heldur en bændur í sveitum landsins.“

Þá bendir útvarpsstjóri ennfremur á það, að útvarpið hafi á seinni árum leitazt við að jafna aðstöðumun útvarpsnotenda á þann hátt að styrkja menn til að koma sér upp litlum hleðslustöðvum í sveitum landsins.

Í þriðja lagi bendir hann á það, að innheimta mishárra afnotagjalda mundi valda því, að það þyrfti að taka upp nýja skýrslugerð, og þar með nokkrum örðugleikum.

Loks bendir útvarpsstjóri á það, sem ég vildi, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp, og það er á þessa leið:

.,Eftir því, sem næst verður komizt, munu nú vera í landinu og á fiskiflotanum um 4500 rafhlöðutæki. Tekjuskerðing ríkisútvarpsins yrði af þessari ráðstöfun kr. 45000.00. Á það er og vert að benda, að greiðsla afborgana og vaxta, sem ætlazt er til að hvíli á ríkisútvarpinu um næstu tíu ár, hefir hækkað verulega vegna gengisfalls íslenzku krónunnar. Þá munu og hækka stórlega í verði varahlutir til stöðvanna. Má t. d. benda á það, að hvor þeirra aðallampa, sem notaðir eru í sendinum á Vatnsendahæð, kostar kr. 30000.00. Fjárhagsleg skakkaföll af viðhaldinu geta því á næstu árum orðið miklu meiri en gert hefir verið ráð fyrir.“

Ég held, að það sé óþarfi, að ég tilfæri fleira úr bréfi útvarpsstjóra. Ég hygg, að það sé allt rétt, sem hér er sagt í því, sem ég hefi lesið upp, og ég les það upp vegna þess, að ég var hræddur um, að hv. þdm. hefðu ekki kynnt sér þetta eins og skyldi, vegna þess, hvað hv. þm. eru nú önnum hlaðnir.

Ég vil nú segja fáein orð um það, hvers vegna ég er á móti þessari breyt. Ég held, að tæplega séu nú fyrir hendi þær ástæður, sem betur fer, vil ég segja, sem geri þetta nauðsynlegt. Þó hagur bænda sé ekki sem skyldi, þá mun hann ekki vera svo bágborinn, að þess vegna þurfi að bera fram þessa 10 kr. lækkun á afnotagjaldi útvarpstækjanna. En hér kemur fram aðstöðumunur. Það er ljóst, að ýmsir útvarpsnotendur í kaupstöðum eiga erfiðara með að borga þetta afnotagjald en þeir, sem rafhlöðutækin eiga í sveitunum. Sá munur mundi aukast, ef gr. yrði samþ. Þetta munar aðeins 10 kr. á ári fyrir hvern einstakling, en fyrir stofnunina munar það 45 þús. kr. — Ég held, að háttvirtir þingmenn ættu að geta sætt sig við það, að gr. félli niður.