22.12.1939
Efri deild: 91. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2792)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Erlendar Þorsteinsson:

Eins og nál. á þskj. 546 ber með sér, skrifaði ég undir það með fyrirvara. Fyrst og fremst er ég algerlega mótfallinn formi frv. í heild, og það þrátt fyrir breytingarnar, sem ég vona, að bæti nokkuð um það. Flestar verstu eiturtennurnar eru nú dregnar úr „höggorminum“, og ég vildi ekki skera mig úr öðrum nefndarmönnum með því að mótmæla, að frv. fái afgreiðslu í hinni breyttu mynd. Einstökum liðum þess vil ég þó mótmæla og greiði gegn þeim atkv. Ég er algerlega móti frv. um fiskimálanefnd á þskj. 552. Um 7. brtt. er ég samþykkur hv. meðnm. mínum að því, er fyrri hl. snertir, en mótfallinn seinni hl. Einnig er ég mótfallinn 11. gr. frv., um að fresta prentun á umræðuparti þingtíðinda 1940, og mun greiða atkv. móti henni, því að ég tel það ekki vansalaust að fella niður þá einu heimild, sem fólkið í landinu hefir, ef það notfærir sér hana, til að vita um afstöðu þm. til mála.

Ég get ekki fallið frá þeirri till. að vísa þessum frv., sem n. tók að sér að flytja, til nefndar eins og öðrum frv. Ég tel það brigðmælgi við mig sem nm., ef það er ekki gert. Þegar ég minntist á, hvort við ættum ekki að flytja þau persónulega, var svarað, að það skipti engu, þau færu í nefnd hvort sem væri.

Um frv. um fiskimálanefnd verð ég að segja, að enn er ekki upplýst, hver tilgangurinn er með því, og þótt ég vilji ekki fara þar út í einstök atriði nú, áskil ég mér rétt til að gagnrýna það frv., þegar það verður tekið fyrir.