23.12.1939
Efri deild: 92. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (2800)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Erlendur Þorsteinsson:

Ég vil lítillega gera grein fyrir brtt., sem ég hefi borið fram á þskj. 582. Þessi brtt. er í fyrsta lagi um það, að 4. gr. frv., eins og það er nú á þskj. 569, falli niður, en í þeirri gr. er ákveðið, að fresta skuli prentun umræðuparts Alþt. fyrir árið 1940. Ég gerði grein fyrir því í gær, að ég teldi ekki vansalaust, ef nú ætti að taka upp þann sið, að hætta að prenta þingtíðindin. Það er vitanlegt, að þau eru það eina gagn, sem almenningur getur fengið til þess að fá vitneskju um, hvað fram fer hér á Alþingi. Aðeins lítill partur af því fólki, sem á heima hér í Reykjavík, hefir tækifæri til að koma hingað og heyra það, sem hér fer fram. Þess vegna hefir allur sá fjöldi, sem getur ekki komið hingað, engin tök á að fylgjast með þeim umr., sem hér fara fram, ef hætt verður að prenta þingtíðindin.

Hin brtt., sem ég flyt, er um það, að þeir útvarpsnotendur, sem hafa straumtæki og verða að greiða meira en 30 kr. á ári fyrir rafmagn til þeirra, fái afnotagjald sitt lækkað niður í 20 kr. á ári. Þeir menn, sem helzt eru dómbærir um þessa hluti, segja, að þar, sem kwst. er 30–40 aura eða meira, verði straumtækin dýrari í rekstri en rafhlöðutæki. Einnig eru þau dýrari sjálf, svo að kostnaðurinn hjá þessum útvarpsnotendum er þannig meiri en hjá öðrum. Ef á annað borð á að lækka afnotagjald hjá einhverjum útvarpsnotendum, þá væri það ranglátt að lækka einungis hjá þeim, sem hafa ekki straumtæki, en hafa gjaldið óbreytt hjá þessum mönnum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessar brtt., en vona, að hv. d. sjái sér fært að samþ. þær.