23.12.1939
Neðri deild: 92. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (2813)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Einar Olgeirsson:

Ég sé, að það muni eiga að fara um þetta frv. eins og sum önnur, að ekki muni eiga að hafa framsögu fyrir því. Það verður að segja viðvíkjandi þessu frv., að það lítur miklu sakleysislegar út en upprunalega, og eins og nú er komið, þá er búið að taka ýmislegt af því versta út úr því, en því miður er það nú ekki allt glatað, heldur hefir sumt af því verið sett inn í ýms önnur frv. Það, sem ég tel sérstaklega athugavert við þetta frv., er í sambandi við 4. gr., og ég sé ekki, hvaða sérstaka þýðingu það hefði að vera að samþ. þetta. Það er auðvitað gengið út frá því, að það verði eftir sem áður skrifaðar umr., og eigi þá bara að geymast upp á það, að þær verði ef til vill prentaðar síðar. Ég álít þess vegna, að það borgi sig ekki að vera að samþ. þetta, heldur ætti að halda áfram að prenta þingtíðindin jafnóðum. Ég álít, að „kontrolið“ á þinginu sé ekki orðið svo mikið, að það megi nú við að hætta líka að prenta umræðupartinn.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta mál, en vildi aðeins lýsa andstöðu minni við það.