29.12.1939
Neðri deild: 96. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (2822)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Frsm. meiri hl. (Sveinbjörn Högnason):

Eins og nál. á þskj. 621 ber með sér, hefir meiri hl. fjhn. lagt til, að tvær gr. úr frv. verði felldar niður, en fluttar aftur sem brtt. við annað frv., sem sé ákvæðin um bráðabirgðabreyt. nokkurra l., þar sem n. áleit það betur við eigandi. Hér er um að ræða ákvæði 1. og 4. gr. frv., sem eiga tvímælalaust betur heima á hinum staðnum. Þó að n. væri öll sammála um, að þessi ákvæði ættu þarna heima, ef þau væru samþ., get ég þess, að hver nm. telur sig hafa óbundnar hendur um það, hvort hann samþ. þau sjálf. Ég veit t. d. til þess, að ýmsir nm. eru mótfallnir ákvæði 4. gr. um að fresta prentun á umræðuparti þingtíðindanna fyrir 1940, — a. m. k. er ég þessu mótfallinn. En n. hefir sem sagt orðið ásátt um, að formlegra muni vera að flytja þessi ákvæði yfir í hitt frv. sem brtt. En þegar þessar tvær gr. hafa verið felldar úr frv. og fluttar sem brtt. við annað frv., eru aðeins þrjú atriði eftir, sem felast í 2., 3. og 5. gr. frv., og hefir meiri hl. n. lagt til, að þau verði samþ., en minni hl., hv. 6. þm. Reykv., leggur til, að þau verði felld. Meiri hl. n. leit hinsvegar svo á, að þegar búið væri að breyta frv. svona verulega, ætti fyrirsögn þess ekki lengur við, og væri þá ekki lengur um að ræða bráðabirgðaráðstafanir, heldur sérstaka löggjöf. Því leggur n. til, að fyrirsögn frv. verði miðuð við aðalefni þess, er virðist felast í 3. gr. þess um greiðslu á tekjum ríkisstofnana til ríkissjóðs, og leggur hún til, að það verði kallað: „Frv. til l. um greiðslu á tekjum ríkisstofnana til ríkissjóðs o. fl.“. Einn hv. nm. hafði ætlað sér að bera fram brtt. við 3. gr. frv., um að gr. félli niður, en ég held, að hún sé ekki komin fram.

N. hefir sem sagt orðið ásátt um þessa afgreiðslu málsins, en hefir óbundnar hendur um samþykkt einstakra atriða frv.