29.12.1939
Neðri deild: 96. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í C-deild Alþingistíðinda. (2824)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Pálmi Hannesson:

Herra forseti! Ég skal játa það, að mér rennur til rifja, hvernig komið er fyrir þessu frv. Frv. er hrakið og hrjáð og síðan afklætt, þangað til það stendur nakið og bert. Ein af þessum fáu tætlum, sem enn eru eftir, virðist mér þó verða að falla burt. Það er 5. gr. Hv. 6. þm. Reykv. lét þess getið, að ekki myndi þurfa ákveðinn lagastaf til þeirra efnisbreyt., sem sú gr. felur í sér. Ég hygg, að svo sé ekki. Mér er kunnugt um, að ráðh. sá, er hefir ríkisútvarpið til meðferðar, hefir á sínu valdi að breyta og ákveða till. um gjöld notenda.

Í annan stað vekur það nokkra undrun, að menn skuli nú á þessum tímum finna upp á því að vilja gera þær ráðstafanir, sem felast í 5. gr. þessa frv., þegar vitað er, að gengi peninganna hefir hreyfzt, íslenzka krónan hefir lækkað, og slíkt leiðir til hækkunar á því, sem ríkisútvarpið þarf að kaupa til dagskrár og annars. Engu að síður væru það tiltök, ef það væri talin nauðsyn að gera þessar ráðstafanir til þess að fá komið á jöfnuði milli þeirra, sem greiða gjöld til útvarpsins. En er það nú vafalaust, að þetta ákvæði sé sett í frv. einmitt til þess? Ég vil vekja athygli hv. Nd. á því, að enda þótt viðurkennt sé, að þeir, sem hafa rafhlöðutæki, eiga við allmikla erfiðleika að etja að fá rafhlöður sínar hlaðnar, þá eru tæki þeirra ekki dýrari í rekstri heldur en þeirra, sem nota rafstraumstæki, með þeim taxta, sem gengur og gerist á rafmagni hér á landi. Það hefir verið reiknað út af verkfræðingi útvarpsins, að mikil áhöld muni vera um það, með því verði, sem var á rafmagni til skamms tíma hér í Reykjavík, hvort það yrði nokkuð dýrara að reka útvarpstæki á þann hátt heldur en með því að nota rafstraum. Ef samþ. yrði að lækka afnotagjöld þeirra, sem hafa rafhlöðutæki, eins og farið er fram á í þessu frv., þá geri ég ráð fyrir, að hv. þm. yrðu að horfast í augu við þá staðreynd, að þetta yrði ekki tiltækilegt, nema að lækka líka afnotagjöldin hjá þeim, sem búa við dýran rafstraum, eina kr. á kwst. eða meira. Það er allt annað en réttlæti að mínum dómi, ef fara ætti þá leið, sem þetta frv. leggur til, til þess að bæta óhaganlega aðstöðu þeirra, sem rafhlöðutæki nota, en þá væri heldur að fara í þá átt, sem gert hefir verið undanfarið, að koma upp sem víðast hleðslustöðvum. Bilanir hjá þeim, sem búa langt frá hleðslustöðvum, hafa verið það óþægilegasta fyrir þá, sem þessi rafhlöðutæki hafa. Aftur á móti halda forsvarsmenn þessa ákvæðis því fram, að styrkur til hleðslustöðva eigi að standa í stað, vera jafnhár sem áður. En hvert lendir þetta? Það mun varla geta hjá því farið, að þegar á næsta Alþ. komi fram kröfur um að lækka afnotagjöld þeirra, sem eiga við dýran rafstraum að búa, því að nú er orðið öruggt, að felldur verði niður að allmiklu leyti styrkur til hleðslustöðva. Sú lækkun, sem leiðir af ákvæðum 5. gr., ef samþ. verður, nemur 48 þús. kr. á ári fyrir ríkisútvarpið, og styrkur til hleðslustöðva á að lækka um 20 þús. kr. Ég álít heppilegra að hækka styrkinn til hleðslutækja, en láta afnotagjöldin haldast óbreytt eins og þau hafa verið, því að ef sú leið yrði farin, myndi það verða til meira hagræðis fyrir þá, sem hafa rafhlöðutæki.

En eins og nú stendur, er það nokkurn veginn víst, að ef þetta ákvæði verður lögfest, þýðir það rekstrarhalla hjá ríkisútvarpinu. Væntanlega yrði næsta afleiðingin sú, að dagskrá útvarpsins yrði verulega skorin niður, því að um ýmsan annan kostnað við útvarpið er það að segja, að það eru að mjög miklu leyti fastir liðir, en dagskrá útvarpsins myndi verða stytt verulega. Mér er til efs, að hv. þm. sé það fullljóst, að það eru afarmiklir erfiðleikar á því fyrir ríkisútvarpið að halda þeirri bylgjulengd, sem það notar nú, því að í hinum stóru löndum, er hafa margar langdrægar útvarpsstöðvar, er hver einasta öldulengd, sem stöðvarnar nota, borin saman við aðrar, og um þá öldulengd, sem íslenzka útvarpið notar, er það að segja, að því er alltaf haldið fram, að íslenzka útvarpsstöðin hafi öldulengd, sem ekki sé notuð nema að mjög litlu leyti, og Íslendingar hafi eigi siðferðislegan rétt á því miðað við orku stöðvarinnar. En fyrst svo er, þá myndi það reynast afarerfitt að halda þeirri öldulengd, sem íslenzka útvarpsstöðin hefir fengið undanfarið, ef dagskráin yrði stytt. Það er fullkunnugt, að það hafa orðið meiri og meiri erfiðleikar á því, eftir því sem árin hafa liðið.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en læt þess getið, að ég sé mér ekki fært að greiða atkv. með þessari gr., og ég vil leggja til, að hv. dm. samþ. hana ekki heldur. Aftur á móti er ég ráðinn í að vera með því að gera breyt. í þá átt, að hækka styrk til byggingar hleðslustöðva.