03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (2829)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Pétur Ottesen:

Ég vildi aðeins út af ummælum hv. 1. þm. Skagf., þar sem hann fann að því, að lækkað væri afnotagjald af útvarpstækjum í sveitum, og vildi færa þær ástæður, að þeir, sem hefðu rafhlöður, væru ekki verr settir en hinir, sem hefðu rafmagn, segja það, að ástæður sveitamanna eru þær, að þeir verða að kaupa rafhlöðurnar til þess að geta fengið „raddirnar“ heim til sín, en þessar rafhlöður hafa verið dýrar, og nú tekur þó alveg steininn úr um það, því mér hefir sagt forstjóri raftækjaverzlunarinnar, að þær hafi hækkað í innkaupi um 87%, og þó þessi hækkun hafi ekki komið fram í útsölu enn, þá kemur hún áreiðanlega innan skamms, og þá sjáum við, hver aðstaða þessara manna er, auk allrar þeirrar fyrirhafnar, sem af því leiðir að láta hlaða þessi tæki, en til þess verður oft að fara langar leiðir. Auk þess er mjög vandfarið með þessi tæki. Má í þessu sambandi einnig bæta því við, að það þarf rafmagn til að hlaða rafhlöðurnar, og losna því sveitamennirnir ekki við þann kostnað, sem hv. þm. segir, að þeir, sem í bæjunum búa, hafi. Það er enginn vafi á því, að miklu dýrara er að starfrækja útvarp í sveit en í kaupstað. Ef þess vegna á að byggja á þeim grundvelli, að allir landsmenn hafi sömu aðstöðu til að notfæra sér þessi þægindi, þá leiðir það af sjálfu sér, að mismunur sé gerður á um greiðslu afnotagjaldsins. Útvarpsstjóri telur, að það séu um 45–50 þús., sem útvarpið mundi tapa á þessu. Í þessu er ekki talið innheimtugjaldið, sem er þó verulegt.

Ég vænti þess, að hv. dm. geti fallizt á þá sanngirniskröfu dreifbýlismanna, að sýndur sé litur á að létta á þeim í þessu efni, svo að þeir geti hagnýtt sér útvarpið. Er full þörf á að gefa þeim kost á þessu og stuðla þannig að því, að þeir sópist ekki allir á mölina og þurfi að fara á annara framfæri. — Fer ég svo ekki lengra út í þessa sálma.