03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (2831)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Finnur Jónsson:

Hv. 1. þm. Skagf. hefir upplýst, að óþarft sé að setja l. um þetta, þar sem ráðh. hefði í hendi sér að ákveða afnotagjöldin. Við umr. annars frv. hér í dag var einnig upplýst, að stj. hefði heimild til að ákveða það, sem í því fólst. Það verður nú að teljast meira en lítið undarlegt, er hv. þm. eru að eyða svefntíma sínum til að bera fram slík lagafrv., sem reynast vera alveg óþörf og út í bláinn, þegar til kemur. Það getur verið, að hér gildi það, að aldrei sé góð vísa of oft kveðin, en maður hefði annars haldið, að löggjöfin ætti að vera sem einföldust, en ekki sem flóknust. Annars er þetta frv. komið hingað inn í hv. d. svo á sig komið, að enginn þekkir það sem þá fyrstu sköpun, er það hafði, er það kom fyrst inn í þingið. Frv. þetta hefir hlotið nafnið „höggormurinn“. En eini dýrafræðingurinn hér í hv. d. lýsti yfir því, að hann þekkti ekki lengur, hvaða skepna þetta væri, og fyrst búið væri að fara svona með hana, væri ef til vill réttast að vísa henni til Dýraverndunarfélagsins. En fyrst ekki er hægt að bera fram þvílíka till., vildi ég leggja til, að það yrði jarðað í þeim kirkjugarði þar sem Alþingi jarðar í þær till., er það vill ekki láta koma fram aftur, og geri ég það því að till. minni, að frv. verði vísað til ríkisstj. (PHann: Það er kirkjugarðurinn! — PO: Eru það dauðra manna grafir?). Hv. þm. Borgf. hefir oft flutt till. um að vísa til stj. ýmsum till., til þess að láta þær aldrei sjást framar í sölum Alþingis. (PO: Aldrei hefi ég orðað það svo). Ég veit ekki, hvernig hv. þm. hefir orðað þær till., en ég tel mér ekki skylt að orða mínar till. sem hann, þó að ég vilji ekki með því segja, að ég vilji ekki líkjast honum í ýmsu. En um frv. eins og það lá fyrir í fyrstu má segja, að það væri dæmi um nýja aðferð í löggjöf, þar sem tekin voru ýms óskyld lagafrv. og skeytt saman í eitt. Slík löggjafarstarfsemi fer í bága við það, sem við höfum hér álitið vera þingræði, og þekkist slíkt ekki nema í verstu einræðislöndum. Frv. átti að vera nokkurskonar þjófalykill, sem gengi að allri löggjöfinni og hægt væri að opna með allar hennar skrár. Nú hefir þessi óskapnaður verið kveðinn hér niður að mestu leyti, og tel ég, að honum væri bezt borgið með því að fela hann umsjón ríkisstj.