03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í C-deild Alþingistíðinda. (2832)

152. mál, bráðabirgðaráðstafanir

*Pétur Ottesen:

Út af því sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að nú væru að koma á markaðinn nýir lampar, sem eyddu minni straum en þeir eldri, vildi ég taka það fram, að þetta jafnar ekki fyrir sveitunum, því að það kemur jafnt í hag kaupstöðunum sem sveitunum. Þetta jafnar því ekki það, sem á hallast milli kaupstaðabúa og dreifbýlismanna. Hv. þm. sagði og hv. þm. Ísaf. tók undir það, að ekki væri þörf að setja l. um þetta, því að ráðh. gæti ákveðið afnotagjöldin. En hvað hefir ráðh. gert til að verða við fram komnum óskum í þessa átt? Og hv. þm. mega gjarnan minnast þess, að Alþingi stendur yfir ráðh. og getur sagt sitt orð, hvað svo sem ráðh. vill gera, og því er þetta mál hér borið fram á þinglegan hátt. Ég fer ekki út í till. hv. þm. Ísaf., að vísa málinu til stj. Frv. er frá stj. sjálfri, og skil ég ekki vel, hvað hv. þm. ætlast fyrir með till. sinni. Annars hefi ég ekki vitað geipilegar ráðizt á ríkisstj. af stuðningsmanni hennar en hv. þm. Ísaf. gerði með því að líkja ráðuneytinu við dauðra manna grafir, þar sem um reika nábleikar vofur, hjúpaðar í líkklæði. Nei, guði sé lof, þá þurfum við á öðru að halda, annarskonar stj. á þeim tímum, sem nú eru.

Annars getum við verið allánægðir með afdrif þessa frv. Er þegar búið að samþ. 5 l. úr því, sem hv. þm. hefir tekið á sína arma og stutt, og er ekki annað eftir en leita staðfestingar konungs á þeim. Að vísu heltist nokkuð úr lestinni, en meiri hl. er þó orðinn að l. Og ég er ekki í vafa um, að hæstv. ríkisstj. sér um, að þetta frv. verði líka að l. á sínum tíma og fái konungsstaðfestingu.