03.04.1939
Neðri deild: 33. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson) :

Ég vil fyrst taka til athugunar nokkrar fyrirspurnir, sem hv. þm. Seyðf. bar fram í ræðu sinni í dag. Hann spurði fyrst, hvort lifrarþóknun til sjómanna á togurum kæmi undir ákvæði þessa frv. um kauphækkun móti verðlagshækkun. Ég lít svo á, að það hljóti að verða þannig, því að í úrskurði frá 21. marz 1938, um kaup og kjör á botnvörpungum, er þóknun af lifrarfati talin með í kaupgjaldi sjómanna, enda er vitað, að þessi þóknun af lifur hefir undanfarið verið skoðuð sem hluti af kaupi. Um aðra fyrirspurn hans, snertandi aflaverðlaun á síldveiðum, er það að segja, að ákvæðin um aflaverðlaun hljóta að standa óbreytt. Er það líka augljóst mál, að premia sjómanna á síldveiðum hlýtur að hækka af sjálfu sér, þegar verðhækkun verður á síld, og það jafnt, af hvaða ástæðu sem síldin hækkar í verði.

Vegna þriðju fyrirspurnar hv. þm. hefi ég kynnt mér þau tilfelli, þegar sjómenn ráða sig gegn ákveðinni þóknun, miðað við fiskimagn, en ekki fyrir venjulegt kaup. Ég lít svo á, að þessir samningar hljóti að standa óhaggaðir þrátt fyrir ákvæði 2. og 3. gr. þessa frv.

Út af fyrirspurn hv. þm. Seyðf. (HG) um starf verðlagsn. get ég getið þær upplýsingar, að sú n. er tekin til starfa og hefir gert verðlagsákvæði um einstakar vörutegundir, og verður því starfi haldið áfram, þar sem stj. leggur áherzlu á að halda niðri verðlagi á vörum, eftir því sem föng eru á. Ég get einnig tekið það fram, að innflutningur á nokkrum ákveðnum nauðsynjavörutegundum mun verða gefinn frjáls.

Hv. þm. V.- Sk. (GSv) flutti hér ræðu og beindi nokkrum ásökunum í garð formanns mþn. þeirrar, er rannsaka skyldi hag og rekstur togaraútgerðarinnar. Hann sagði, að formaður þeirrar n. hefði hindrað, að skýrslur og till. n. kæmu fram. Nokkuð í sama tón talaði hv. 6. þm. Reykv. (SK). Um störf þeirrar n. upp á síðkastið, get ég gefið þær upplýsingar, að við, sem sæti áttum í n., héldum fund rétt áður en þingið hófst. Þá afgr. n. að vísu engar till., en málið lá þá ljóst fyrir, og strax eftir að þingið kom saman var til þess ætlazt, að einstakir nm. gerðu grein fyrir málunum, hver innan síns flokks, til þess að unnt væri að athuga möguleika fyrir því að fá samkomulag um ákveðna leið í þessu máli. Þetta vita báðir þessir hv. þm. Sjálfstfl., sem um þetta töluðu, þar sem þetta mál hefir verið rætt ýtarlega í flokknum frá þingbyrjun. Mér kemur það undarlega fyrir sjónir, hve litla þekkingu hv. þm. V.-Sk. virðist hafa á þessu máli. Dettur þessum hv. þm. í hug, að það hefði verið heppilegt, ef meiri hl. n. hefði þegar í þingbyrjun komið fram með ákveðnar till. um verðbreyt. á íslenzkum peningum, áður en vitað var, hvort samkomulag fengist um þá leið? Það er öllum ljóst, hver áhrif slík framkoma myndi hafa haft á viðskipti og fjármál þjóðarinnar.

Hv. þm. V.-Sk. talaði um það, hvers vegna aðrar leiðir hefðu ekki verið athugaðar. Það hefir verið rætt bæði af mér og öðrum við þessar umr. um aðrar leiðir. Til viðbótar því, sem sagt hefir verið um ókosti þeirra, vil ég benda á það, að til fyrirstöðu því að leggja toll á innfluttar vörur og greiða með því útflutningsverðlaun, eru ákvæði í brezka viðskiptasamningnum um, að ekki megi leggja hærri toll en þar er ákveðið á ýmsar tilgreindar vörur. Það hefði því orðið að taka þær vörur undan, ef innflutningstolíur hefði verið lagður á í þessu skyni. Ég get ennfremur bent á það, að í Ameríku mun vera lagður sérstakur tollur á innfluttar vörur frá löndum, sem greiða útflutningsverðlaun. Það er talið, að í þeim löndum, þar sem slík útflutningsverðlaun eru greidd, sé rekin óheilbrigð samkeppni á heimsmarkaðinum.

Ég hefi ekki tíma til að fara frekar út í ræðu hv. þm. V.-Sk. Hann bar fyrir sig latínu, eins og oft áður, en í því máli er ég því miður lítt lærður. Hitt þótti mér þó lakara, að það, sem hv. þm. mælti á íslenzka tungu, var mér jafnóskiljanlegt eins og latínan. Hæstv. forseti hefir gefið mér til kynna, að ræðutími minn sé að enda, og verð ég að ljúka máli mínu. Ég hefði annars vikið einnig nokkuð að ræðu hv. 6. þm. Reykv.háttv. þm. hefir oft talað mikið um ást sína á sjávarútveginum og nauðsyn þess að styðja þann atvinnuveg En þegar að því kemur, að hann þarf að taka ábyrga afstöðu, þá fjargviðrast hann eins og áður um ástand atvinnuveganna án þess að koma með nokkrar frambærilegar till. til viðreisnar. Er hann þó í stjórn Sambands ísl. fiskframleiðenda og sennilegt, að útvegsmenn hafi vænzt einhvers stuðnings frá hans hendi, en ekki þætti mér ólíklegt, að þeir kæmust að þeirri niðurstöðu, að hann sé einn af þeim, sem illa launa ofeldið.