04.04.1939
Neðri deild: 36. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í C-deild Alþingistíðinda. (2843)

43. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Frsm. meiri hl. (Sigurður Kristjánsson):

Eins og nál. ber með sér, hefir n. ekki getað orðið sammála um þetta mál.

Þetta frv. var afgr. frá þessari d. á síðasta þingi. Í sjútvn. var þá enginn á móti því, 4 með, en einn ekki viðstaddur. Þrátt fyrir þetta hefir n. klofnað í þetta skipti, því að minni hl., þeir hv. þm. Barð. og hv. þm. N.-Þ., taldi, að sú mikla og ágæta n., sem nú fjallar um tolla- og skattamál, ætti að athuga þetta mál, og vildu því afgr. frv. til hennar með rökst. dagskrá. Ég, hv. þm. Ak. og hv. þm. Ísaf. litum svo á, að málið ætti að ná fram að ganga, og leggjum því til, að það verði samþ. óbreytt.

Ég gerði grein fyrir málinu almennt við 1. umr. og hefi engu þar við að bæta. Þetta er mál, sem snertir hina lægst launuðu sjómenn, að létta þeim skattabyrðina, þó mjög lítilfjörlega. Í frv. er farið fram á, að þær tekjur, sem mönnum eru taldar í fæði á skipum, séu ekki taldar skattskyldar, ef skattskyldar heildartekjur fara ekki fram úr 2500 kr. Ég býst við, að eftir þau afrek, sem Alþingi vann síðustu nótt, verði þetta lágmark lækkað talsvert, og muni verða litið svo á, að ennþá meiri ástæða sé til að veita þessa linun á skattgreiðslu til þessara lágt launuðu manna. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, en vænti, að hv. d. sé sömu skoðunar og í fyrra, að samþ. beri þetta frv.