04.04.1939
Neðri deild: 36. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (2846)

43. mál, tekjuskattur og eignarskattur

*Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Svo ég viðhafi orð hv. síðasta ræðumanns, þá er það „hin mesta firra“, að mönnum komi það að engu gagni að hafa frítt fæði utan heimila sinna. Hitt mun sanni nær, að það komi ekki að fullu gagni miðað við það, sem það kann að vera reiknað til tekna. Um hitt, hvort það komi að meira gagni fyrir menn að hafa frítt fæði utan heimila sinna á sjó eða landi, sé ég ekki ástæðu til að deila. Á því geri ég engan mun, og sé því ekki ástæðu til að hafa um það fleiri orð. Annars hefi ég ekki ástæðu til að ætla annað en að milliþn. í skattamálum taki þetta atriði til athugunar, verði dagskrá minni hl. samþ.

Viðvíkjandi þeim ummælum hv. frsm. meiri hl., að ég væri skipráðinn verndari hagsmuna ríkissjóðs, vil ég segja það eitt, að ef um slíka skipráðningu væri að tala, þá tel ég það betra hlutskipti að vernda hag ríkissjóðsins heldur en telja sér jafnan skylt að ausa fé úr honum, jafnt til óþarfra sem þarfra hluta, eins og þessi hv. þm. virðist hafa gert að principmáli sínu.