14.11.1939
Efri deild: 60. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (2852)

34. mál, lögreglustjóri í Hrísey

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Það var rétt hermt hjá hv. frsm. meiri hl. allshn., að ég hafði ekkert við það að athuga, þótt þetta mál væri tekið til umr. án þess að ég hefði skilað nál. Ég mun hafa lýst yfir því, að ég legði ekki áherzlu á að gera það, en myndi lýsa afstöðu minni við umræðurnar.

Þegar slík mál sem þetta hafa verið flutt hér á þingi, þá hefi ég léð þeim fylgi mitt, þ. e. a. s., ég mun hafa samþ. á sínum tíma frv. um lögreglustjóra í Keflavík, Bolungavík, á Akranesi og síðast í Ólafsfirði. Þá mun ekki hafa verið verulegur ágreiningur um, að lögreglustjórar skyldu settir á þessa staði, enda er íbúafjöldi þessara staða svo mikill, að full ástæða virtist að setja þangað sérstakan löggæzlumann, en ætla eigi hreppstjórum störfin. Í árslok 1938 voru íbúar Keflavíkurkauptúns 1127, íbúar Akraness 744 og Bolungavíkur 585. Þó var það ekki eingöngu íbúatala kauptúnanna, sem réð afstöðu hv. þm. í þessum málum. Lega staðanna kom einnig til greina. Það er örðugt fyrir sýslumann Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, sem situr í Borgarnesi, að vera sífellt úti á Akranesi. Sýslumaður Gullbringu- og Kjósarsýslu á að vísu ekki erfitt um ferðalög til Keflavíkur, en þar réð mannfjöldi kauptúnsins mestu í þessu máli. Um hin þorpin, sem fengið hafa lögreglustjóra, er það að segja, að þau eru mjög afskekkt, og erfitt að komast til þeirra frá sýslumannssetrunum. Sýslumaður Ísfirðinga situr á Ísafirði, og er í vissum tilfellum ókleift að komast til Bolungavíkur, nema þá sjóveg. Sama máli gegnir um Ólafsfjörð. Til þess staðar eru erfiðar samgöngur flesta tíma árs. Í Hrísey er annan veg háttað. Hún liggur í miðjum Eyjafirði, og mun það sjaldan koma fyrir, að ekki sé hægt að ferðast um Eyjafjörð, og alltaf um það leyti árs, sem lögreglustjóra er þörf í Hrísey, þ. e. um síldveiðitímann.

Nú horfir þetta mál þannig við frá mínu sjónarmiði, að þótt slíkir embættismenn hafi verið settir í sum kauptún landsins, þá beri ekki að gera það nema brýna nauðsyn beri til. Rökin fyrir því, að lögreglustjóra þurfi í Hrísey, eru þau, að vissan tíma árs sé mannfjöldinn þar allt að 700, og töluvert mikið að gera í sambandi við löggæzlu og útflutning síldar. Íbúafjöldi þorpsins getur að mínum dómi ekki réttlætt stofnun þessa embættis. Við árslok 1938 var íbúatalan í Hrísey 320.

Ég hefi hugsað mér, að nokkuð önnur skipan gæti orðið gerð á löggæzlumálum Hríseyjar en þeirra staða, sem fengið hafa sérstakan lögreglustjóra. Er sú lausn miðuð við hinn stutta tíma, sem lögreglustjóra er þörf á staðnum og greitt um samgöngur til sýslumannsins, sem dvelur á Akureyri. Ég tel, að þarna mætti hafa fulltrúa sýslumannsins á Akureyri t. d. 2–3 mánuði, þegar mest er að gera í Hrísey. Yrði það miklu ódýrara heldur en launa mann þarna allt árið, án þess að hans væri þó þörf nema stuttan tíma. Nú verður ekki framhjá því gengið, að laun þeirra lögreglustjóra, sem settir hafa verið í smákauptún, eru yfirleitt mjög lág og erfitt fyrir þá um aukatekjur. Hefir það því sýnt sig, að í þessi embætti veljist tæplega aðrir en þeir, sem einskis eiga annars úrkosta. Auðvitað geta fengizt til starfanna góðir menn, en þeir taka þessi embætti af því, að ekkert annað er fáanlegt. Það má e. t. v. segja, að á bak við skoðun mína í þessu máli liggi nokkur sparnaðarvilji. En ég hygg, að sparnaður eigi fullkominn rétt á sér, þar sem jafnhagkvæmri skipan verður á komið með kostnaðarminna hætti. Með góðum vilja sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu og hlutaðeigandi ráðuneytis má koma málinn fyrir á þann hátt, sem ég hefi stungið upp á.

Hv. allshn. hefir bætt hér við í frv. öðru þorpi, Búðakauptúni í Fáskrúðsfirði. Það vill nú svo vel til, að í þessari hv. d. á sæti gamall sýslumaður Suður-Múlasýslu, og getur hann auðvitað bezt skýrt fyrir dm., hver þörf er lögreglustjóra á þessum stað. Þetta kauptún er ekki ýkja mannmargt. Í árslok 1938 eru þar 575 íbúar, og ef miðað er við töluna árið á undan, virtist heldur fækka fólki þarna. Skipakomur á þennan stað hygg ég megi segja, að fari hraðminnkandi. Það, sem gerði Búðakauptún á sínum tíma fjölsótt, voru frönsku skúturnar. sem fiskuðu úti fyrir Austfjörðum og leituðu hafnar í Búðakauptúni og áttu þar mikil viðskipti. Nú eru þessar veiðar hættar fyrir löngu. Þó kann að vera, að skipakomur séu þarna nokkrar enn, þótt ekki muni þær fleiri á Fáskrúðsfirði en á hinum Austfjörðunum. Annars hafði ég hugsað mér, að réttast væri að afgr. þessi mál með rökst. dagskrá, í anda þess, sem ég hefi áður tekið fram. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa dagskrána hér upp, og afhenda honum síðan. Dagskráin hljóðar svo:

„Þar sem þörf Hríseyjarhrepps fyrir aukið lögregluvald er aðallega bundið við síldveiðitímann um tveggja til þriggja mánaða skeið, virðist mega ráða bót á henni á annan og hagkvæmari hátt en með stofnun sérstaks lögreglustjóraembættis. Beinir deildin því til ríkisstj. að athuga, í samráði við sýslumanninn í Eyjafjarðarsýslu, á hvern hátt skipað verði lögreglueftirliti í Hrísey um síldveiðitímann, og í trausti þess, að sú athugun fari fram, tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá.“