14.11.1939
Efri deild: 60. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (2855)

34. mál, lögreglustjóri í Hrísey

Bernharð Stefánsson:

Sem annar af flm. þessa frv. vil ég þakka meiri hl. allshn. fyrir þann stuðning, sem hann hefir veitt þessu máli, þar sem hann leggur til, að frv. verði samþ., þó hann að vísu vilji bæta við það ákvæði um að setja lögreglustjóra á Austurlandi. Getur það sjálfsagt orðið til þess, að málið fái minni byr, þegar farið er fram á að setja 2 í staðinn fyrir einn, sem farið er fram á upprunalega í frv. Þrátt fyrir þetta er mér ljóst, að það getur verið rík ástæða til þess að setja lögreglustjóra á Búðum, og vil þar af leiðandi ekki setja mig upp á móti því, að þessi viðauki verði á frv., þó ég neiti því ekki, að ég hefði fremur kosið, að málið hefði verið afgr. eins og það lá fyrir og öðru ekki blandað saman við.

Ég skal játa það, að síðan þetta frv. var borið fram, hafa orðið miklar breytingar, og ég skal ekki fullyrða um það, ef við flm. þessa frv. hefðum séð þessar breyt. fyrir, að við hefðum þá borið það fram, en út af því, sem hv. 5. landsk. vék að, hvað ástandið væri orðið breytt, og vildi þar af leiðandi láta fresta málinu og vísa því aftur til hv. allshn., þá verð ég að segja, að ég sé ekki ástæðu til þess, eftir að hafa heyrt ræðu hv. frsm. meiri hl., því vitanlega er honum alveg eins kunnugt um þær breyttu ástæður. sem orðið hafa, eins og hv. 5. landsk., og það hefir komið fram, að meiri hl. n. hefir ekki talið ástæðu til þess að athuga þetta frv. að nýju, þrátt fyrir hinar breyttu ástæður, en það var ekki annað að heyra á ræðu frsm. en að meiri hl. n. nú á þessari stundu legði með því, að frv. væri samþ. Annars skal ég ekki fara langt út í að svara aths., sem gerðar hafa verið út af þessu máli. Hv. 2. landsk. minntist á það, að lögreglustjóri hefði verið settur í sum kauptún vegna þess, hve þau væru afskekkt, eins og t. d. Ólafsfjörður, en hann er ekki afskekktari en það, að það er venjulega mjög auðvelt að ná til sýslumannsins í Eyjarfjarðarsýslu, svo þetta er eftir því, hvað kallað er afskekkt. Það er þó að líkindum, að eyja er afskekktari en meginland, og það er erfiðara oft og tíðum að hafa samgöngur milli Hríseyjar og Akureyrar, af því að Hrísey er eyja, en milli Akureyrar og Dalvíkur, sem þó er lík vegalengd. (ÞÞ: En Grímsey?). Auðvitað væri þörf á að setja embættismann í Grímsey, en það ætti að vera læknir.

Hv. 2. landsk. minntist ekki mikið á fjölgun íbúa í Hrísey, en þeir munu vera um 400. (SÁÓ: 320). Þeir eru fleiri, þeir eru um 400, og þess ber að gæta, að á sumrin eru aðkomumenn svo margir, að þeir eru eins margir eða fleiri en íbúarnir sjálfir. Hv. 2. landsk. vill líka koma til móts við þessa ósk um að setja lögreglustjóra í Hrísey með því, að fulltrúi sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu sé þar yfir síldveiðitímann, að því er mér skilst. Ég veit ekki, hve létt yrði að koma þessu við, en hugsazt gæti, að það bætti eitthvað úr. Út á það gengur þessi till. til rökst. dagskrár, sem hann flutti. Ég geri nú samt ráð fyrir, að það bætti ekki fyllilega úr, þó sýslumaður Eyjafjarðarsýslu hefði þar fulltrúa í 2–3 mánuði.

Ég ætla, að ég hafi vikið að því fyrr á þessu þingi, þegar málið var til 1. umr., að ég teldi vera komið í óefni, bæði í Hrísey og annarstaðar, um störf viðvíkjandi stjórnum sveita, hreppstjórastörf og oddvitastörf. Það má heita, að á hverju Alþingi séu samþ. lög, sem auka til mikilla muna á störf hreppsnefnda og oddvita. Vitanlega er þetta því tilfinnanlegra, sem hrepparnir eru fólksfleiri, og verður erfiðara í kauptúnum heldur en sveitum. Sýnir þetta, að það muni mjög fljótlega reka að því, að ekki verði hægt að láta við svo búið standa. Menn, sem þurfa að lifa á sínum atvinnurekstri, hvort heldur eru útgerðarmenn eða bændur, og eins og nú er ástatt um fólkshald, eiga ákaflega erfitt með að inna öll þau störf af hendi, sem krafizt er af hreppstjórum og oddvitum, og störfin eru að verða svo vandasöm, að varla er til þess að ætlast, að allir þeir, sem af einhverri tilviljun eru kosnir oddvitar, séu færir um að leysa þau af hendi. Það er því um að ræða, hvernig komið verði skipun á þessi mál. Úr því að hv. 2. landsk. bar fram rökst. dagskrá til þess að koma málinu fyrir kattarnef, hefði ég viljað, að hún hefði verið víðtækari og að skorað hefði verið á ríkisstj. að taka til athugunar, hvernig þessum störfum mætti koma fyrir á sem hagkvæmastan hátt. — Ég ætla svo ekki að fara lengra út í þetta, en veit, að nauðsynlegar eru gagngerðar breytingar í þessu efni.

Hv. 5. landsk. talaði um sparnað og var á móti frv. af sparnaðarástæðum. Það er nú sú ástæðan, sem frambærilegust er. Hann minntist á, að fjvn. leitaðist við að lækka þær upphæðir, sem ganga til embættismanna landsins. Það er vitanlegt, að með þessu frv. er farið fram á lítilsháttar útgjöld úr ríkissjóði. En hitt er ekki rétt, að farið sé fram á að fjölga starfsmönnum. Hér er bara breytt til, og kemur einn fyrir tvo, svo með þessu frv. fækkar starfsmönnum í stað þess að fjölga. En það er rétt, að af þessu mundu hljótast aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Það er alveg rétt, sem hann lét skína í, að í hinu íslenzka þjóðfélagi eru allt of margir opinberir starfsmenn. En hefir hann athugað, hvar þessi fjölgun hefir bókstaflega öll orðið? Hún er í Reykjavík. Hér fjölgar fulltrúum og öllum opinberum starfsmönnum bara með einfaldri stjórnarráðstöfun eða með úrskurði eins starfsmanns ríkisins. Þetta hefir verið gert á hverju ári, og hver þessara manna hefir verið með hærri launum en nokkur getur hugsað sér, að lögreglustjóri í Hrísey hafi. Þess vegna er það, að meðan ég verð ekki var við meiri viðleitni heldur en nú til þess að draga úr þessu, þá get ég ekki af þessari ástæðu verið að taka þetta frv. til baka. Það er ætlazt til þess, að úr ríkissjóði verði þessum starfsmanni í Hrísey greidd laun sem svarar til ? hluta þess, sem lágt settur starfsmaður hér í Reykjavík hefir í laun, og meðan ég sé ekki eina einustu till. um að fækka um einn mann hér, sé ég ekki ástæðu til þess að þetta frv. sé dregið til baka, en till. um það hefir mér vitanlega ekki komið fram, ekki heldur frá hv. 5. landsk.