14.11.1939
Efri deild: 60. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í C-deild Alþingistíðinda. (2857)

34. mál, lögreglustjóri í Hrísey

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hélt ekki, að um þetta mál mundu spinnast þær deilur, sem raun ber vitni um. Hv. 1. þm. Eyf., sem er flm. þessa máls, hefir gert aths. við mína afstöðu til þess. Um hans rök vil ég ekki fara mörgum orðum; mér finnst þau ekki svo sterk, finnst þau vera meira til þess að fullnægja sinni þingmannsskyldu, að mæla með málinu, heldur en að hann geti mælt með því. Hann var að tala um breyttar aðstæður, sem gætu valdið því, að málið væri tekið til nýrrar athugunar. Um legu Hríseyjar þýðir ekki að deila. Á öllum venjulegum tímum er Eyjafjörður talinn fær sæmilegum fleytum.

En hv. þm. komst inn á annað atriði, sem að vísu mætti tala langt mál um, en ég ætla ekki að fjölyrða um. Það eru hin ýmsu störf hreppstjóranna og laun þeirra. Það væri nauðsynlegt að taka það mál til athugunar og gera nýja skipun á um þeirra verksvið og launakjör. Ég hygg, að það mætti finna marga staði á landinu, þar sem hreppstjórar verða að gegna svipuðum störfum og í Hrísey. Hinsvegar tel ég, að það muni ekki vera hyggilegt að afgr. svo stórt mál sem þetta á þessu þingi.

Hv. þm. taldi, að ef lögreglustjóri yrði settur í Hrísey, myndu sparast við það laun oddvita og hreppstjóra, þar sem þau embætti yrðu þá óþörf. — Jafnvel þó að það væri ekki talin þörf að hafa þessa starfsmenn, ef lögreglustjóri kæmi á staðinn, þá efast ég stórkostlega um sparnaðinn. Ég hygg, að hreppurinn myndi ekki komast hjá því að greiða lögreglustjóranum viðbótarlaun við það, sem honum yrði ákveðið úr ríkissjóði, en í frv. er gert ráð fyrir, að það verði 2000 kr. á ári. Ég hygg, að fyrir það kaup fáist enginn hæfur maður í starfið. Ég er ekki einn með þessa skoðun. Hún er talsvert almenn.

Það fyrirkomulag, sem ég hefi lagt til að haft yrði í þessu máli, er, að sýslumanni Eyjafjarðarsýslu verði gert kleift að hafa þarna sinn fulltrúa á staðnum yfir mesta annatímann. Það myndi að vísu hafa einhver útgjöld í för með sér, en um það þýðir ekki að fást.

Ég geng þess ekki dulinn, að á þessum stað er um verulega tollheimtu að ræða. Ég geri ráð fyrir, að það sé líka höfuðástæða fyrir þeirri ósk að fá þangað lögreglustjóra. Ég skil ekki í því, að þarna sé svo miklu óeirðasamara en annarstaðar, að fyrir þær sakir þurfi sérstakt yfirvald á staðinn. Ég teldi því nægilegt að hafa þarna fulltrúa frá sýslumanninum um þriggja mánaða tíma yfir sumarið.

Ég vil svo víkja örfáum orðum að ræðu hv. 11. landsk. Hann vildi leggja mikið upp úr þörfinni fyrir lögreglustjóra í Búðaþorpi. Hann lagði sérstaka áherzlu á það, að þarna væri um svo mikla tollheimtu að ræða. Það er erfitt fyrir mig að deila um þetta við hv. þm. Hann benti á, að siglingar til Fáskrúðsfjarðar væru nokkuð miklar. Þær eru nú sennilega ekki meiri þangað en til annara staða á Austfjörðum. Það er að vísu rétt, að þar, sem skip kemur fyrst að landi, þarf meiri og nákvæmari tollskoðun en á öðrum höfnum. En þetta er ekki nema í nokkrum tilfellum á Fáskrúðsfirði. Mér er t. d. kunnugt um, að Eimskipafélagsskipin koma oftast upp til Djúpavogs fyrst. En ef tollheimtan er vafasöm í höndum hreppstjóra, þá finnst mér athugandi fyrir ríkisstj., hvort ekki sé rétt að láta sýslumennina fá svo ríflegt skrifstofufé, að þeir gætu ráðið hæfa menn til tollheimtu á þeim stöðum, sem mest þarf á því að halda.

Ég býst við, að ef farið væri inn á þá braut, sem frv. gerir ráð fyrir, þá megi líta á svipaðan hátt til ýmsra annara staða. Mér dettur í hug t. d. Raufarhöfn, sem er feikna mikill inn- og útflutningur um. Ég get ennfremur nefnt Bíldudal í Barðastrandarsýslu, sem er talsvert langt frá Patreksfirði, þar sem sýslumaðurinn býr. Svona mætti telja áfram. Hver vill svo taka að sér að gera upp á milli þessara staða? Ég býst við, að það verði í mörgum tilfellum erfitt.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál. Ég held fast við mína rökst. dagskrá og vænti þess, að hv. d. geti fallizt á hana.