03.04.1939
Neðri deild: 33. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Sigurður Kristjánsson:

Það voru óþarflega gikksleg orð, sem hv. 1. flm. frv. rétti til mín í lok sinnar ræðu. Það þýðir ekkert fyrir hann að ætla að breiða yfir það, að n., sem starfaði undir hans stjórn, hefir engu áliti skilað. Svo er það líka kunnugt, að frá öndverðu hefir mín krafa verið sú, að n. skilaði áliti og till., sem síðan yrðu framkvæmdar af ríkisstjórn og bönkum fyrir hátíðar. Það er því blekking í hans máli, að ég sé að rísa gegn viðreisnartill. sjávarútvegsins. En ég sé ekki, að þær ráðstafanir, sem hér er um að ræða, komi sjávarútveginum að haldi. Ég hefi ekki dæmt um, hvort eigi að gera gengisbreytingu. En ég tel, að annan og meiri undirbúning hefði þurft að gera undir þetta mál, ef gengisbreyting ætti að koma sjávarútveginum að gagni. Það þurfti að skapa undirstöðu að því, að svo mætti verða, með niðurskurði á útgjöldum ríkissjóðs og aflétting innflutningshafta, eftir því sem ástæður frekast leyfa. Hv. 1. flm. er kunnugt, að ummæli hans um mig voru móti betri vitund sögð. En mér var kunnugt um, að hv. 1. flm. var þessu máli velviljaður og miklar líkur til þess, að hann yrði með slíkum undirbúningi, þar til hann var kúgaður til þess að falla frá þessu. Hann lét detta botninn úr starfi n. og kom aldrei með þær till., sem hann sjálfur var búinn að lofa að koma með. Ég veit, að þetta, sem gera þurftiniðurskurður á útgjöldum fjárl. og aflétting innflutningshaftanna, er óþarft mál fyrir Framsfl., því hann hefir að ýmsu leyti lifað á óhófseyðslu ríkissjóðs og aðstöðu, sem hann getur veitt ýmsum af sínum mönnum með innflutningshöftunum. Og það kemur af því, að hv. 1. flm. og hans flokkur, Framsfl., metur hærra hagsmuni flokksins en hagsmuni almennings.