28.12.1939
Neðri deild: 95. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í C-deild Alþingistíðinda. (2876)

56. mál, áfengislög

*Pétur Ottesen:

Ég verð nú að segja það, að mér þykir afgreiðsla þessa máls frá n. harla einkennileg, og ber margt til þess. Fyrst er nú það, að þetta mál er búið að liggja ákaflega lengi hjá nefndinni. Það var borið fram á fyrri hluta þessa þings, sem nú er að lokum komið, og það hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir til þess að fá þetta mál frá nefndinni og inn í deildina, en án árangurs. Það, að málið er tekið fyrir hér, er ekki fyrir það, að nefndin hafi ótilknúð flutt málið, heldur með þeim hætti, að forseti tilkynnti, að hann tæki málið á dagskrá, hvað sem nefndinni liði. Með þessum hætti er málið komið frá nefndinni til umr. hér í deildinni.

Svo ber það við, að n. skilar áliti um málið, sem byggt er á þeirri harla einkennilegu niðurstöðu að vísa frv. frá, af því það komi í bága við samninga við erlend ríki. En áður en vikið er að málinu út af fyrir sig, vildi ég benda á það, að þetta frv. inniheldur fleiri breytingar á núgildandi áfengislögum heldur en þær, sem hinni rökst. dagskrá er beint að.

Í fyrstu gr. er það lagt til, að forstöðumenn útsölustaða og starfsmenn séu ráðnir fyrir fast kaup, í stað þess, að nú eru þeir upp á prósentur, og það er í þeirra hag að koma sem mestu út af víninu. Nú er uppi í þessu landi sterk alda og mikil viðleitni til að vinna á móti drykkjuskap, og ég tel það fráleitt að haga því svo til, að útsölumenn hafi hagsmuna að gæta með að koma sem mestu áfengi út í fólkið. Og því er lagt til, að þeir fái fasta borgun, í staðinn fyrir að miðað sé við sölu.

Ákvæðið í 2. gr. er það. sem rökst. dagskráin snýst um, og get ég geymt það.

3. gr. snertir það, að brennsluspíritus sé seldur í föstu formi, þar sem það er vitað, að mjög mikill hluti af þeim brennsluspíritus, sem seldur er í landinu, er notaður til drykkjar. Það er alkunnugt mál, að það hefir orðið til þess að auka drykkjuskap, að mönnum hefir verið kleift að fá spíritusinn í því ástandi, að þeir hafa með honum getað fullnægt drykkjugirnd sinni. Spíritusinn er nothæfur til alls annars en að drekka hann, þegar hann er í föstu formi, og er það því ósk allra bindindissinnaðra manna. að þessi tilraun verði gerð.

Í 4. gr. er annað ákvæðið um það, að svipta drukkna menn rétti til þess að ferðast með áætlunarbílunum. Þessir menn eru oft til mikils ama fyrir fólk, sem ferðast með bílunum, og til mikillar hættu, því óráðshjal þeirra og æði getur orðið til þess að trufla verk það, sem bílstjórinn hefir með höndum, sem sé að stýra. Það er þess vegna mjög mikilsvert ákvæði að gera ráðstafanir til þess að útiloka þessa menn frá því að ferðast með bílunum, enda í samræmi við hliðstæð ákvæði annarstaðar á Norðurlöndum.

Hitt ákvæðið í 4. gr. er um það, að nema burtu ákvæðið um, að ráðh. hafi heimild til þess að veita leyfi til vínveitinga í herbergjum einstakra manna. Þetta hefir verið gert. Það er mikið atriði að nema úr lögum þessa heimild.

Í 5. gr. er tekið upp ákvæði um að tryggja eftirlit á samkomum. Það hefir sýnt sig, að þess er hin mesta þörf, og Alþingi hefir í öðru sýnt viðleitni til hjálpar þessu, og það er fullkomin viðurkenning fyrir því, að það, sem farið er fram á, er fullkomin þörf og nauðsyn.

Ég vildi benda á þessi atriði til þess að sýna, að fleira er í þessu frv. en þau ákvæði, sem hin rökst. dagskrá bendir sérstaklega til, og þá leiðir af sjálfu sér, að ef rökst. dagskráin nær samþykki, þá er vísað á bug þeim endurbótum, sem felast í þessu frv., og Alþingi skellir skollaeyrunum við þeim óskum, sem koma fram í frv., og verður það sterkur þáttur til þess að viðhalda drykkjuskap í þessu landi og þeim þjóðarósóma, sem að honum er. Það er engan veginn hægt að loka augunum fyrir því, að sú þjóð, sem ekki telur nema 117 þús. íbúa og eyðir á 4. millj. króna til vínkaupa, er illa á vegi stödd, og má líta í kringum sig, því það er sá þjóðarháski, að ekki verður séð, hvernig endar ef slíku vindur fram.

Þá skal ég víkja að ákvæðinu í 2. gr., sem hinni rökst. dagskrá er beint að og er notað til að koma fyrir kattarnef algerlega öllum þeim brtt., sem í frv. felast. Í áfengislögunum eru ákvæði um, að ríkisstj. sé heimilt að setja á stofn nýja útsölustaði í kauptúnum, en áður en það sé framkvæmt, skuli fara fram atkvgr. og tiltekinn meiri hl. þurfi að vera til fyrir því, að hægt sé að setja upp útsölu. Þetta var aldrei notað, því áður var búið að ákveða útsölustaði í öllum kaupstöðum landsins, nema á Norðfirði, en það hefir ekki verið gert, því kaupstaðurinn hefir ekki viljað útsölu. Þannig er vínlöggjöfin eins og hún er nú.

Ég verð nú að segja það, að mér þykja niðurstöður þær, sem n. hefir komizt að, og sá hluti ríkisstj., félmrh., sem komizt hefir að þessari niðurstöðu, fullkomlega furðulegar. Þeir virðast líta á þetta ákvæði sem stórhættulegt fyrir samninga þá, sem við gerðum við ríkin Spán og Portúgal. Mér skilst, að þetta standi í grg., sem nál. fylgir, en furða mig á, að annað eins og þetta skuli geta komið fram á Alþingi. Því þegar breytingin á áfengislögunum var samþ. 1935 og leyft að flytja sterku vínin inn í landið, þá varð sú breyting til þess að upphefja algerlega aðflutningsbannið, og þar með í rauninni upphafin þau lög, sem gerð var breyting á vegna samninga vorra við þessi ríki.

Því er það svo um Spánarsamninginn og Portúgalssamninginn, sem er í rauninni ekki annað en afleiðing af honum, að undan þeim er gersamlega allur grundvöllur hruninn, enda hafa þeir ekki verið endurnýjaðir síðan löggjöfinni var breytt hér á landi.

Svo er fleira, sem kemur til greina í þessu sambandi og sýnir, að þetta, sem stendur í Stjórnartíðindunum og verið er að vitna í, er ekki annað en dauður bókstafur. Síðan Spánarsamningurinn var gerður, hefir orðið stjórnarbylting á Spáni, og stjórn sú, er við tók, gerði að engu alla samninga við erlend ríki, er fyrrv. stj. höfðu gert. Af Spánverja hálfu hafa því þessir samningar við íslenzka ríkið verið algerlega þurrkaðir út, þangað til gerðir kynnu að verða nýir samningar. — Auk þess hafa viðskipti okkar við Spánverja annaðhvort alveg fallið niður eða orðið svo óverulegur hluti af því, sem var, að þeirra gætir ekki. Þegar þetta er allt dregið saman, er það ljóst, að það er ekkert annað en yfirskotsástæða að ætla sér að nota þessar dauðu leifar, sem standa í Stjórnartíðindunum, sem rök fyrir því, að ekki megi samþ. frv.

Þá er enn eitt atriði: Eftir að stjórnarbyltingin varð á Spáni, var gerð héðan út samningan. til þess að semja við hina nýju stj., af því að íslenzka ríkisstj. vissi sem var, að ekki var lengur neinn grundvöllur undir gömlu samningunum; sízt við þessa nýju Spánarstj. En viðtökurnar, sem þessir samningamenn hlutu, voru þær, að þeir urðu að liggja fyrir utan lóðarhálsinn og fengu ekki að koma í land til þess að semja. Þetta er gott dæmi um það, hversu mjög hin nýja stj. taldi sig bundna þessum samningum. Svo er það, að lengi hafa ekki verið keypt nein vín frá Spáni, og við því hefir ekkert verið sagt, enda var ekkert, sem byndi okkur við að kaup vín þaðan, fremur en Spánverja við það, að kaupa fisk af okkur. Því er fjarstæða að álykta, eins og fram kemur í bréfinu til allshn., að þetta sé brot á samningum við erlend ríki eða komi í bága við þá, þar sem grundvöllur þessara samninga er gersamlega hruninn undanfarin fjögur ár.

Ég þarf svo ekki að fara lengra út í þetta. Ég hefi sýnt fram á, að allur grundvöllur er hruninn undan þessum samningum, fyrst og fremst með löggjöf þeirri, sem sett var 1935, og öllu því, sem fram hefir komið í viðskiptum við Spán síðan. Annað mál er það, hvort samningar kunna að takast aftur milli landanna. Slíkir samningar þyrftu ekki að koma í bága við l. hvað vínkaup snertir, því að það er heimilt að flytja hingað vín frá Spáni sem öðrum löndum, meðan þeim hætti er haldið uppi að láta allt vera fljótandi í víni í þessu landi.

Ég vænti þess, að allir velunnarar málsins sjái, að þessi dagskrá hvílir í lausu lofti, og því greiði þeir atkv. um afstöðuna til málsins eins og það liggur fyrir, hvort þeir vilji láta fólkið fá heimild til að ákveða með atkvgr., ekki aðeins, hvort setja skuli upp nýjar áfengisútsölur, heldur einnig, hvort þeim skuli haldið áfram, sem fyrir eru. Hafa borizt margar áskoranir víðsvegar að á landinu um það, að Alþingi samþ. frv. Hefir varla verið haldin svo samkoma bindindismanna að undanförnu, að hún hafi ekki sent slíka áskorun til Alþingis, og jafnvel sumar hreppsn. hafa sent Alþingi áskorun um að samþ. frv. Auk þess hafa um 22000 kjósendur af tiltölulega litlu svæði á landinu sent svipaða áskorun. Ég vænti þess því, að frv. verði samþ., út frá nauðsyn þess, að Alþingi geri ráðstafanir til að vernda þjóðina og sérstaklega æskulýð landsins frá þeim voða, sem því fylgir, að hann fari að gefa sig á vald þessarar eiturnautnar, sem leiðir til þess að eyðileggja allt líf og framtíð þeirra og annara, er þeir eiga að sjá fyrir, og gerir þá ófæra um að uppfylla skyldur sínar við þjóðfélagið, í stað þess að geta notið trausts borgaranna og staðið straum af framfæri skylduliðs síns, borið uppi byrðar þjóðfélagsins og fleytt því fram til þeirrar menningar, sem allir hljóta að óska til handa okkar kæru þjóð og, framtíð hennar hlýtur vitanlega að byggjast á.