28.12.1939
Neðri deild: 95. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (2880)

56. mál, áfengislög

*Pétur Ottesen:

Ég skal verða við tilmælum hæstv. forseta og haga mér eftir því, hve naumur er tíminn. Það er ekki nema örlítið, sem ég þarf að svara hæstv. félmrh. Hann byrjaði ræðu sína á því, að eiginlega hafi ekki af hálfu ríkisstj. eða af hálfu hans og þeirra manna, sem störfuðu víð utanríkismálaráðuneytið, verið farið eftir öðru en gildandi samningum. Það mætti slá upp í Stjtíð. og sjá, að við Íslendingar værum bundnir við bókstafinn, en hinsvegar er ekki þar með sagt, að þessi bókstafur sé í gildi. Þannig skildist mér, að allshn. hefði líka litið á þetta mál. Hv. félmrh. sagði í lok ræðu sinnar, að þessir samningar væru enn í gildi, ef ég hefi tekið rétt eftir. Hann kom með rök fyrir því, að síðan núv. stjórn Spánar tók við völdum, hefðu kjör okkar hvað snertir fisksöluna verið alveg þau sömu og áður í því landi. Þetta er rétt hjá hæstv. ráðh., en með þessu vildi hann slá því föstu, að Spánarsamningurinn væri ennþá í gildi hvað Spán snerti. Nú ætla ég að benda hæstv. ráðh. á það, að þetta er engin sönnun þess, að svo sé. Það er heldur engin ástæða til þess, þó að Spánverjar vilji þröngva upp á okkur vínum sínum, að við förum að breyta löggjöf okkar eftir því. Með Spánarsamningnum höfum við engin aukin fríðindi fengið af þeirra hálfu, og þeir hafa frekar viljað þröngva upp á okkur ýmsum undanþágum. t. d. höfðum við við sömu tollakjör að búa eftir að samningurinn var staðfestur eins og áður. Það er ekki nema eðlilegt, að við afnemum síðustu leifar Spánarsamningsins, þar sem enginn grundvöllur undir honum er lengur til. Enda hefir ekkert komið fram af hálfu Spánar, sem sýni, að við séum bundnir við að kaupa þessi vín, eða að víð séum nokkru bættari, þó að Spánarsamningnum væri þröngvað upp á okkur. Ég skal ekki fara lengra út í þetta og óska eftir, að hæstv. forseti láti sem fyrst greiða atkv. um málið og ég skal ekki fara fram á að ræða meira um þetta frv., nema sérstakt tilefni komi til þess.