30.12.1939
Neðri deild: 95. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í C-deild Alþingistíðinda. (2883)

56. mál, áfengislög

*Pétur Ottesen:

Það er óþarfi fyrir hv. þm. Snæf. að vera að bregða mér um, að ég með frv. sé að koma í veg fyrir fisksöluna á þessum stöðum. Eins og okkur er vel ljóst, hefir Spánarsamningurinn komið mjög hart niður á okkur og Spánn verið mjög frekur í kröfum sínum. Hann hefir ekki viljað kaupa nema örlítið af okkar litlu framleiðslu, en aftur á móti hefir Portúgalssamningurinn verið okkur miklu gagnlegri. Ég vildi skjóta þessu fram hér, svo að hv. þm. gætu haft fullkomlega opin augun fyrir þýðingu samningsins í þessu máli, og sjái, að allur grundvöllur er runninn undan honum.

Það, sem ég vildi ennfremur segja í sambandi við þetta mál, er það, að allt styður það, að samningurinn sé fallinn úr gildi og öll innkaup frá Spáni hætti. Vörusamningur gerir okkur ekkert gagn í þessum efnum, og allur þessi margumtalaði samningur er nú ekkert annað en bókstafur. Þess vegna liggur þetta mál þannig fyrir, að óþarfi er að taka tillit til gamalla samninga, þar sem allir slíkir samningar á þessu sviði virðast vera fallnir úr gildi.