10.11.1939
Efri deild: 58. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (2889)

105. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Mér finnst mér skylt að víkja að þessu máli nokkrum orðum, einkum vegna þess, að bæði er frv. nokkuð einstakt í sinni röð, og í annan stað af þeim ástæðum, að það snertir þann félagsskap og þau samtök, sem hafa valið mig til forustu.

Eins og hv. flm. gat um, er í frv. aðallega að ræða um þrjú atriði, sem þar er lagt til, að lögfest verði. Mun ég víkja að hverju atriði fyrir sig og lýsa skoðun minni á þeim.

Fyrsta atriðið er, að þeim einum mönnum skuli heimilt að vera í verkalýðsfélögum, sem stunda þá atvinnu, sem félögin eru kennd við. Ég verð að segja, að ég tel þessa reglu allt of einstrengingslega og að ekki geti komið til mála að banna, að í verkalýðsfélögum séu menn, sem eru verkalýðsmálum hlynntir og kunnugir, þótt þeir á einhverju vissu tímabili stundi ekki þá atvinnu, sem félögin eru kennd við. Ég vil minna á, að vöxtur og viðgangur verkalýðsfélaganna á Íslandi mundi hafa orðið mjög lítill, ef ekki hefðu haft forgöngu fyrir verkalýðsfélagsskap víða um land þeir menn, sem ekki hafa staðið beinlínis í starfsgreinunum. Svo er það, að á meðan verkalýðsfélögin eru á gelgjuskeiði og á þeim stöðum, sem þau eru ung, þá er sjaldnast mikið val á mönnum úr verkalýðsstéttinni til að veita þeim forstöðu. Þeir menn verða að hafa sig sérstaklega í frammi, en geta það varla eða sjá sér ekki fært að beita sér í félagsskap verkamanna, þegar þeir eiga að sækja atvinnu sína til þeirra manna, sem þeir eiga sérstaklega í höggi við. Því er eðlilegt, að í fámenninu hér á landi hafi víða orðið forustumenn verkalýðsfélaga menn, sem ekki hafa beinlínis staðið í verkamannastéttinni, en hafa haft áhuga fyrir málefnum hennar og viljað styðja verkamenn til þess að mynda sín hagsmunasamtök.

Í annan stað finnst mér eðlilegt, að félögin ákveði þetta sjálf. Það er ekki óeðlilegt, þó að þau samþykki t. d., að innan sinna vébanda megi enginn atvinnurekandi vera eða neinn sá maður, sem hefir í þjónustu sinni sem atvinnurekandi ákveðna tölu manna. Þó að menn stundi ekki þá starfsgrein, sem félagsskapurinn er bundinn við, en ef þeir hafa stundað hana og hafa áhuga fyrir henni, þá finnst mér eðlilegt, að slíkir menn hafi rétt til að vera í félaginu.

Niðurstaða mín um þetta atriði er sú, að fyrst og fremst sé eðlilegt, að félögin ákveði sjálf, hverjir eigi að vera í þeim. Hitt get ég aftur á móti tekið undir með hv. flm., að ég tel óheppilegt, að atvinnurekendur séu í verkalýðsfélögum. En þá er eftir að skilgreina orðið „atvinnurekandi“. Það má ekki gera eins og gert var í Hafnarfirði. Það getur ekki talizt atvinnurekandi, sem leggur fram einhverja fjárfúlgu í því skyni að auka atvinnumöguleika á staðnum. Við skulum segja, að hann leggi fé í félagsskap, sem auka á atvinnumöguleikana, en hann veit hinsvegar, að hann fær féð aldrei aftur og aldrei neinn arð af því, heldur leggur hann féð aðeins fram í þeim tilgangi að auka atvinnuna í sínu byggðarlagi.

Það er atvinnurekandi, sem beinlínis hefir vald á atvinnu og menn vinna hjá fyrir kaup. Þetta atriði tel ég aðalinnihald frv., en eins og það er orðað þar, tel ég það einstrengingslegt og óeðlilegt, að verkalýðsfélögin ráði því ekki sjálf, og tel ég ekki, að eigi að lögbjóða það.

Þá kem ég að 2. atriði frv., að aðeins skuli vera eitt verkalýðsfélag á hverjum stað fyrir hverja starfsgrein. Þetta atriði kemur ekki til greina að samþ., — ég tel, að það brjóti á móti 68. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem svo segir: „Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, án þess að sækja þurfi um leyfi til þess“ o. s. frv.

Í íslenzku stjórnarskránni er því félagafrelsi lögfest, og því er ekki hægt að banna mönnum að safnast saman í félagsskap, sem er löglegur í tilgangi sínum, og af þessari ástæðu tel ég ekki hægt að lögbinda þetta.

Þá kem ég að því, sem hefir vakað fyrir hv. flm. og ég veit, að við erum sammála um, að það sé óheppilegt, að fleiri en eitt félag starfi á sama stað í sömu starfsgrein. Um þetta er ég sammála, enda hefir reynslan sýnt það á þeim fáu stöðum, sem það hefir komið fyrir, að væru fleiri en eitt félag í sömu starfsgrein, en ég þekki dæmi um það úr sögu Alþýðusambandsins, að þá hefir slíkt venjulega orsakazt af því, að verkalýðssamtökin hafa verið eitthvað óheilbrigð á þessum stöðum. T. d. hafa verkalýðsfélög, sem kommúnistar hafa alveg verið að drepa, haldið sér uppi að nafninu til. Má taka um það dæmi frá Akureyri, þar sem kommúnistar héldu lífi í verkalýðsfélaginu. Þar var stofnað annað félag, Verkalýðsfélag Akureyrar, sem brátt varð öflugt og tókst að gera samninga við atvinnurekendur og taxti þess metinn gildur, en samt var hinu félaginu haldið uppi að nafninu til.

Ég skal játa, að það er óeðlilegt, að slíkt komi fyrir, en það er af því, að óeðlilegt ástand hefir skapazt í verkalýðshreyfingunni á þessum stöðum.

Á Siglufirði hefir orðið að hafa tvö félög um tíma af sömu ástæðu og á Akureyri. Þar voru kommúnistar búnir að gera verkalýðsfélagið óstarfhæft, svo stofna varð annað félag, sem brátt varð mjög öflugt. Síðan voru bæði félögin sameinuð, en nú virðist sem kommúnistum ætli aftur að takast að gera það ómögulegt, svo að sama ástand skapast á ný.

Á Siglufirði og Akureyri hafa verið 2 félög, en það eru undantekningar. Í Hafnarfirði er einnig augljós ástæðan fyrir því, að stofnað var annað félag. Það var fyrst og fremst það, að sjálfstæðismenn stofnuðu bandalag við kommúnista um að kjósa aðeins kommúnista í stjórn félagsins. Það þótti okkur alþýðuflokksmönnum alleinkennilegt mat hjá sjálfstæðismönnum, en það verða þeir að eiga við sig sjálfa um. Að mínu áliti var það mjög einkennileg aðferð. Svo er tekin ákvörðun um að víkja úr félaginu mönnum, sem eru alþýðuflokksmenn. Það töldum við, að væri ekki við unandi, og af þeim ástæðum reis upp annað félag á staðnum. En það hafa allir rétt til að stofna verkalýðsfélag, þótt annað sé fyrir á staðnum, skv. stjórnarskrárákvæðinu, og því verður ekki breytt með lögum. Það væri eins ástæða til þess að lögbjóða eitt kaupfélag á hverjum stað. Fyrir hefir komið, að fleiri en eitt kaupfélag hefir risið upp á sama starfssvæði. En það er ógerningur fyrir hv. Alþingi að lögbjóða, að eitt kaupfélag skuli vera á hverju svæði, þótt það væri heppilegra. En það er af óheilbrigðri þróun í samvinnufélagsskapnum, sem það kemur fyrir, að fleiri en eitt kaupfélag eru á sama stað. Og með heilbrigðri starfrækslu í verklýðsfélagsskapnum leiðir það af sjálfu sér, að ekki verður nema eitt verklýðsfélag á hverjum stað, og ég er sammála flm., að æskilegast væri, að eitt slíkt félag væri á hverjum stað, en ég álít, að það eigi ekki að lögbjóða það.

Þá kem ég að 3. atriðinu, og það eru hlutfallskosningarnar. Eftir grg. frv. mætti ætla, að lagt væri til að lögbjóða hlutfallskosningu í verklýðsfélögunum, en eftir skýrslu flm. á það eingöngu við um fulltrúa til stéttarsambandsþinga. Lögboð á hlutfallskosningu yfirleitt í verkalýðsfélagsskap álít ég, að geti ekki komið til greina. Ég álít, að það sé ekki rétt, enda þekkist hvergi, að slíkt sé lögboðið.

Löggjafarvaldið getur ekki, að mínu viti, fyrirskipað hlutfallskosningu í neinum öðrum félagsskap en þeim, sem falið er af ríkisins hálfu eitthvert valdsvið og sérstakur umráðaréttur fjár. Ég get tekið sem dæmi Búnaðarfélag Íslands, þar sem lögboðin er hlutfallskosning. Það hefir undir höndum a. m. k. 200 þús. kr. til beinna umráða úr ríkissjóði. Þessu félagi er gefinn viss réttur til þess. Ég get líka nefnt Byggingarfélag verkamanna; því er veittur réttur að l. til þess að hafa umráð yfir fé til bygginga verkamannabústaða með sérstökum og betri kjörum en menn geta notið ella. Því er veittur viss réttur af ríkisins hálfu til þess að fá ríkisábyrgð fyrir lánum og ókeypis aðstoð við framkvæmd sinna áhugamála o. s. frv. Slíkum félagsskap er eðlilegt að setja skilyrði um kosningar, til þess að þau fái notið þeirra réttinda, sem löggjafarvaldið og ríkisvaldið vill veita þeim. Það er ekki nema eðlilegt, að slík félög verði að uppfylla þau skilyrði, eins og t. d. að hafa hlutfallskosningu, og ég fyrir mitt leyti er með því að lögbjóða hlutfallskosningu í Búnaðarfélaginu og Byggingarfélagi verkamanna af þessum ástæðum, sem ég gat um. En ég álít, að það nái ekki neinni átt að lögbjóða hlutfallskosningu í félagsskap, sem myndaður er af hagsmunaástæðum einstakra manna í þjóðfélaginu, sem hnappa sig saman til þess að vinna sameiginlega að sínum áhugamálum og leggja fram sitt eigið fé til þess að vinna að sínum félagsskap.

Sem slíkan félagsskap má nefna verkalýðsfélagsskapinn yfirleitt og einnig kaupfélagsskapinn. Ef ætti að lögbjóða hlutfallskosningu í verklýðsfélagsskap, sem ég álít fjarstæðu, þá mætti með sama rétti lögbjóða slíka kosningaaðferð í kaupfélögum, því að sá félagsskapur er hliðstæður að því leyti, að hann er byggður upp fyrir atbeina og fjárframlög einstakra manna. Ég veit ekki heldur til, að það sé lögboðin hlutfallskosning í svona félagsskap í nokkru öðru landi, sem hefir lýðræðisstj. Ég vil ekki með þessu segja, að einstök félög geti ekki tekið upp slíka kosningaaðferð hjá sér, ef þeim þætti sú kosningaaðferð eðlilegri.

Mér finnst einkennilegt að halda fram, að með frv. því, sem hér liggur fyrir og hefir inni að halda ákvæði um hlutfallskosningu, sé hægt að koma í veg fyrir sundrung og flokkadrátt í íslenzkum verkýðsfélagsskap.

Ég er sammála hv. flm. um það, að í verkalýðsfélagsskap, þegar hvert félag er tekið út af fyrir sig, eigi það ekki að vera flokkspólitískt litað, því í öllum verkalýðsfélagsskap eru menn af öllum flokkum. Og ef leitað er innan þeirra 100 verklýðsfélaga í landinu, má finna meðal trúnaðarmanna þeirra menn úr öllum flokkum í landinu. Í sumum af þessum verklýðsfélögum eru menn aðallega úr einum stjórnmálafl., en í öðrum eru það menn úr öllum stjórnmálafl., sem fyrirfinnast í landinu. Þess vegna þarf enga ákvörðun að taka um það, hvort eigi að hafa hlutfallskosningu.

Eins og hv. flm. tók réttilega fram, er ákvæði um það í l. Alþýðusambands Íslands, að þeir einir menn geti mætt á sambandsþingum Alþýðusambandsins, sem séu alþýðuflokksmenn.

Alþýðusamband Íslands er nú 23 ára gamalt. En fram til 1930, eða fyrstu 12 til 13 starfsárin, var ekkert slíkt ákvæði í l. Alþýðusambandsins. Á sambandsþingi Alþýðusamb. Íslands 1930 var þetta ákvæði sett inn í sambandsl. Till. um þetta ákvæði var þá flutt af núv. hv. 3. þm. Reykv. (HV), og til þessa ákvæðis liggja mjög eðlileg rök, og við vitum það bezt, sem þá sátum á sambandsþingi. Það var sem sé svo, að kommúnistar, sem um það leyti voru að kljúfa sig út úr á sambandsþinginu, gerðu bókstaflega óvært á sambandsþingunum. Þegar við alþýðuflokksmenn vorum að tala, hópuðu þeir sig saman úti í horni og sungu, ef þeim líkaði ekki eitthvað, sem við alþýðuflokksmenn sögðum, og slógu þeir taktinn og stöppuðu fótunum o. þ. u. l. Það var bókstaflega enginn fundarfriður fyrir þessum mönnum.

Þetta ákvæði alþýðusambandslaganna var neyðarvörn, eins og hv. 3. þm. Reykv. orðaði það á sínum tíma, til þess að öfgastefnur kommúnismans væru ekki innan veggja á fundum Alþýðusambandsins.

Þetta ákvæði er ekki einstakt innan verklýðsfélagsskapar, því slíkt sem þetta hefir gilt í fleiri löndum, eins og t. d. í Svíþjóð, þar sem það gilti í 10 ár.

Ég skal ekki frekar ræða um það, hvað heppilegt það er, en ég álít, að verkalýðsfélögin sjálf eigi að ákveða um það. Á alþýðusambandsþinginu 1930 var þetta ákvæði sett, og síðan hefir verið kosið til sambandsþinga öll þessi ár, og aldrei hefir verið nægilegur meiri hluti til að fella það úr gildi, og stundum hafa ekki komið fram neinar raddir um að breyta þessu ákvæði, en það eru skiptar skoðanir manna, hvort þetta sé heppilegt ákvæði eða ekki.

Þá hefi ég gert grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. Ég álít, að 1. atriðið komi ekki til mála og það sé brot á stjórnarskránni, og í öðru lagi sé það allt of einstrengislegt og megi ekki lögbjóða það í því formi, sem það er þar. Í þriðja lagi álít ég ekki rétt að lögbjóða svona hlutfallskosningu.

Þá var það eitt atriði, sem kom fram í ræðu hv. flm. Ég ætla ekki að fara í deilur við hann um það, hvort það sé Alþfl. eða Sjálfstfl. í Hafnarfirði, sem hafi átt sök á því, hvernig málum er komið í verkalýðsfélagsskapnum í Hafnarfirði, en við munum sammála um það, að þau hafi ekki verið í góðu lagi, og verður þar litið misjöfnum augum á þau sjónarmið. En ég hefi mjög ákveðna og ég álít rökstudda skoðun um það atriði, sem ég veit, að hv. þm. Hafnf. er vel kunnugt um. Hv. þm. sagði, að framan af hefðu í Hlíf í Hafnarfirði valizt til forustu menn, sem vel hefðu verið starfinu vaxnir og rækt það vel og ekki komið af pólitískum ástæðum inn í félagið. En ég ætla, að þeir menn, sem mest og bezt hafa komið fram í stj. Hlífar, séu í hópi þeirra 12 manna, sem reknir voru úr Hlíf fyrir ári síðan. Þessir menn hafa verið formenn í Hlíf og unnið fyrir það félag og — eftir því sem ég bezt veit — mjög vel.

Þótt sumir þessir menn geti ekki lengur talizt í stétt verkamanna, myndu þeir jafnfúsir til að vinna fyrir hana. Þeir þekkja vel kjör verkamannsins af eigin reynslu. Hví skyldu þeir þá ekki, þótt þeir nú vinni skrifstofustörf og fleira, einmitt geta beitt sínum kröftum í þarfir verkalýðsfélagsskaparins? Ég álít, að einmitt í sumum tilfellum gefist þeim betra tækifæri til að vinna fyrir verkalýðsstéttina.

Hv. þm. Hafnf. sagði, að það hefði verið spornað við ofbeldi í Hlíf, þegar skipt var þar um stj. Eins og ég hefi áður sagt, er það mál út af fyrir sig, en það var Sjálfstfl., sem heldur vildi styðja kommúnista heldur en Alþfl. í stjórn Hlífar.

Það var fyrir atbeina Sjálfstfl., að kommúnistar komust í stj. Hlífar, og ég hygg, að það hafi ekki verið gert til þess að koma í veg fyrir sundrung í verklýðsfélagsskapnum, heldur hið gagnstæða.

Ég hygg, að ég þurfi ekki frekar að ræða um málið viðvíkjandi ræðu hv. þm. Hafnf., og ég vildi ekki í minni ræðu á neinn hátt beina sökum að neinum einstökum mönnum. Ég hefi haldið mig við þau princip-mál, sem var um að ræða, og skýrt þau frá mínu sjónarmiði, og ég hygg, að ég hafi byggt á verulegri þekkingu á verkalýðsmálum, bæði hér á landi og annarstaðar.

Ég álít, að með því að samþ. þetta frv., sem felur slík ákvæði í sér, sé farið inn á rangar og að sumu leyti hættulegar brautir.