03.04.1939
Neðri deild: 33. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Héðinn Valdimarsson:

Þegar málið kom á dagskrá, gerði ég fyrirspurn til hæstv. forsrh. viðvíkjandi lántökumöguleikum í Ameríku, og hvort hann hefði fengið fréttir frá Vilhjálmi Þór. Forsrh. svaraði því neitandi. Ég hefi heyrt í dag, að hann hafi fengið frétt um þetta.

Nú spyr ég hann, hvort honum hafi ekki borizt fyrirspurn símleiðis um þetta og hvers vegna væri ekki leitað lánsheimildar til að taka lán í tilgreindum banka í New-York. Ég óska skýrs og ákveðins svars frá forsrh. um það. hvort hann hafi heyrt annað um málið en hann hefir gert grein fyrir.

Ég vil þá víkja að ræðum hv. þm., sem hér hafa talað. Hv. þm. Ísaf. talaði m. a. um gróða olíufélaganna og hve nauðsynlegt væri að taka af honum. Það munu liggja fyrir skýrslur um það hjá hæstv. ríkisstj. og verðlagsn. Og ég býst við, að hv. þm. sé vel kunnugt um það, að olían er seld með vissu verði. Ég veit ekki. hvort reynsla þessa hv. þm. bendir í þá átt, að um mikinn gróða sé að ræða. Ég býst við, að hv. þm. Ísaf. muni vel eftir þeim 60 þús. kr., sem var tap á rekstri hjá samvinnufélagi, sem hann stjórnaði, og leyfði sér, í beinu banni, að láta lána þessu félagi 20–30 þús. kr., þegar hann vissi, að það átti ekki fyrir skuldum. Ef olíuverzlun er þannig rekin af öllum umboðsmönnum og allt væri líkt þessu, skil ég ekki í, að um mikinn gróða væri að ræða.

Þá gat hv. þm. Ísaf. um það, sem ég kallaði mola fyrir brauð fyrir alþýðuna. Í staðinn fyrir að þessari gengislækkun var skellt á, flutti ég till. um viðreisn sjávarútvegsins nú á þingi. Þessi eini togari, sem keyptur hefir verið, hefir fallið í skaut flokksmönnum þessa hv. þm. Og ef það verður það sama með rekstur þessa togara og á Norðfirði, þá mun hann ekki vera ætlaður fyrir almenning. Því það var yfirleitt á Norðfirði þannig, að enginn fékk vinnu við skipið nema alþýðuflokksmenn.

Það má gera ráð fyrir, að það verði svo við þetta nýja skip, að það flokksskilyrði verði sett, að engir nema þeir menn, sem lofa með drengskaparloforði að kjósa alþýðuflokksmenn á þing, fái atvinnu þar. Það getur verið, að þeim heppnist að fá skipsmenn á þetta eina skip, en það verði ekki mikið fleiri, sem vilja vinna þetta til.

Þá talaði hv. þm. um það, að hann hefði skipt um skoðun og sumir samflokksmenn hans. Það er nú svo opinbert, að það þarf ekki að fara lengra út í það. Ég vil minna þá á, sem fylgzt hafa með kosningum, að við hverjar kosningar hefir Alþfl. lofað að standa á móti lækkun krónunnar. Nú er þetta allt svikið. Ég vil spyrja þessa menn, hvers vegna þeir skjóti ekki þessu máli undir dóm kjósenda við almennar kosningar, þar sem þeir hafa breytt sinni skoðun, eftir sinni eigin sannfæringu, að því er þeir segja.

Þá var hv. þm. að geta hér um húsaleigulögin og það gagn, sem verða myndi af þeim. Þegar það ástand kemur, sem hlýtur að koma, þegar þetta frv. hefir verið samþ., þá kunna þau að vera nauðsynleg En það eru á þeim tvær hliðar, og það er enginn vafi, að þau munu minnka byggingar hér í bænum og auka þannig atvinnuleysið. Mér er ekki kunnugt um, að neinar ráðstafanir hafi verið gerðar, hvorki í þessu frv. né annarstaðar, til þess að bæta þessum mönnum upp það atvinnutjón, sem af þessu mun hljótast.

Þá talaði bann um lán til verkamannabústaða, en því hefir verið lofað áður og verið svikið þá. Hv. þm. Seyðf. talaði líka um þessi mál, en var þó ekki eins harðorður og hv. þm. Ísaf., enda virðist hann ekki vera eins öruggur í sannfæringunni um lausn þessa máls. Það lítur út fyrir, að hann hafi gerzt fylgjandi þessa máls til þess að koma þar inn smábreyt. viðvíkjandi smáhækkun á launum, sem á að verða eftir frv. En það getur þó aldrei orðið eins mikið og aukning dýrtíðarinnar. Hann var að tala um, að það væri vegna þess, að verkalýðsfélagið Dagsbrún hefði ekki gengisskala í sínum samþykktum. Nú vita þeir það, sem kunnugir eru samþykktum verklýðsfélaga, að þessar gengisklásúlur eru frá þeim tíma, þegar gengisskráningin heyrði undir sérstaka nefnd. Af 100 verklýðsfélögum munu það vera um 30, sem hafa þetta. En hver maður getur skilið, að ef stórfelldar stjórnarráðstafanir eru gerðar, eins og t. d. gengislækkun, þá eru það ástæður, sem gera umbreytingu slíkra samþykkta nauðsynlega. Við skulum taka t. d., að stríð skelli á og allar vörur hækki um 10%. Halda menn, að þessi pappírslög, sem þessir menn eru nú að reka í gegn, muni standast þá? Nei, það er ómögulegt. Það sér hver maður. Það væri ekki hægt að halda þessu kaupgjaldi þá.

Ég vil að lokum benda á þær aðferðir, sem flokksmenn hv. þm. Seyðf. hafa notað gagnvart verkalýðsfélögunum, ef þau hafa ekki verið þeim hlýðin, þar sem þeir hafa ráðizt í að kljúfa þau, og má í því sambandi minna á Hafnarfjörð.