10.11.1939
Efri deild: 58. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (2891)

105. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson); Ég get í raun og veru tekið undir það, sem hæstv. atvmrh. sagði um þetta mál, að það væri það eðlilegasta og sjálfsagðasta, að verkalýðsfélagsskapurinn sjálfur ákvæði sitt skipulagsform, og ég álít líka, að verkamenn úr Sjálfstfl. eigi að hafa full réttindi á við aðra félagsmenn, enda hafa þeir eins og aðrir réttindi til að vera í trúnaðarstöðum. Og ég vona, að Sjálfstfl. þurfi aldrei að gangast fyrir stofnun sérstaks félags, heldur að hann uni við þau skipulagsform, sem verkalýðsfélagsskapurinn kann að setja um sín samtök í landinu. Og ég álít það sjálfsagt að ljá því eyra, sem kemur frá verkamönnum í Sjálfstfl., ekki síður en öðrum verkamönnum. Það á að sjálfsögðu að hlusta á þeirra kröfur um skipulagsform í verklýðsfélagsskapnum. Ég vona, að um þetta geti orðið samtök og samkomulag verkalýðsins í landinu.