10.11.1939
Efri deild: 58. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (2892)

105. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Atvmrh. (Ólafur Thors):

Ég vildi leyfa mér að þakka hæstv. félmrh. fyrir ummæli hans um það, að hann vilji, að verkamenn í Sjálfstfl. njóti sömu réttinda í félagsstarfsemi þeirra. En ég vildi skjóta því inn í, að hv. 2. landsk. (SÁÓ) greip inn í ræðu hæstv. félmrh. og taldi, að yfirleitt hefðu sjálfstæðismenn notið fullkominna réttinda í verklýðshreyfingunni. Þetta hefir ekki verið svo, því að sá hópur, sem hefir talið sig til Sjálfstfl., hefir ekki hlutfallslega aðstöðu til þess að koma sínum mönnum að í trúnaðarstöður félagsskaparins. Það og ekkert annað tel ég jafnrétti, og það og ekkert annað getum við unað við, sjálfstæðismenn. Og sérhver, sem viðurkennir, að jafnrétti eigi að ríkja, verður að gera sér grein fyrir, að í þessum efnum nægir ekki að viðhafa fögur orð. Við vitum allir, hver þungamiðjan er, og undanbragða í þeim efnum er eigi auðið.

Ég vildi þá vona, að vilji hæstv. félmrh. lýsi sér í því, að hann beiti sér fyrir því, að hægt verði að ná endanlegu og tryggu samkomulagi um málið. Þá er ég ekki í nokkrum vafa um það, að hv. flm. dregur sitt frv. til baka.