13.11.1939
Efri deild: 59. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (2897)

105. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Flm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Ég ætla að svara ræðu hv. 2. landsk. nokkrum orðum. Að því er mér skildist er það víst meining hans að reyna að tefja málið og taka upp málþóf, svo það fari ekki í n. Mér virtist ekkert nýtt koma fram í ræðu hans.

Ég ætla þá fyrst að víkja nokkrum orðum að hæstv. félmrh., þar sem hann talaði um flest af því, sem viðkemur málum verklýðsfélaganna innbyrðis. Það er einmitt svo, að menn innan verklýðsfélaganna eru ekki nægilega þroskaðir, eins og t. d. þeir menn, sem stofnuðu verklýðsfélag Hafnarfjarðar síðasta ár. Þeir geta ekki beygt sig undir lýðræðið, heldur þjóta upp og mynda annað verklýðsfélag. Af því koma vandræðin, sem orðið hafa í Hafnarfirði. Vandræðin leiðir bókstaflega af stofnun þessa félags. Það var stofnað af því að minni hl. vildi ekki beygja sig. Einnig þetta hefir orðið til þess að skaða réttlátan grundvöll. Þeir menn, sem ekki eru nógu þroskaðir, það eru menn, sem fylgja sömu stjórnmálaskoðun og hæstv. félmrh. og hv. 2. landsk. Ef þetta félag hefði ekki verið stofnað í Firðinum, er ég viss um, að ekki hefðu hlotizt af því slík vandræði sem nú hafa skapazt. Þegar menn hafa ekki þann þroska innan verklýðsfélagsskaparins að geta unnið saman án þess að hafa sömu stjórnmálaskoðun, þá h1ýtur að verða að taka í taumana með löggjöf.

Þá minntist félmrh. á, hvers vegna sjálfstæðismenn hefðu ekki verið teknir í stjórn félagsins. Það er sama ofbeldiskúgunin, sem hv. 2. landsk. benti á að ætti sér stað. Þegar fór fram stjórnarkosning í Hlíf, var það þannig, að sjálfstæðismenn fengu ekki að sitja á þingi Alþýðusambandsins. En þeir, sem kosnir voru, voru ekki kommúnistar, heldur fylgdu Héðni og Sameiningarflokki alþýðu. Alþýðuflokksmenn hafa þó fullan rétt til að sitja á sambandsþingi. Þá er ekki nema eðlilegur hlutur, að stjórn félaganna hafi fulltrúa á stéttarfélagsþingi. Ef nú t. d. Alþfl. hefði breytt sínum lögum, og sjálfstæðismenn mættu koma inn, er enginn vafi á, að sjálfstæðismenn í Hafnarfirði væru búnir að taka stjórnina í sínar hendur. Þetta ber allt að sama brunni, þetta er afleiðing af allri þeirri kúgun, sem hefir átt sér stað innan Alþýðusambandsins og alþýðuflokksmenn eru rótgrónir við. Þeim finnst það vera 1ýðræði, þegar þeir rjúka upp og mynda ný félög.

Ég hygg nú, að þegar hv. þm. átta sig á þessum hlutum, hvernig nú er í pottinn búið, þá sé ekki nema eðlilegur hlutur, að sjálfstæðismenn vildu ekki lúta slíku sem þessu, heldur heimta sinn rétt. Mér finnst það ekki skipta máli, hvaða stjórnmálaskoðun stuðningsmenn félaganna hafa. Úr því kommúnistar hafa leyfi til að sitja á Alþingi, álit ég þá hafa leyfi til að vera hvar sem er.

Hæstv. félmrh. minntist á það, að málfundafélögin hefðu haft mig í ráðum, þó ég væri ekki verkamaður. Fyrst og fremst horfir það nú öðruvísi við að vera í málfundafélögum, það eru félög, sem fylgja ákveðinni stjórnmálaskoðun. Félagsgjöld eru þar auðvitað notuð til styrktar þeirri stefnu, sem félagsmenn styðja. Þeir eru fylgjendur sjálfstæðisstefnunnar og þar að auki verkamenn, sem vilja gjarnan styrkja hið pólitíska starf. ... En þegar verið er að draga í efa, að maður fari með rétt mál, neyðist maður til þess að nefna nöfn, til þess að sýna fram á, að maður fari ekki með fleipur. Hv. 2. landsk. taldi vafasamt, að ekki ættu að vera aðrir en verkamenn í verkalýðsfélögum, með því að margir verkamenn væru ófúsir að taka að sér forystu innan félaganna. — Þetta er hinn mesti misskilningur. Að vísu er það svo, að formaðurinn í verkamannafélaginu Dagsbrún er ekki verkamaður, en ég gæti trúað því, að hv. 2. landsk. hefði ekkert á móti því, að einhver verkamaður skipaði hans sæti. Og hvers vegna ættu verkamenn ekki að vilja taka að sér forystuna í sínum eigin félögum? Þegar gengið er til almennra kosninga, er verkamönnum talið það til gildis, að þeir séu verkamenn. Í Hafnarfirði hafa verkamenn stjórnað félögunum, og hefir ekki einu einasti kvartað undan kúgun af hálfu atvinnurekenda. (SÁÓ: Við skulum nú ekki tala hátt um það). Ef tala ætti um kúgun af hálfu atvinnurekenda við verkamenn, mætti eins tala um kúgun af hálfu Alþfl. En hér er ekki vettvangur til þess að rökræða um það, en annarstaðar er ég reiðubúinn að ræða við hv. 2. landsk. um það mál.

Hv. 2. landsk. var að tæpa á því, að ég kæmi fram sem umbjóðandi atvinnurekenda og væri með flutningi frv. að fara aftan að verkamönnum og svíkja þá í tryggðum. Ég veit ekki, hvaða stað hann finnur þeim orðum. Ég veit ekki til, að ég geti skoðað mig sem umbjóðanda nokkurrar sérstakrar stéttar. Ég er umbjóðandi Sjáifstæðisflokksins, en hann vill láta allar stéttir njóta réttar síns. Annars voru það verkamenn í Hafnarfirði, en ekki atvinnurekendur, sem réðu úrslitum í síðustu kosningum, og ég býst ekki heldur við, að hv. 2. landsk. láti sér detta í hug, að það hafi verið atvinnurekendurnir, sem fóru frá sínum fyrra umbjóðanda, heldur verkamennirnir.

Ég vil ekki fara að verulegu leyti inn á það atriði frv., hvort rétt sé að hafa fleiri en eitt stéttarfélag fyrir hverja starfsgrein í sama bæjarfélagi. Báðir hv. ræðumenn virtust sammála um það, að æskilegast væri að hafa aðeins eitt félag, en vilja þó ekki löggjöf í því efni. En meðan verkamenn eru ekki þroskaðri en raun ber vitni í félagsmálum sínum, vil ég láta löggjafann taka þetta til athugunar. Hitt, að verkamenn þori ekki að vera forystumenn í sínu verkalýðsfélagi af hræðslu við atvinnurekendur, nær engri átt, það hlýtur þá að vera vegna þess, að þeir álíti sig ekki hafa vit á að hafa forystuna á hendi, en það þorir hvorugur hv. ræðumanna að segja.

Þá var það hlutfallskosningin. Hv. 2. landsk. hélt því fram, að hún yrði aðeins til þess að gefa kommúnistum byr undir báða vængi og koma þeim inn í sambandið, svo að þeir gætu komið þar glundroða af stað. En það merkilega er, að þetta atriði vilja kommúnistar ekki heldur hafa. Og það er vegna þess, að báðir þessir flokkar vilja hafa einræði innan félaganna. Er þá ekki einmitt lausnin, að fá sjálfstæðismenn inn í sambandið, svo að einhver samvinna geti tekizt milli sjálfstæðismanna og alþýðuflokksmanna innan þessara félaga? Ég held, að hæstv. félmrh. og hv. 2. landsk. ættu að skilja það, að það væri bezt fyrir alla parta. En einræði á ekki að þola þar frekar en annarstaðar.

Þá vil ég drepa á eitt atriði í ræðu hv. 2. landsk. þar sem hann minntist á ofbeldi í verkalýðsfélagi, en það hefði ekki verið talað um það sem neitt atriði í málinu í blöðum Sjálfstfl. Hann gat þess, að í félagi, þar sem stjórnin er í höndum samfylkingarmanna, hefði verið borin fram till. um það, hvort félagið skyldi vera áfram í því verkalýðssambandi, sem það er nú í, en stjórnin hefði frestað að láta taka ákvörðun í málinu. — Þeir hljóta að hafa verið búnir að læra af starfsaðferðum jafnaðarmanna, því að þessari aðferð beittu jafnaðarmenn í Hlíf. Þegar þessi mál komu fyrst fram innan Hlífar, höfðu þeir stjórnina í sínum höndum. Var fjölmennur fundur haldinn í bæjarþingssalnum í Hafnarfirði, þar sem kom fram till. um að ganga í óháð verklýðssamband. Þetta var í fyrra. Atkvgr. var frestað, þar sem jafnaðarmenn sáu, að þeir voru ekki í meiri hluta á fundinum. Á næsta fundi kemur fram rökstudd dagskrá í málinu, en það hafði þá ekki verið til umræðu, og hún er samþ., því að þá var búið að smala á fundinn kennurum, trésmiðum og öðrum fylgismönnum stjórnarinnar. Þetta er sú aðferð, sem jafnaðarmenn hafa beitt, og þetta vita þeir hæstv. félmrh. og hv. 2. landsk. En svona er það þar, sem þessir tveir flokkar ráða í verklýðsfélögunum, — ofbeldið ræður þar, sem þeir hafa töglin og hagldirnar.

Þá minntist hv. 2. landsk. á, að stúdentar væru svo miklum órétti beittir, ef aðeins væru verkamenn í félögunum. Á meðan stúdentar stunda erfiðisvinnu eru þeir verkamenn og verða því að ganga í verklýðsfélögin eins og aðrir og hafa þar skyldum að gegna, en njóta um leið fyllstu réttinda. Þegar þeir hætta að vera verkamenn og hafa engar kvaðir gagnvart félaginu, missa þeir um leið réttindi sín. Þetta er svo augljóst mál, og ég sé ekki annað en þetta sé fyllilega réttmætt.

Að lokum þetta: Hv. 2. landsk. svaraði hæstv. atvmrh. og sagði, að með stjórnarsamvinnunni hefðu deilumálin verið lögð á hilluna. Ég lít ekki svo á, að stjórnarsamvinnan byggist á því, að sjálfstæðismenn leggi deilumálin á hilluna, heldur hinu, að reynt verði að ná samkomulagi um þau og fá þau leyst á viðunandi hátt, og það er þetta, sem við sjálfstæðismenn ætlumst til af okkar ráðherra, að hann vinni að.