02.01.1940
Efri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (2902)

105. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég held, það væri mjög æskilegt, ef hægt væri að semja um þetta mál án þess að sett væri um það löggjöf. Síðan þetta mál kom hér fyrst fram, hefir mikið verið gert til þess innan ríkisstj. og utan að reyna að ná samkomulagi um málið á svipuðum grundvelli og frv. er byggt á. Þess vegna má vel segja, að frv., sem hefir e. t. v. mikið ýtt undir þetta starf, sé ekki eins nauðsynlegt nú og ekki eins mikil nauðsyn á að samþ. það á þessari stundu og áður var.

Það er eðlilegt að reyna að afgreiða þetta mál með samkomulagi án þess að taki til löggjafarvaldsins, og nú eru möguleikar fyrir hendi til að það takist; mun ég flytja dagskrártillögu við þetta mál, en það er verið að ganga frá henni. Vil ég biðja hæstv. forseta að doka við eftir dagskránni, sem ég geri mér vonir um, að hægt sé að samþ. Hefir mikið verið um hana talað á milli flokka, einmitt í sambandi við þá samninga, sem farið hafa fram, og eru samningarnir í anda þessarar dagskrár, sem ég hefi talað um.