02.01.1940
Efri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (2905)

105. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Sigurjón Á Ólafsson [frh.]:

Ég hefi nú heyrt rökst. dagskrána, sem hér liggur fyrir. Ég skal halda áfram á þeim stað, sem ég endaði, og það snertir þessa dagskrá. Það er alveg þýðingarlaust að ætla sér með l. að negla saman menn í einn félagsskap, sem svo er orðið langt bil á milli, að annarsvegar eru kommúnistar, en hinsvegar eru þeir, sem telja sig til lýðræðisflokkanna. Slíkar andstæður eiga ekki að vera saman og geta ekki verið saman, hvort sem þeir telja sig til Framsfl. eða hvað það nú er. Ég færði rök fyrir því við 1. umr., að slíkur félagsskapur væri alveg óstarfhæfur. Hinsvegar er það eðlilegt og sjálfsagt, að verkamenn, hvort sem þeir eru til sjávar eða til sveita, finni þörf fyrir það að vera í einum og sama félagsskapnum, þar sem hagsmunir eru sameiginlegir. Og reynsla annara landa er sú, að yfirleitt eru menn í einum og sama stéttarfélagsskapnum á sama stað. Á Norðurlöndum fá kommúnistar ekki að ráða neinu í félagsmálum verkalýðsfélaganna. Við ættum að vinna að því, að verkamenn skilji sjálfir, hvað í raun og veru er verið að leiða þá út í með þeirri kommúnistísku stefnu, sem þegar hefir getað sprengt nokkur verklýðsfélög í landinu. Og þegar menn hafa séð, að þessi félög, sem kommúnistar hafa ráðið, hafa verið stjórnlaus og dauð, hafa menn fyrr eða síðar komið inn í hin virku fél. aftur. Hv. flm. veit, að þetta er svo. Og við vitum, að þessi klofningur fékk ekki byr í seglin fyrr en hv. 3. þm. Reykv. kom með liðsauka en er nú í orði kveðnu þegar búinn að skilja aftur við sína góðu flokksbræður. En þegar svo er komið, er ekki hægt að gera út um þetta með lögum.

Ég benti á það við 1. umr., að hér í Reykjavík væru 5 félög í starfsgrein skipstjóra og stýrimanna, og þá langar ekkert til að láta fyrirskipa sér það með l., að þeir eigi að vera í einum og sama félagsskapnum. Í fyrsta lagi er það félag skipstjóra á verzlunarskipum. Í öðru lagi stýrimenn á verzlunarskipum. Í þriðja lagi skipstjórar á togurum. Í fjórða lagi stýrimenn á togurum. Í fimmta lagi skipstjórar og stýrimenn á mótorskipum og línuveiðagufuskipum.

Svo kemur þetta stóra deilumál um trúnaðarstörfin, sem allir vita, að hefir verið vakið upp af kommúnistum á sínum tíma. Ég veit ekki betur en að í verklýðsfélögunum sé það þannig nú, að hver einasti maður, alveg án stjórnmálaskoðana, sé þar kjörgengur til stjórnar og hvaða starfs sem er, nema aðeins að mæta sem fulltrúi á þingum Alþýðusambands Íslands. Hann getur verið í stj. og hvaða n. sem er. Það er aðeins þetta eina, með fulltrúa á alþýðusambandsþingi, sem stafar af því, að Alþýðusamband Íslands hefir unnið að því að sameina Alþfl. í baráttu sinni. Hvað myndu sjálfstæðismenn segja, ef svo og svo margir Framsflm. kæmu á þeirra flokksþing, eða framsóknarmenn, ef svo og svo margir sjálfstæðismenn eða alþýðuflokksmenn kæmu inn á þeirra flokksþing? Nú veit ég, hvað menn segja. Það er ekkert annað en að skilja þá að, það er víst höfuðstefnan í þessu máli, að skilja flokka og verkalýðssambönd. Það er kannske kaldhæðni örlaganna, að ég var líklega einn af þeim allra fyrstu mönnum síðan Alþýðusamb. var myndað, sem var með því, að það ætti að stefna inn á þá braut, að verkalýðssamböndin væru ekki studd af neinum sérstökum stjórnmálaflokki. En ég segi nú, eftir að kommúnisminn fékk að festa hér rætur innan verklýðshreyfingarinar, þá er ég jafnmótfallinn því að undanskilja verklýðssamtökin því að þessu leyti að vera óháð stjórnmálaflokkum eins og ég var með því áður en kommúnistar komu til sögunnar.

Ég held, að við forvígismenn Alþfl. höfum ekki farið ógætilega með okkar vald sem leiðandi fyrir Alþfl. En um leið og kommúnistum var gefinn kostur á að kjósa menn inn á þing verklýðshreyfingarinnar, þá voru þeir búnir að skapa sér sterkari aðstöðu en þeir nokkru sinni höfðu áður haft í verklýðshreyfingunni. Og ég býst við, að alltaf sé hægt, og ekki sízt á þessum tímamótum, að blása upp, kannske með fölsku yfirskini, óánægju meðal fólksins. Og þau áhrif yrðu kannske óeðlilega mikil, sem þeir gætu haft. Ég er á móti því, að slitin séu þau tengsl, sem nú eru milli Alþfl. og Alþýðusambands Íslands.

Ég hefi umgengizt alla menn í verklýðsfélögunum kannske manna mest af hv. þm., og sjálfstæðismenn í verklýðshreyfingunni hafa sumir ekki látið sitt eftir liggja um að aðstoða kommúnista í kröfum þeirra. En stefna kommúnista er að sundra verklýðsfélagsskapnum, því að þeir meina ekkert með því, þó að þeir tali um að sameina verkalýðinn og skapa honum betri lífskjör, annað en það, að hann verði hið ráðandi afl í hinni komandi byltingu, sem þá dreymir um. Það er þeirra höfuðmarkmið, en ekki að skapa þá þróun, sem miðar að því, að verkamaðurinn geti fengið betri lífskjör frá degi til dags. Og það er þýðingarlaust að neita þessu, því að öll rit þeirra segja þetta og öll stefna þeirra á mannfundum, hvar sem er út um allan heim, játar þetta. En að skapa hina eðlilegu þróun, sem yfirleitt hefir verið reynt að efla innan verklýðshreyfingarinnar í flestum lýðræðislöndum, er þeim á móti skapi.

Hv. 1. landsk., sem er fulltrúi kommúnista hér í d., mun sennilega svara þessu, en ég ætla að segja honum það, að hafi mér nokkurntíma komið til hugar að svara honum vegna stefnu hans, þá ætla ég ekki að gera það nú.

Ég skal þá víkja nokkuð að dagskrártill. Ég fyrir mitt leyti myndi hafa kosið þessa dagskrártill. á einhvern annan veg. En þeir, sem að henni standa, gera ráð fyrir að hafa nóg atkvæðamagn til þess að koma henni í gegn. Og þó að svo fari, að ég greiði atkv. mitt með henni, til þess þar með að málið sé úr sögunni, má enginn skilja orð mín svo, að ég hafi (JJós: skipt um skoðun.) á einn eða annan hátt bundið mig nokkuð í þessu efni og hvaða stefna kann að vera tekin upp um þessi mál í framtíðinni. Og ég verð að geta þess, að það er ekki á valdi mínu eða núverandi meðlima stj. Alþsamb. Íslands að segja hér á þingi í dag, hvaða stefnu verkalýðurinn í landinu yfirleitt vill taka upp í þessum efnum. Meiri hl. verklýðsfélaganna í Alþýðusamb. Íslands hlýtur alltaf að ráða, hvaða stefna verður tekin.

Ég endurtek það, að þó að ég greiði þessari dagskrártill. atkv., getur það ekki bundið mitt atkv. á sínum tíma um það, hvaða stefna verður tekin í þessu máli á þessu nýbyrjaða ári.