02.01.1940
Efri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í C-deild Alþingistíðinda. (2907)

105. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Það var alger misskilningur hjá hv. 2. landsk., að ég myndi halda hér ræðu til þess að svara honum, því það nær ekki nokkurri átt að svara svoleiðis hringavitleysu. Hann sagði m. a., að það stæði í mörgum ritum kommúnista, að þeir vildu umbætur aðeins að yfirskini, annars væru þeir á móti umbótum vegna þess, að þeir vildu byltingu. Menn, sem segja slíkt, vantar alla kímnisgáfu, því að ekkert verður gert með þetta annað en hlæja að því.

Ræða hæstv. félmrh. var samt ennþá spaugilegri. Hann hélt því fram, að það hefði ekki verið annars kostur en að Alþfl. hefði tekið að sér forustuna í Alþýðusamb., og engir aðrir færir til þess, nema Alþfl., vegna þess að það hefði ekki verið hægt að vinna með kommúnistum, því að þeir væru svo vondir menn. Hæstv. félmrh. sagði ennfremur, að kommúnistar hefðu tekið upp þann sið að syngja á alþýðusambandsþingum. Út af þessu var svo tekið það ráð, að setja það í l. Alþýðusambandsins, að engir skyldu vera kjörgengir á alþýðusambandsþing aðrir en Alþfl.-menn. (ÁJ: Sem ekki gátu sungið). Setjum svo, að ég tæki upp á því að fara að syngja hér í hv. d. á fundi. Samkvæmt rökfærslu hæstv. félmrh. sé ég ekki annað en að sjálfsagt væri fyrir t. d. Framsfl. að koma með till. um það, að eftirleiðis skyldu engir kjörgengir vera til Alþingis nema framsóknarmenn. Þetta er alveg hliðstætt. Þessa menn skortir alveg kímnisgáfu. Það er náttúrlega misskilningur, að menn fari að svara slíku, en það er alltaf gaman að hafa grín í bland.

Viðvíkjandi þessu ósamkomulagi, sem á að vera í verklýðsfélögunum, þá er það gripið úr lausu lofti. Það má segja, að meðal verkamanna í félögunum sé yfirleitt ekki um ósamkomulag að ræða í þeirra stéttarmálum. Það eru aðeins einstaka menn, sem hafa verið æstir upp af broddunum í Alþfl., sem eru að reyna að blása að ósamkomulagi í félögunum. Það er vitanlega mikil óánægja út af því ákvæði, að það skuli ekki vera nema einn pólitískur flokkur, sem hefir réttindi í Alþýðusambandi Íslands, og það flokkur, sem sennilega er í miklum minni hluta í verklýðsfélagsskapnum yfirleitt.

Hv. þm. sagði, að það væri vegna þess, að það gæti verið, að kommúnistar fengju marga fulltrúa. Ég get ekki skilið, að þeir menn, sem alltaf eru að tala um, að þeir séu með lýðræðinu, geti varið það að menn megi ekki vera kjörgengir, úr hvaða flokki sem þeir eru. Þetta er svo mikið ranglæti, að það er einkennilegt, að menn skuli álíta það virðingu sinni samboðið að láta slíkt út úr sér.

Viðvíkjandi því, sem er höfuðatriði þessa máls, er það að segja, að því er ekki að neita, að í þessari rökstuddu dagskrá frá hæstv. forsrh. er gert ráð fyrir, að samningar og samkomulag geti tekizt um það, að aðeins eitt stéttarfélag verði á hverjum stað í sömu grein og Alþýðusambandi Íslands verði breytt þannig, að menn hafi þar réttindi, í hvaða stjórnmálaflokki sem þeir eru. Í hinni rökst. dagskrá er gert ráð fyrir, að samkomulag geti tekizt um þetta milli ríkisstj. og hinna svokölluðu lýðræðisflokka, þ. á m. Alþfl., sem er nú þessi fíni lýðræðisflokkur, eins og ég var að lýsa áðan. Svo er það náttúrlega Sjálfstfl., en Framsfl. tekur ekki að nefna, því hann hefir svo lítið fylgi innan verklýðssamtakanna. Hverjir eru svo þessir fulltrúar verkamanna, sem eiga að semja við ríkisstj.? Það eru broddarnir í Alþfl., það er Stefán Jóh. Það eru kannske fulltrúar hinna, Eggert Claessen o. fl. Það er m. ö. o. þannig, að ríkisstj. semur við hina og aðra menn, sem kalla sig fulltrúa verkamanna. Þetta nær vitanlega engri átt. Þessir samningar, sem þarna eiga að fara fram, eru hlutur, sem verkalýðurinn vill ekkert hafa með að gera og verður að mótmæla kröftuglega fyrir hönd verklýðssamtakanna í landinu.

Um þessi mái eiga þeir einir að semja, sem hlut eiga að máli, verkamennirnir sjálfir. Sannleikurinn er sá, að það hefði verið auðvelt að fá slíkt samkomulag, ef verklýðsfélagsskapurinn hefði fengið að vera óáreittur og ekki verið hnepptur í þær viðjar, sem hann hefir verið hnepptur í af Alþ. með vinnulöggjöfinni. Það hefði þá verið hægt að semja um þessi mál og koma þeim í það horf, sem nauðsyn verklýðssamtakanna krefst. Fyrirkomulag Alþýðusambandsins og svo vinnulöggjöfin hafa orðið til þess, að verklýðssamtökin hafa komizt í algert öngþveiti.

Það hafa þess vegna verið uppi háværar kröfur frá þeim um það, að gerðar væru ráðstafanir til þess að bæta úr þessu, og þar á meðal hafa verið uppi háværar kröfur um, að gerðar væru ráðstafanir til þess að setja það í löggjöf, að ekki mætti vera nema eitt verklýðsfélag í sömu grein á sama stað.

Því hefir verið haldið fram, að það væri óviðeigandi að setja löggjöf um slíkt efni, og það væri jafnvel brot á stjórnarskránni, því þar væri mönnum leyft að vinna í félögum í löglegum tilgangi. Það hefir sömuleiðis verið haft á móti öðrum ákvæðum frv., að það, að setja reglur um innri mál verklýðshreyfingarinnar, væri ekki verkefni Alþ. Ég er sammála þessum aths. við frv. Ég játa, að það eigi ekki að vera verkefni Alþ. að setja reglur um innri mál félaganna, og ég álít líka, að það nái í raun og veru engri átt að setja reglur um það, hvað mörg verklýðsfélög megi vera í hverri grein. Ég álít, að þetta eigi að vera málefni verkalýðsins sjálfs og þau eigi að vera leyst af honum sjálfum.

Við skulum líta nánar á þetta eins og það er í raun og veru. Við skulum ekki líta á orðanna hljóðan, heldur á raunveruleikann. Hvernig er nú raunveruleikinn eftir að vinnulöggjöfin var sett og eftir að sá dómur hafði fallið, sem féll í félagsdómi út af Hafnarfjarðardeilunni á síðastl. vetri? Það er þannig, að eins og löggjöfin er nú og eins og hún er túlkuð af dómstólunum, þá jafngildir það því, að hægt né að banna alla verklýðshreyfingu í landinu. Samkv. þeirri löggjöf og samkv. skilningi félagsdóms á löggjöfinni, þá er hægt að stofna í hvaða starfsgrein sem er eins mörg verklýðsfélög og vera skal á sama stað, og allir meðlimir þeirra mega vera í öllum félögunum. Hver einasti atvinnurekandi getur stofnað verklýðsfélag, án þess að önnur félög fái rönd við reist. Þessi félög geta gert ákveðnar samþykktir, sem meðlimir félaganna eru skyldir að hlýða. Þessar samþykktir geta rekizt á. Þetta þýðir í raun og veru það, að menn eru skyldir að hlýða samþykktum, sem eru hver á móti annari. Samtökin eru því orðin eitt öngþveiti og hringavitleysa. Þetta þýðir það, að verklýðsfélögin eru máttlaus og einskis nýt. Það er í raun og veru sama og að banna verklýðsfélögin.

Það kann að vera, að ýmsir vilji halda því fram, að það stafi ekki mikil hætta af þessu, því allir séu sammála um, að aðeins eitt verklýðsfélag eigi að vera á hverjum stað í sömu grein. En hver er svo raunveruleikinn? Hann er sá að Alþýðusamband Íslands, sem þykist vera samband verklýðsfélaganna í landinu, hefir á launum erindreka, sem kostaður er af félögunum til þess að ferðast um landið til að kljúfa verklýðsfélögin. Hann hefir verið á 2 stöðum, þar sem hann hefir reynt að kljúfa verklýðsfélög, í Vestmannaeyjum og í Neskaupstað. Hann fer m. ö. o. stað úr stað til þess að reyna að kljúfa þau, og hann gerir þetta í skjóli þessara ákvæða í vinnulöggjöfinni og þess skilnings, sem félagsdómur hefir lagt í löggjöfina.

Raunveruleikinn er því sá, að löggjöfin er þannig, að hægt er að gera þannig lagað skurk í verklýðshreyfinguna, að það jafngildi því, að hún sé bönnuð. Það er þess vegna ekki vafi á því, að þó að maður undir venjulegum kringumstæðum hlyti að vera á móti því, að settar væru á Alþ. reglur um það. að aðeins eitt verklýðsfélag skuli vera í hverri grein á sama stað, þá er ástandið nú þannig, að það þýðir stórkostlega endurbót fyrir verklýðshreyfinguna, að hún verður í raun og veru miklu frjálsari en hún áður var. Það þýðir í raun og veru ekki hömlur á hana, eins og hún nú er, heldur þýðir það í raun og veru, að ráðin er bót á því ástandi, sem nú er og er óþolandi.

Sama er að segja um þær reglur, sem snerta það, að menn skuli vera jafnréttháir, án tillits til þess, hvaða stjórnmálaflokki þeir tilheyra. Það, sem undir venjulegum kringumstæðum á að vera mál verklýðsfélaganna sjálfra, er nú nauðsynlegt, að settar séu reglur um, að lýðræði skuli ríkja í verklýðsfélögunum. Það á hvergi að vera svo, að menn séu látnir gangast undir skyldur félagsskaparins, en hafi svo engin réttindi á móti.

Það eru ýms atriði í þessu frv., sem mönnum er þyrnir í augum, og það kom m. a. fram hjá hv. 2. þm. S.-M. Honum finnst hart að gengið, að mönnum, sem ekki eru í hlutaðeigandi starfsgrein, en lengi hafi starfað í hlutaðeigandi starfsgrein, sé meinað undir öllum kringumstæðum að vera meðlimir í verklýðsfélagi ákveðinnar starfsgreinar, ef þeir eru ekki í henni sjálfir. Ennfremur eru líka margir á öðru máli um það, að rétt sé að setja ákvæði um, að það skuli vera hlutfallskosningar í verklýðsfélögum, þó ekki sé um annað að ræða en kosningu trúnaðarmanna fyrir sambandsins hönd.

Ég álít líka, að þetta eigi ekki að vera í löggjöfinni og það sé ekki nauðsynlegt að setja það í löggjöf. Ég álít að vísu, að það sé mikil nauðsyn á því, að verklýðsfélögin séu fyrir verkamennina sjálfa og þar sé ekki mikið af mönnum úr öðrum stéttum, sem geti komið til með að hafa afgerandi áhrif. Það er sérstaklega hættulegt, ef um atvinnuverkendur er að ræða.

Hinsvegar finnst mér, svo framarlega sem um menn er að ræða, sem lengi hafa starfað í stéttinni eða með henni, að það sé ekki rétt að setja ákvæði, sem banni verklýðsfélögum að hafa slíka menn innan sinna vébanda, svo framarlega sem það er vilji viðkomandi félaga. Það á að fara þá leið, að banna atvinnurekendum að vera meðlimir í verklýðsfélögum, en setja reglur um það, að menn, sem ekki eru í viðkomandi starfsgrein, geti ekki verið meðlimir. nema þeir séu samþ. af svo og svo miklum meiri hl. atkv., t. d. ?.

Ég álít ekki rétt að setja reglur fyrir verklýðsfélagsskapinn um það, að það verði að vera þar hlutfallskosningar. Það á að vera á valdi verklýðsfélaganna sjálfra. Ég er ennfremur sammála um það, að hlutfallskosningar í verklýðsfélögum séu yfirleitt ekki góðar. Ef um er að ræða fleiri en einn pólitískan flokk meðal verkamanna og í verklýðsfélögunum eru harðvítugar deilur milli þessara flokka á hinu pólitíska sviði, þá er það þýðingarmikið, til þess að slíkar deilur verði ekki til að hamla á móti heilbrigðri starfsemi verklýðsfélaganna, að það geti verið samkomulag um það milli aðila, hvernig stjórn sé mynduð og að hún sé mynduð af sem flestum af hinum deilandi aðilum, og þá fyrst og fremst tekið tillit til þess, hverjir eru hæfastir til þess að gegna þessu starfi.

Það hefir yfirleitt verið vaxandi skilningur á því innan félaganna, hver nauðsyn er á því, að stjórn sé skipuð fulltrúum sem flestra hópa, og þá sérstaklega, ef um stríðandi aðila er að ræða. Sé ekki hægt að fá slíkt samkomulag, þá getur undir vissum kringumstæðum verið rétt að grípa til þess að hafa hlutfallskosningu, en það á þá að vera á valdi verklýðsfélaganna sjálfra, en ekki fyrirskipað með l. Það er þó yfirleitt rétt að reyna að komast hjá hlutfallskosningu, því hún er einskonar lögfesting á flokkaþrætunni innan félaganna, sem er auðvitað höfuðatriði að koma í veg fyrir að skapist þar.

Þá er enn eitt, sem ég tel, að þurfi að taka til athugunar í þessu frv., en það er ákvæðið um, að félögin skuli vera opin öllum innan hlutaðeigandi starfsgreinar á félagssvæðinu, eftir nánar ákveðnum reglum í samþykktum félaganna. Nú er að því að gæta, að það verður að tryggja það fyrst og fremst, að félögin séu virkilega opin, ef sett er ákvæði um, að aðeins eitt félag eigi að vera starfandi í sömu grein á hverjum stað. Það verður að tryggja það og búa þar svo rækilega um, að félögin séu virkilega opin fyrir öllum. Ég álít, að það sé ekki nógu rækilega gengið frá þessu í frv. Það er talað þar um nánari ákvæði í samþykktum félaganna, en þær geta verið þannig, að það liggi í þeim tálmanir fyrir því, að menn geti gerzt félagsmenn. Þá er spurningin sú, hvernig dómararnir muni líta á það, eða hvaða kostir dómurunum eru settir. Við getum nefnt dæmi: Á Akureyri er klofningsfélag, félag, sem haldið er uppi til þess að halda við klofningi í verklýðsfélagsskapnum á Akureyri. Það hafa verið gerðar ýmsar tilraunir til þess að koma félögunum saman. Það hefir sérstaklega verið reynt að láta verkamenn úr því félaginu, sem er stærra og hefir samninga við svo að segja alla atvinnurekendur á Akureyri, ganga samt sem áður inn í hitt félagið, en það hefir ekki verið hægt. Það er ekki vegna þess, að verkamennirnir í því félagi vilji ekki taka á móti hinum, heldur er það af því, að Erlingur Friðjónsson er búinn að búa svo um hnútana, að þeir geta ekki fengið upptöku í félagið nema þeir séu samþ. af meiri hl. stjórnarinnar í því félagi. Svona hömlur geta orðið til þess, að það sé ekki nema á pappírnum, að félögin séu opin. Ég veit, að Erlingur hefir haft það á orði, að sér gerði það ekkert til, þó svona frv. væri samþ. Hann hefði í hendi sér hinar nánar ákveðnu reglur, sem eiga að vera í samþykktum félaganna, og hann mun treysta á það, að dómstólarnir dæmi sér í vil. Það er þess vegna þörf á að ganga betur frá þessu.

Það er sama að segja um það ákvæði í frv., að stéttarsamband skuli vera opið fyrir verkalýðsfélög í þeirri starfsgrein, sem stéttarsambandið nær yfir. Það væri t. d. hugsanlegt, að hægt væri að knýja Alþýðusambandið til þess að veita meðlimum sínum jafnrétti, ef það fengi einhverjar sárabætur fyrir, eins og þegar þeir fengu 30 þús. kr. frá Norðurlöndum, því þessir menn eru svo ósjálfstæðir, að þeir geta ekki haldið uppi pólitískum flokki. Það liggur við, að þessir menn missi ráð og rænu, þegar um það er rætt að leysa flokkinn frá verkalýðsfélögunum, sem áður hafa haldið honum uppi tilneydd. Nú gæti svo farið, að þó hér fengist jafnrétti, þá segði stjórn Alþýðusambandsins sem svo: Við setjum bara einhverja nánari kosti um það, að þessi félög geti gengið í Alþýðusambandið. En meðal þeirra eru ýms stærstu félögin í landinu, því utan Alþýðusambandsins eru öll stærstu félögin í landinu, nema Sjómannafélag Reykjavíkur, verkakvennafélagið Framsókn, Iðja og félagið á Ísafirði. Það væri hugsanlegt, að settar væru reglur, sem hindruðu það, að eitt verkamannasamband gæti orðið. Ég álít þess vegna, að það þurfi líka að vera ákvæði, sem hindri það.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, þá er hin rökstudda dagskrá frá hæstv. forsrh. þannig, að ég get ekki fallizt á hana. Ég álít réttara að gera nauðsynlegar breyt. á frv. hv. þm. Hafnf., og það eru þannig breyt., sem mér hefir skilizt á hv. ræðumönnum, að menn væru yfirleitt samþykkir. Ég vildi þess vegna leyfa mér að leggja þessar brtt. fram skriflega. Ég hefi ekki lagt þær fram áður, þar sem ég vissi ekki, hvort kæmi til 2. umr. um þetta mál. Ég held, að þessar brtt. feli það í sér, sem nauðsynlegt er að tryggja betur en gert er í frv. eins og það kom frá hv. flm.

Þessar brtt. hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

1.Við 1. gr. Meginmál gr. að orðunum: „Félagssvæði má“ o. s. frv. orðist svo:

Stéttarfélag launþega skal opið öllum launþegum í hlutaðeigandi starfsgrein á félagssvæðinu, eftir nánar ákveðnum reglum í samþykktum félagsins, enda mega ekki felast í þeim neinar tálmanir fyrir því, að menn geti orðið félagsmenn, ef þeir skuldbinda sig til að hlíta samþykktum félagsins varðandi kaup og kjör og fyrirmælum þess um vinnustöðvanir. Mönnum, sem ekki eru í hlutaðeigandi starfsgrein, skal því aðeins heimil vera í stéttarfélagi starfsgreinarinnar, að samþykki löglegs félagsfundar með ? greiddra atkvæða komi til, enda séu þeir ekki atvinnurekendur, og ekki hafa þeir atkvæðisrétt um mál, sem varða kaup og kjör félagsmanna. Stéttarsambönd skulu vera opin öllum stéttarfélögum í þeim starfsgreinum, sem þau ná yfir.