02.01.1940
Efri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (2911)

105. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég vil þakka hv. þm. Hafnf. fyrir undirtektir hans undir þessa rökst. dagskrá. Það mun vera rétt, að ekki sé þingfylgi fyrir frv. Hinsvegar eru margir þeirrar skoðunar, að þessi ákvæði eigi að koma í aðalatriðunum með samningum og samkomulagi við Alþýðusamband Íslands, og það er aðalatriðið í þessari dagskrá, en þar á bara að fara þenna milliveg.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. landsk. var að tala um, að menn geti ekki gerzt meðlimir í stéttarfélögum, ef þeir tilheyrðu ekki stéttinni og ef þeir hefðu ekki tekið þátt í félagslífi hennar, meðan þeir tilheyrðu sömu stétt, vil ég benda á, að bæjarfógeti úti á landi, sem hefir verið verkamaður mikið af sinni æfi, en aldrei tekið þátt í störfum viðkomandi verkalýðsfélags, getur ekki gerzt félagi eftir að hann er orðinn sýslumaður, ef hann hefir ekki tekið þátt í félaginu, þó að hann hafi rétt til að vera þar félagi áfram, hvaða starf sem hann tekur að sér. Þetta álít ég þá eðlilegu leið, og þannig mun þetta hafa þróazt.

Ég skal svo ekki fara út í málið frekar, en vil aðeins undirstrika það í sambandi við verkalýðsfélögin, að það sjá allir, sérstaklega þeir sem eiga að semja um kaup og kjör, hversu óviðunandi það væri, ef þyrfti, þegar búið væri að semja við eitt félagið, að fara þá að semja við annað félag á staðnum, og þegar því væri lokið, yrði ef til vill að semja við það þriðja. Það er ómögulegt að semja við verkamenn um kaup og kjör, nema þeir hafi aðeins eitt félag, því að það yrði alltaf kapphlaup milli félaganna um að fá vinnuna, og svo næðust kannske engir samningar. Þetta er staðreynd, sem hefir sannað sig.

Um það, hve margir alþýðuflokksmenn séu í félaginu á Hólmavík, skal ég ekki deila meira. Ég býst við, að ég sé heldur kunnugri því en flestir aðrar. Eins og ég sagði áðan, þá tiltók ég 2–4, og þá meinti ég, að þeir væru ekki nema 2, og þá hefir þó komnúnistinn einu sinni haft rétt fyrir sér.