18.04.1939
Efri deild: 43. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (2917)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

Frsm. (Magnús Jónsson):

Þetta frv. er samið af milliþn. í skatta- og tollamálum, og hefir fjhn. tekið það til flutnings hér á Alþingi fyrir tilmæli fyrrv. fjmrh., núv. hæstv. viðskmrh. Þetta er einn liður þeirra aðgerða, sem mþm. vildi stofna til í skattamálunum, og ég hefði fyrir mitt leyti óskað þess, að þær kæmu til framkvæmda samtímis og í sambandi við sjálf tekjuskattslögin endurskoðuð. En það er hægt að taka þennan lið út úr og gera strax að lögum, eins og hér er lagt til. Tilgangur frv. er ekki að leggja á nýjan skatt, þó að um vaxtaskatt sé talað, heldur er það eingöngu tilgangurinn að fá betri innheimtu á tekjuskatti af vaxtafé, þ. e. að ná raunverulegum vaxtaskatti hefur inn en tekizt hefir áður.

Það hefir farið fram nokkur rannsókn á því, hve mikið af vaxtatekjum ætti að koma til framtals hjá skattskyldum framteljendum. Það verður nokkurn veginn vitað með því að taka upp öll verðbréf, sem út hafa verið gefin, og sömuleiðis allar innstæður og bera saman við það, sem talið hefir verið fram, og við þær eignir, sem skattfrjálsar eru. Mismunurinn verður þá vaxtafé, sem vantalið er á skattframtölum. Þessari rannsókn er ekki lokið, en þó svo langt komið, að augljóst er, að þarna er um miklar fjárhæðir að ræða. Af handhafaverðbréfum hefir ekki komið nema örlítill partur til framtals hjá skattskyldum eigendum. Það er náttúrlega ekki hægt að búa við það fyrirkomulag, að þeir, sem telja fram allt sitt beri þungann, en hinir sleppi, sem telja ekki fram.

Eins og tekið er fram í grg. frv., væri hægt að fara ýmsar leiðir til að ná vaxtaskattinum. Það mætti t. d. leggja á lágan aukaskatt á vaxtatekjur, en halda núv. tekju- og eignarskatti óbreyttum. En sá vaxtaskattur kæmi ómaklega niður á þeim, sem telja fram vaxtaeignir og vaxtatekjur, en hinir slyppu of ódýrt. Önnur leið væri að undanþiggja vaxtafé og vaxtatekjur tekju- og eignarskatti og jafnvel útsvarsgreiðslu. Það gæti orðið á þann hátt, að hlutaðeigandi eignir og tekjur væru dregnar frá í framtali áður en skattur (eða útsvar) væri á lagt, eða öllu heldur hætt að telja þær Fram eða þann hluta þeirra, sem sleppt yrði. Hinsvegar yrði lagður á vaxtaskattur, og yrði hæð hans að fara eftir því, hve mikið væri fellt niður á móti, tekjuskattur eða eignarskattur eða hvorttveggja, eða bæði skattur og útsvar. Nú er það æskilegt yfirleitt, að menn spari saman fé, og þarf að stuðla að því frekar en hræða frá því. Það er einkenni þeirra manna, sem safna, að þeir vilja helzt ekki láta vita af því. Þess vegna er ákaflega varhugavert að rjúfa að óþörfu leynd eignarréttarins, og með þessari aðferð væri hægt að ná vaxtaskattinum án þess. Slíkir menn eru kannske sízt gefnari fyrir það en aðrir að skjóta sér undan álögum; þeir vilja bara ekki gera opinskátt, að þeir eigi þetta. — En á þessari aðferð eru þeir gallar, að það er ómögulegt að vita, hve hár vaxtaskatturinn þyrfti að vera til að mæta skatttapínu, sem yrði við það að fella niður framtöl vaxtaeigna, og vaxtaskattur, jafn á hvaða innieign sem er, kæmi þversum við þá grundvallarreglu, sem allt okkar skattakerfi byggist á, stighækkun skattsins eftir því sem tekjur hækka; 25–30% vaxtaskattur yrði þá fjarskalega hár fyrir innstæður lágtekjumanna. Nefndin hvarf frá því að reyna slíka leið og samdi heldur frv. það, sem hér liggur fyrir og er, held ég megi segja, sniðug aðferð til að ná vaxtaskattinum án þess að þurfa að hækka hann nokkuð á þeim, sem telja fram, eða rjúfa leyndina, sem yfir þessum eignum hvílir hjá þeim, sem ekki vilja telja þær fram.

Þessu á að ná með því að leggja 25% vaxtaskatt á allar skattskyldar vaxtaupphæðir, og haldi vaxtagreiðandi skattinum eftir og standi skil á honum. Samin er vaxtaskattskrá upp úr framtölum, og vaxtaskattsgreiðslur þeirra, sem fram telja, dragast frá þeim tekju- og eignarskatti, sem innheimta ber samkv. skattskrá og lagður er á eftir núv. tekjuskattsákvæðum. Nemi vaxtaskatturinn meira en tekju- og eignarskattur, fær vaxtaeigandi muninn endurgreiddan. Þetta er, eins og menn sjá við nokkra athugun, engin breyting fyrir skattþegna, sem fram telja, og aðeins lítið eitt meiri fyrirhöfn.

Frv. er að öðru leyti ekkert nema útfærsla þessara ákvæða. Það er alveg sérstaklega verk skattstjórans í Reykjavík, og hann hefir allra manna mest skilyrði til að sjá við öllum þeim brögðum, sem beitt er til að sleppa við skatt og koma þarna til greina. Hann er eiginlega sá, sem samið hefir frv. og reynt að gera það sem bezt úr garði. En sjálfsagt mætti bæta um það, ef það skyldu samt koma í ljós einhverjir lekar, sem setja þarf undir.

Eignir þær, sem um er að ræða, eru taldar upp í 2. gr.: a) Innstæður hjá bönkum, sparisjóðum, innlánsdeildum félaga og öðrum lánsstofnunum, b) opinber verðbréf (bankavaxtabréf, ríkisskuldabréf, skuldabréf bæjar- og sveitarsjóða o. s. frv.) c) skuldabréf, víxlar og aðrar fjárkröfur, sem tryggðar eru með veði í fasteign, að nokkru leyti eða öllu, eða með tryggingarbréfi í fasteign.

Það er náttúrlega ekki jafnsterk nauðsynin með alla þessa eignaflokka, og hér í Rvík hefir aukið aðhald um framtal þeirra sumra náð árangri til sæmilegrar hlítar. Það hefir verið gengið ákaflega fast eftir, að menn sundurliðuðu skuldir sínar og gæfu upp lánardrottna. En þegar þeir, sem fram telja, greiða skattinn eins og áður, er ekki ástæða til að hafa á móti því, að þetta frv. sé svo víðtækt. — Ég held annars, að ekki sé þörf á að rekja frv. nánar, því að þm. munn vera búnir að fá úr því aðalatriðin með því að lesa það.

Það er þá aðeins bráðabirgðaákvæði 11. gr. um að gefa 2 ára frest áður en beitt verði refsiákvæðum, að því er snertir vaxtatekjur og vaxtaeignir, og þar með uppgjöf saka. Þetta er nauðsynlegt til að fá menn til að telja fram, og sakaruppgjöfin getur beinlínis borgað sig peningalega fyrir hið opinbera. Því minna sem kemur til með að fást af óendurkræfum vaxtaskatti, því betur má segja, að vaxtaskattslögin nái tilgangi sínum, því að fyrsti tilgangur þeirra er að knýja menn til að telja fram og greiða skatt eftir núverandi lögum um tekju- og eignarskatt. Fyrir þá menn, sem komast nokkuð hátt í skattstigann, verður að vísu ekki hagur fremur en áður að telja fram í stað þess að borga 25% skattinn, en öllum fjöldanum er það hagur. Og það er afarmikil umbót, ef farið verður að telja þessar eignir fram.

Á bls. 5 í grg. er nokkur útreikningur sýndur, sem sýnir í raun og veru. hvað mikil von er til þess. að menn dragi undan vaxtafé í landinu, því ef menn eru komnir nokkuð hátt í eignum og tekjum og þeir telja fram sparisjóðsinnstæðu, þá verða þeir að borga alla vextina, og ef þeir eiga enn meira, þá verða þeir að borga upp undir það tvöfalt. Þegar menn þurfa að borga með því að eiga eign, þá fer að verða rík ástæða til að skjóta henni undan.

Það er sennilegt, að þingi verði frestað fljótlega, og þess vegna engar líkur til þess, að frv. fái afgreiðslu fyrr en á seinni hluta þingsins, en við töldum þó rétt að útbýta því, svo menn gætu hugleitt þá hugmynd, sem þar er sett fram, þangað til málið kemur til afgreiðslu.