17.11.1939
Efri deild: 63. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (2926)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Ég skal játa það, að þótt það sé mþn., sem samdi frv., þá er ég ekki höfundur þess, heldur var það að mig minnir skattstjórinn í Reykjavík, sem samdi það. En ég legg alveg sama skilning í þetta atriði eins og hv. 5. landsk. hefir lýst, að um leið og vaxtagreiðandi greiðir vaxtamóttakanda ¾ hluta vaxtafjárhæðarinnar skal hann afhenda innheimtumanni ¼ hluta, sem er vaxtaskattur, og fái hann um leið tvíritaða kvittun sem á að verða honum aðgangur að því að hann fái þennan ¼ hluta vaxta endurgreiddan, þegar hann greiðir sinn tekjuskatt. Og það er alveg rétt, að það má kalla þetta dálítinn smíðagalla, sem mætti leiðrétta á frv., ef það reyndist þannig, að vaxtagreiðsludagur væri langt frá greiðsludegi tekjuskatts næst á eftir, og kæmi því nokkuð mikið millibil, sem vaxtagreiðandi verður að bíða eftir því að fá endurgreiðslu. Þarna yrði líka vaxtatap af þeim ¼ vaxtaskatts í nokkurn part úr ári, en mikið verður það ekki nema af mikilli eign.

Hinsvegar er það skýrt tekið fram hér í gr., að greiðsludagur vaxta af öllum innstæðum í bönkum og sparisjóðum er 31. des., svo það er augljóst, hvað langt bil verður í þessum tilfellum; það er frá því vextirnir hafa verið reiknaðir út og þangað til gjalddagi vaxtamóttakanda er á tekjuskatti og hann getur fengið þennan ¼ endurgreiddan. Maður getur sagt að þetta sé dálítill galli, en ég held þó ekki svo mikill, að hann sé verulega hættulegur.

Þá er það dæmið, sem hv. 5. landsk. tók, um það, að maður ætti ekki að greiða neinn tekjuskatt, þótt hann hinsvegar ætti að fá endurgreiðslu á 300 kr. Það er alveg eins og hv. 5. landsk. sagði, að þegar sá sami maður myndi hafa átt að greiða tekjuskatt, þá kemur hann með sín skilríki fyrir því, að ¼ vaxtanna hafi verið haldið eftir, og hann kemur með þau í stað þess að greiða skattinn. Þetta er engin nýjung í skattal. Þetta er aðeins aðferð til þess að ná í ákveðinn hluta ríkistekna. sem oft hefir ekki tekizt að ná að öðrum kosti, vegna ýmss að ekki er hægt að fá fullkomlega rétt framtal á þessu sviði.

Ég býst við, að ýmsir innheimtumenn myndu fá þarna um stundarsakir allmikið fé milli handa, sem þeim er ætlað að geyma, og verða þeir að hafa þetta fé handbært, því að í raun og veru ættu allir að telja fram og þá að fá þetta endurgreitt. Reyndin mun líka verða sú, að ýmsir skila ekki sínum kvittunum. Þeir falla frá frá endurgreiðslu og losna um leið frá skatti þeim, sem þeir munu hafa átt að greiða að öðrum kosti.

Ég sé ekki neina hættu við það, að innheimtumenn hafi þetta fé milli handa, af því ýmsir innheimtumenn ríkisins hafa mikið fé með höndum. Hér í Reykjavík yrðu þetta stærstar upphæðir og býst ég við, að það færi svo, að þær yrðu lagðar á vöxtu á meðan þær væru geymdar og ríkið fengi vaxtatekjurnar.

Ég held, enda þótt þetta sé laukrétt aths. hjá hv. 5. landsk., að hér sé nokkuð langt bil á milli greiðsludag,, og að nokkur óþægindi geti orðið í sambandi við það, þá sé það varla nægileg ástæða til þess að hafna frv.