04.12.1939
Efri deild: 75. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (2930)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

Þorsteinn Þorsteinsson:

Þegar þetta mál var til 2. umræðu, lýsti ég dálítið göllunum á því, sem ég taldi vera, og einkum hvernig væri farið innheimtu vaxtaskatts og meðferðinni, sem á honum er. Ég ætla ekki að taka hér upp aftur það sem ég þá sagði, en ég verð að segja það, að ég tel þetta vera mjög óþægilegt fyrir þá menn, sem eiga fé í sparisjóðum og hafa ekki umráð yfir því um tíma. Þetta kemur mikið niður á þeim, sem lítið eiga inni í sparisjóðum, og verður að teljast skaðlegt, að þetta fé á að dreifast út um byggðir landsins í staðinn fyrir að leggja það á vöxtu.

Ég hefði talið það réttara að undanskilja sparisjóðsfé frá þessari skyldu, að vaxtaskattur af því sé sendur til skattheimtumanna. Ég álít, að hægt sé að ná takmarkinu fyrir því, ef bankastofnanir eru knúðar til þess með l. að senda hlutaðeigandi skattanefndum skýrslur um innieign manna í sparisjóðum.

Ég skal ekki ræða lengi um þetta mál, en ég bjóst við því, að hv. fjhn. mundi hafa lagað málið fyrir 3. umr. og athugað sérstaklega þessar aths. mínar um það, hvort ekki væri hægt að sleppa innstæðufé úr a-lið 2. gr., en láta koma í staðinn að skylda stofnanir til að senda skýrslur um innieignir. En þar sem hún hefir ekki gert það, kannske af athugunarleysi, vildi ég óska þess, að umr. yrði frestað í bili, svo að hún geti komið með till. um breyt. á þessu atriði, eða ef hún æskir þess ekki, mun ég sjálfur flytja brtt.