02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (2948)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

*Frsm. meiri hl. (Sveinbjörn Högnason):

Það er ekki þörf á að svara mörgu, sem hv. 6. þm. Reykv. hafði fram að færa gegn frv. eftir þá breytingu, sem meiri hl. hafði gert við það. Hans ræða byggðist á þeim misskilningi, að hér sé um nýjan skaft að ræða, en það er aðeins um aðferð við innheimtu. Í 8. gr. síðustu málsgr. segir svo: „Nemi vaxtaskattsfjárhæð gjaldanda samkv. ofangreindu meiru en honum hefir verið gert að greiða í tekju- og eignarskatt, skal sá mismunur endurgreiddur.“ M. ö. o., það getur ekki verið um nýjar álögur að ræða, nema fyrir þá menn, sem hafa svikið undan skatti, og skil ég ekki, að nokkur alþm. hafi samúð með þeim mönnum, sem leggja það fyrir sig að svíkja undan skatti. (PHalld: En sparisjóðsfé?)Nei, það á ekki að greiða af því; það eru svo margar smáupphæðir, að ef ætti að taka þær allar, mundi það verða svo mikil aukavinna. Auk þess ættu þær þá rétt á sér röksemdirnar, sem hv. 6. þm. Reykv. kom með. Það er alveg augljóst fyrir alla. að hér er ekki um að ræða auknar álögur, heldur veg til þess að hægt sé að minnka álögur, því ef innheimtan er í svo slæmu standi, að mikill hluti af sköttunum kemur ekki inn, þá verður vitanlega að leggja meira á þá, sem telja allt sitt fram.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta; þess gerist ekki þörf. Ég vildi aðeins að lokum bera fram skrifl. brtt., sem fallið hefir niður hjá meiri hl. n. Í 1. gr. stendur. að þennan skatt skuli innheimta frá 1. janúar 1940, og ætti þá þetta ákvæði þegar að vera gengið í gildi. Þess vegna legg ég til að ný gr. komi til, sem verður 11. gr., svo hljóðandi: „L. þessi öðlast þegar gildi“. — og vil ég afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt.