02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (2950)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

*Pétur Ottesen:

Þó að ég geti vel tekið undir það, að skattaálögum hér er orðið svo háttað, að þær eru ef til vill farnar að verka lamandi á efnahagsstarfsemi manna, og því beri að haga skattalöggjöfinni þannig, að siglt verði fyrir þau hættulegu sker, að hún verki þannig. er þó ekki hægt að neita hinu, að ekki er hægt að koma með brtt. í þá átt að lækka tekjur ríkissjóðs, þar sem nú ríkir mjög óvenjulegt ástand að því er allar tekjur ríkissjóðs snertir. Hinsvegar hefi ég litið svo á að það sé rétt hjá hv. frsm. að í frv. sé ekki um að ræða neina nýja skatta frá því, sem ráð er fyrir gert í l. um tekju- og eignarskatt, heldur sé frv. fram komið af því, að það hefir sýnt sig að því er snertir sparifjárinnlög og verðbréf, að allt að 40 millj. kr. sleppa undan skatti, og því sé nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess, að skattar innheimtist af þessum sem öllum eignum borgaranna. Þessi brtt. er því í samræmi við þá reynslu, sem fengist hefir af skattalöggjöfinni. Löggjafarnir eru nú einn sinni ekki alltaf svo framsýnir, að þeir geti siglt fyrir öll sker, sem í ljós kunna að koma, og því er það mikilsverður þáttur í löggjöfinni á hverju þingi að endurbæta hana í samræmi við reynsluna, sem orðið hefir. Og þó að ég geti fallizt á. að með skattalöggjöfinni sé stefnt í varhugaverða átt að því, hve skattar eru orðnir háir, tel ég rétt að gera þessa breyt. á löggjöfinni, sérstaklega með tilliti til þess, hversu nú eru óvenjulegir tímar. Ég hefði því getað verið með frv. óbreyttu eins og það kom frá Ed. og viljað stuðla að því, að reynt væri með innheimtuna á þeim grundvelli, en hinsvegar tek ég undir þær ástæður, sem fram eru færðar fyrir breytingum, að mjög erfitt yrði að ná til þess grúa af fólki í landinu, sem á litlar upphæðir í bönkum og sparisjóðum. svo að vel gæti verið. að þetta yrði ekki mikill tekjuauki fyrir ríkissjóð, með tilliti til þess erfiðis og fyrirhafnar, sem það myndi kosta að ná þessu inn. Öðru máli gegnir um þessi verðbréf. Þau hafa verið talin nema allt að 10 millj. kr., og er það þá um fjórði hluti allrar upphæðarinnar, sem þar fellur undan skatti, ef sparisjóðsinnstæður eru taldar með. Ef athugað er, hversu miklu auðveldara þessir bréfaeigendur eiga með það að afla sér hárra vaxta, allt að því helmingi meiri en þeir, sem eiga fé í sparisjóði. þá er ljóst, að það ber að gera löggjöfina í þessu efni eins raunhæfa og kostur er á. Því tel ég, að samþ. beri frv., eftir að a-liður 2. gr. hefir verið felldur niður samkv. till., sem lagðar hafa verið fram. Þetta vildi ég láta koma fram sem mína afstöðu.