02.01.1940
Neðri deild: 97. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (2951)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

*Eiríkur Einarsson:

Það er síður en svo, að ég treysti mér til að mótmæla þeirri stefnu, er kemur fram í þessu frv. En það, sem veldur því, að ég vildi segja nokkur orð, er það, hve mér þykir varasamt eða varúðarvert um lögfestingu ýmissa atriða í frv. þessu, að þau svari tilgangi sínum. Að því er snertir b-lið 2. gr. tel ég varhugavert að skattskylda veðskuldabréf bæjarfélaga og annara, því að þessu fylgir, að ýms verðbréf eiga fyrir sér að falla frekar í verði. Ég geri þetta að spurninga minni, án þess að fara frekar út í það. Þessu máli fylgir að vísu mikil nauðsyn, en líka mikil áhætta.

En það, sem ég tel sérstaklega ekki nógu vel lesið í kjölinn ennþá, er skattskylduákvæðið í c-lið 2. gr. Ef þetta ákvæði væri svo traustlega undirbúið, að það gæti orðið til þess að teygja það fram úr myrkraskotunum, sem skotið hefir verið undan skatti, væri það mikilsvert, því að slík undanskot verða til þess, að þeir komast helzt undan skatti, sem sízt ættu að gera það. En mín skoðun er sú, að þetta ákvæði nái ekki tilgangi sínum. Ég er hræddur um, að þegar þetta er einskorðað við skuldabréf, víxla og aðrar fjárkröfur, sem tryggðar eru með veði í fasteignum, þá geti það orðið til þess. að refilstigamenn finni nýjar krókaleiðir til þess að komast hjá skatti. Tökum það dæmi, að maður eigi háan víxil á annan mann og víxillinn sé tryggður með veði í fasteign skuldunauts. Svo þegar veðtryggingin er sett og á að þinglýsa henni, þá hvíslar freistarinn í eyra mönnunum: Það er nú reyndar bölvað að þurfa að borga skatt af þessu, reynum annað, og frá sjónarmiði þessara manna eru slíkir refilstigavegir finnanlegir. Skuldareigandi getur, í stað þess að knýja fram fasteignartryggingu, knúið skuldunaut til að sanngilda fasteignartrygginguna með öðru framlagi, t. d. með því að fá sterk mannanöfn sem tryggingu, er jafngildir fasteignarveðinu. Þannig gætu þeir sloppið, sem sízt skyldu. Þetta gæti orðið meðal hinna lökustu viðskiptaþegna í þjóðfélaginu. Með slíku bralli er hægt að setja ýmiskonar veð, t. d. siðferðislegt, án þess að það þurfi að heyra undir þessa lagagr. Þessir menn eru oft gáfaðir í ósvífni sinni og lagnir að snúa á innheimtuna. En til þess að löggjöfin geti orðið nægilega vel úr garði gerð, þarf að sigla fyrir slík sker; það verður að koma í veg fyrir, að hinir siðferðislökustu sleppi. Þessir menn eiga ekki að eiga undankomu auðið. Fyrir mér vakir það, að frv., til þess að geta svarað tilgangi sínum, sé ekki nógu ýtarlega hugsað á ýmsa vegu. Mér hefði verið kærast, ef ýmsir hv. þdm. skyldu vera líkrar skoðunar, að frv. fengi ekki framgang á þessum síðustu flaustursdögum þingsins, heldur yrði það betur undirbúið fyrir næsta þing. Og þó að ég geri það ekki að till. minni, að frv. verði fellt eða því vísað til hæstv. ríkisstj., þá væri það mér skapi næst, en ef sú till. kæmi fram við 3. umr. frá einum eða öðrum hv. þm., þá held ég, að bezt væri að samþ. hana, því að það þarf vel að vanda til þessa viðkvæma máls.