03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (2955)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég skal ekki vera langorður um þetta frv. Ég þarf ekki að gera sérstaklega ýtarlega grein fyrir afstöðu okkar þm. Sósíalistafl. til þessa frv., því að einmitt á fyrsta þinginu, sem við áttum sæti á sem þm. Kommfl., flutti ég till. um þetta og taldi nauðsynlegt, að þessir tekjustofnar yrðu taldir fram, og hið helzta úr þeirri till. minni hefir verið tekið upp í þetta frv. Ég minnist þess, að í sambandi við framsöguræðu mína fyrir þeirri till. upplýsti ég, að það væri um 40 millj. kr. virði í verðbréfum og slíku, sem dregið væri undan skatti. Því var algerlega neitað þá, og hv. þm. mótmæltu því þá, þótt þeir séu nú búnir að viðurkenna það. Ég get í aðalatriðunum verið með þessu frv., einnig þó að sú breyt. hafi verið gerð á því af meiri hl. fjhn., að innstæður hjá bönkum og sparisjóðum séu teknar undan. Aðalatriðið er í raun og veru ekki beinlínis tekjurnar af vaxtaskatti, heldur hitt, að knýja verðbréfin fram þannig, að þau komi fram til eignarskatts og tekjuskatts og útsvarsálagningar, og er það atriði hið mesta, sem vinnst við þetta frv., ef samþ. verður. Verðbréfin eru þess vegna aðalatriðið í þessu sambandi.

Það er aðallega ein aths., sem ég vildi gera í sambandi við þetta frv., og vildi ég sérstaklega, að nokkuð yrði komið inn á það atriði við umr. um þetta frv., sem sé verðbréfamarkaðinn og annað slíkt. Það er vitanlegt, að mikið hefir verið braskað með þessi verðbréf, einkum meðal eignamanna og „spekúlanta“ hér í Reykjavík, og telja þeir, að sú verzlun sé mjög gróðavænleg. Það, sem hér er auðsætt, er, að unnt er að hafa mjög mikinn gróða af veðdeildar- og bankavaxtabréfum, sem eru nú einungis seld með mjög miklum afföllum og alls ekki í Landsbankanum, sem hefir svo að segja lokað sinni veðdeild; hann kaupir engin bankavaxtabréf sjálfur. Það, sem þarf að gera í sambandi við framkvæmd þessara l. til að afstýra þeim slæmu afleiðingum, sem ella gætu af þeim hlotizt, er að krefjast þess, að Landsbankinn taki aftur upp á að kaupa sín eigin bankavaxtabréf, eins og hann gerði áður fyrr, og tekjur veðdeildarinnar og innieign hjá Landsbankanum gengi til þess. Ef það yrði gert, þá myndi slíkt hafa yfirgnæfandi áhrif á markaðinn fyrir bankavaxtabréf hér í Reykjavík. Ég álít þess vegna, að gagnvart þeim hefði vel mátt samþ. þetta frv.; það myndi gera mönnum erfiðara fyrir að selja bankavaxtabréf og önnur verðbréf. Með samþykkt þessa frv. hér á Alþ. ber að gera kröfu til þess, að Landsbankinn fari aftur að kaupa bankavaxtabréf. Ég benti á þetta fyrir 2 árum, þegar við þm. Kommfl., sem þá var, fluttum frv., sem gekk í sömu átt. Ég vil benda á það, að án þess að þessu verði hrundið í framkvæmd er ekki hægt að koma í veg fyrir slæmar afleiðingar síðar, er myndu hljótast af þessum 1. sem ella eru réttlát og nauðsynleg. Þetta var atriði, sem þeim mönnum, er flutt hafa frv., hefir skotizt yfir, og þykir mér miður, að svo skyldi vera. Ég vildi vekja sérstaka eftirtekt á þessu án þess að ég leggi fram sérstakar till. í því sambandi.