04.01.1940
Neðri deild: 103. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (2963)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

*Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti! Það er sýnilegt, að það þýðir ekki fyrir mig að hefja hér umr. á ný. Ég skal þá bara nota þessar 5 mín. til að lýsa yfir því, að ég hefi sjálfur af því reynslu margra ára að leggja á tekju- og eignarskatt, og mér er ljóst, að það verður sá fátæki, sem greiðir þennan vaxtaskatt, en ekki sá, sem hefir efni á því að kaupa verðbréfin. Mér dettur í hug skrítin saga út af þeirri ályktun, sem forvígismenn frv. hafa gert. Það var einu sinni lítill drengur, sem átti sér fóstra og unni honum mikið. Dag nokkurn sátu þeir úti í sólskini, og lagði gamli maðurinn höfuðið í kjöltu drengsins og sofnaði. Þá kom mikill mýflugnasveimur og settist á skalla karls. Drengnum þótti sem honum mundi verða mein að mýbitinu og sópaði af skallanum, en mýið settist jafnóðum aftur, án þess að drengurinn kynni ráð við því. Þetta var Guðmundur ríki á Möðruvöllum. Guðmundur átti litla öxi. Bróðir Guðmundar, er Einar hét og var nokkru þroskaðri, kom nú þar að og segir við hann: Höggðu fluguna. — Guðmundur gerði sem hann mælti, og fór svo að vonum, að flugan flaug burt, en Guðmundur hjó þar í höfuð fóstra sínum.

Líkt er þeim farið, er flytja frv. þetta. Þeir missa fluguna, hinn eiginlega skattgreiðanda, úr höndum sér. Hann mun hafa einhver ráð með að fella þau verðbréf, sem hann kaupir, og árangurinn verður aðeins sá, að seljandinn fær lægra verð en ella hefði orðið.