04.01.1940
Neðri deild: 103. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (2964)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

*Sigurður E. Hlíðar:

Ég vil aðeins gera grein fyrir atkv. mínu á þessum fáu mínútum, sem ég hefi til umráða.

Þegar það vitnaðist frá milliþinganefnd í skatta- og tollamálum, að sparisjóðsfé og verðbréfaeign landsmanna, sem ekki kæmi til skatts, næmi hvorki meira né minna en 40 millj. króna, fylltust hv. þm. áhuga miklum, að ná nú skatti at þessari feikna fúlgu. — Hér þurfti ekki nýja skattalöggjöf —, nei, en dálítið aðra innheimtuaðferð, og því var þetta frv. lagt fram.

Nú þegar málið hafði verið reifað í deildum Alþ., þorðu hv. þm. ekki þegar til kom að láta ákvæði frv. ná til sparifjárins, voru hræddir um, að það myndi bitna fyrst og fremst á þeim, sem fátækari voru, en hefðu með sparneytni getað lagt nokkurt fé í sparisjóð. Með því að fella niður ákvæðið um spariféð héldu ýmsir, að málinu hefði verið gerður bjarnargreiði. Ég er á annari skoðun, enda er ég algerlega mótfallinn því principi, sem í frv. felst. — Nú er það viðurkennt af öllum, að eins og málið liggur fyrir nú, muni ákvæði þess torvelda verðbréfasölu í landinu. Ég hefði þó haldið, að það hefði mikla praktíska þýðingu, að sala verðbréfa væri sem greiðust, að því er snertir byggingar, kaup og sölu fasteigna o. s. frv.

En afleiðingin af þessu frv., ef það verður að l., verður aðeins sú, að verðbréf falla og hér hefst braskaraöld. Þá geta sparifjáreigendur farið að braska með sparifé sitt í föllnum verðbréfum, og höfum við þá komizt hringinn nokkurnveginn.