04.01.1940
Neðri deild: 103. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (2965)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég veit ekki nema það sé ráðlegt, eins og nú er komið, að fresta afgr. þessa máls. Stjórn Landsb. telur mjög varhugavert að lögleiða frv. eins og það er, og hún kvartar undan því, að hún hafi ekki fengið frv. til umsagnar og athugunar. Í annan stað er frv. að hálfu leyti dagað uppi, þar sem 1. gr. frv. gerir ráð fyrir því, að vaxtaskattur sé innheimtur frá 1. jan. 1940. Sé ég ekki, að unnt sé að framfylgja því ákvæði, þar sem þegar hafa verið greiddir verðbréfaeigendum vextir þeir, er féllu í gjalddaga 1. jan.

Þá hefir og hv. 7. landsk. bent á það, að í sambandi við innheimtu vaxtaskattsins er beinlinis skapaður áhættumöguleiki fyrir ríkissjóð, þar sem hann yrði raunverulega að greiða þá vexti, er kynnu að misfarast hjá þeim, er hafa innheimtuna á hendi.

Teldi ég af þessum orsökum rétt að fresta afgreiðslu málsins og leita um það umsagnar bankanna, en leggja það síðan fyrir næsta þing í því formi, sem menn vildu þá hafa það. — Ég efast að vísu um það, að menn vilji fallast á þessa afgreiðslu málsins, en vildi aðeins láta þessa skoðun mína í ljós.