04.01.1940
Efri deild: 105. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (2973)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég fylgdi þessu frv. mjög ákveðið eftir og tel í hæsta máta réttlátt, að þeir, sem hingað til hafa getað falið eignir sínar í verðbréfum eða sparisjóðum, greiddu skatt af þeim eins og aðrir. Ég skal taka það fram af af þeim rökum, sem fram hafa komið gegn frv., að það er fjarstæða að hugsa sér, að 1/3 verðbréfanna, sem falla undan skattgreiðslu, ráði verðlaginu á þeim öllum. Ætli hinir 2/3 hlutarnir ráði engu um verðið? En þrátt fyrir það, að ég er ákveðið fylgjandi frv., þá mun ég verða með hinni rökst. dagskrá, sem fram er komin frá hv. 1. þm. Reykv. Er það af því, að í frv. er ákvæði um, að 1. jan. 1940 skuli innheimta þennan skatt. Ég tel hinsvegar ekki mögulegt nú, 4. jan., að innheimta skatt af þeim tekjum, er fallið hafa til af bréfum frá 1.–4. jan., en það er meginið af þeim tekjum, sem skattleggja á samkv. frv., þ. e. af ræktunarsjóðsbréfum, kreppulánasjóðsbréfum, veðdeildarbréfum og fjölda annara bréfa, sem einstakir menn gefa út með veði í fasteignum. Tekjurnar eru þess vegna farnar hjá í þetta sinn, og þess vegna, og af því að ég ber fullt traust til milliþn., sem ætlazt er til, að á ný fái þetta mál til meðferðar, eins og hv. 1. þm. Reykv. sagði áðan, mun ég samþ. hina rökstuddu dagskrá. Þegar frv. kemur aftur fram, verða einhverjir væntanlega búnir að sjá, hve lítils virði þær ástæður eru, sem færðar hafa verið fram gegn því. Í því trausti, að næsta þing taki þetta mál til meðferðar, og að framvegis verði komið í veg fyrir, að 40–50 millj. af eignum landsmanna séu dregnar undan skatti, mun ég samþ. hina rökst. dagskrá.