04.01.1940
Efri deild: 105. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (2974)

78. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé

*Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti! Ég þarf ekki að taka það fram, að ég hefi fylgt þessu frv. frá því að það kom fyrst fram, en ég get ekki séð, að hægt sé að fylgja því eins og það nú er orðið, því sem undan eru dregnar allar innstæður í bönkum og sparisjóðum og ýmsum öðrum lánsstofnunum. Hljóta afleiðingarnar af því að verða þær, að peningarnir dragast frá verðbréfakaupunum inn í þessar stofnanir, og tel ég það vafasamt. Hinsvegar mun ég, vegna þess að dregizt hefir afgreiðsla frv. og þótt það yrði að l. nú, myndu ekki nást þær tekjur, sem ella hefðu fengizt, greiða atkv. með hinni rökst. dagskrá hv. 1. þm. Reykv., í trausti þess, að ríkisstj. leggi frv. fyrir næsta þing, sem væntanlega kemur saman í febrmán. næstk., og verði þannig frá því gengið, að það verði að l. á því þingi.