03.04.1939
Neðri deild: 34. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

69. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Við erum hér innan Sósíalistafl. flm.brtt. við frv., og ganga þær út á það, að 2., 3. og 5. gr. séu felldar burt úr frv. Aðallega eru það 2. og 3. gr., en þar sem 5. gr. stendur í sambandi við þær, þá tókum við hana með.

Þessar brtt. fara fram á það, að felldar séu burt úr frv. allar hömlur, sem lagðar eru á verkalýðinn til þess að hindra það, að hann geti hækkað kaup sitt, og vinna þannig upp á móti þeim skaða, sem honum annars væri valdið með gengislækkun. Ef samþ. væri að lækka gengið og þær brtt. væri samþ., sem við berum fram, þá hefði verkalýðurinn möguleika til þess með verkföllum og kaupsamningum að hækka sitt kaup og hindra það, að gengislækkun lenti á honum fyrst og fremst. Við álítum, að þeir, sem ekki vilja vera með í því að beita verkalýðinn hróplegu ranglæti og svipta hann frelsinu til að bæta kjör sín, muni greiða atkv. með þessum till. okkar.

Ég vil út af þeim umr., sem fóru hér fram áðan, minnast lítið eitt á það, sem hv. þm. Ísaf. var að ræða um, og á undan honum hv. þm. Seyðf. Þeir voru að tala um, að við hefðum verið kosnir á þing sem þm. Kommfl. og við hefðum síðan brugðizt þeim flokki með því síðar að gerast meðlimir Sósíalistafl. Ég vil taka það fram í þessu sambandi, til þess að hv. þm. geti sparað sér að vera með rugl og blekkingar, að Kommfl. samþ. einróma á sinu þingi að ganga til sameiningar við Alþfl. sem heild, eða þann hluta hans, sem vildi ganga til sameiningar. Þetta var gert á fullkomlega lýðræðislegum grundvelli á þingi, sem kosið var til af öllum meðlimum flokksins, og þar samþ. af öllum fulltrúunum að ganga til þessarar sameiningar. Og upptökin að þessari sameiningarsamþykkt voru þau, að Alþfl. sendi sameiningartilboð til Kommfl. Ég má þá kannske bera fram þá fyrirspurn til þessa hv. þm., hvort það hafi verið meiningin hjá þeim, þegar alþýðusambandsþingið samþ. að leggja niður Alþfl. og ganga til sameiningar með Kommfl., að þeir með því sviku sinn eigin flokk og við kommúnistar svikum okkar flokk. Það er bezt fyrir þessa háu herra að vera ekki að gera sig heimskari en þeir eru með því að vera með slíka útúrsnúninga, og það allra sízt, þegar þeir sjá, að við berjumst áfram fyrir þeirri stefnu, sem Kommfl. og Alþfl. börðust fyrir, meðan báðir þessir flokkar börðust fyrir hagsmunamálum verkalýðsins.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Ísaf. var að halda fram, að Alþfl. væri bezti vörður lýðræðisins, þá skulum við láta verkin dæma um það. Það er laglegur vörður fyrir 1ýðræðið, sem Alþfl. er í sambandi við þetta frv., þar sem hann leggur til að svipta verkalýðinn með lögum öllum réttindum, sem hann með áralangri baráttu hefir áunnið sér til þess að hafa áhrif á kaup og kjör sín og beita þeim samtökum, sem hann hefir byggt upp til þess að verjast meira misrétti. Það er skrítin vörn fyrir lýðræðið, sem þessir herrar framkvæma með frv. slíku sem þessu. Ég vil óhræddur leggja það undir þjóðardóm, og það strax, hvernig þeir fylgja lýðræðinu, og láta þjóðina skera úr um það, hvernig henni lízt á þetta framferði þeirra og þessa vörn þeirra fyrir lýðræðið.

Það er misskilningur hjá hv. þm. Ísaf., að Alþfl. hafi beygt sig fyrir þjóðarnauðsyn. Hann hefir beygt af fyrir nauðsyn braskaranna í landinu, sem Alþfl. þorði einu sinni að berjast á móti. En nú er hann farinn að berjast á móti því, að hinar vinnandi stéttir fái bætt kjör sín.

Ég vil að síðustu í sambandi við það, sem hv. þm. G.-K. sagði og mér gafst þá ekki tími til að svara, segja það, að svo framarlega, sem haldið verður áfram á þeirri braut, sem hingað til hefir verið farin, þá getur farið svo, að bankarnir gugni undir þessu. Ég vil spyrja hv. þm. að því, hvort hann sé farinn að verða var við, að bankarnir séu farnir að gugna undir þeim þunga, sem lagður hefir verið á þá af þeirri stjórn, sem hann og hans menn hafa haft á útgerð og atvinnulífi þjóðarinnar. Ég vil um leið biðja hv. þm. að athuga, hverjum sé verið að vinna gagn með frv. því, sem hér er verið að samþ. Ég býst við, að það sé beinlínis verið að stefna að því með þessu frv., að gera bankana gjaldþrota. Þetta er allt gert til þess að hlífast við því, að það komi í ljós, hvernig þeir hafa ráðstafað fé landsmanna í bönkunum að undanförnu. Það er meiningin að dylja þetta fyrir þjóðinni og, því á að píska þetta frv. í gegnum þingið með svona miklum hraða.