24.11.1939
Neðri deild: 67. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í C-deild Alþingistíðinda. (2981)

122. mál, verkstjórn í opinberri vinnu

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Þetta frv. er sennilega fram komið fyrst og fremst frá þeim mönnum, sem stundað hafa verkstjórn undanfarin ár.

Það má að sjálfsögðu telja það nokkra réttarbót fyrir verkstjórana, ef þeir fengju þetta frv. samþ., enda þótt það sé orðið að nokkuð fastri venju og hafi verið undanfarin ár, að þeir, sem hafa stundað verkstjórn hjá því opinbera að staðaldri um nokkurt skeið, hafa setið fyrir öðrum um vinnu við þau störf, svo að því leyti má segja, að þeir séu orðnir verndaðir af þessari venju, sem verið hefir. En ef á að setja l. um þetta, — og það er ekki hægt að neita því, að það gefur að sumu leyti verið til bóta, — þá verða l. a. m. k. að vera þannig úr garði gerð, að í þeim felist einhver umbót frá því, sem er, en ég efast um, að það sé hægt að ganga svo frá þessu frv. eins og það nú liggur fyrir. Náttúrlega má draga þau rök fram gegn þessu máli, og svo er það, að þó að menn séu lærðir í verkstjórn, eða þeim atriðum, sem lögð er áherzla á í þessu frv., þá sýnir reynslan, að það er um verkstjórn fremur flestu öðru, að hana er ekki hægt að læra að öllu leyti. Menn verða að hafa ýmsa meðfædda eiginleika til þess að geta verið góðir verkstjórar, ýmsa persónulega eiginleika til að geta stjórnað, og umfram allt verklagni, sem menn ekki heldur geta lært nema að litlu leyti. Að vísu má segja, að þetta frv. sé í þessu efni ekki svo mjög hættulegt, vegna þess að það er tekið fram í 1. gr., að atvmrh. skuli setja í reglugerð þau atriði, sem verkstjóri á að uppfylla, þegar hann gengur undir próf, og það má náttúrlega taka þar fram ýms atriði, sem ekki eru í þessu frv. Þessi atriði hygg ég, að margir muni þekkja, sem unnið hafa undir margskonar verkstjórn við ýmiskonar vinnu. Það eru ekki alltaf þeir lærðustu, sem eru beztir verkstjórar. En ef þetta frv. á að verða að l., þá verður a. m. k. að gera það þannig úr garði, að menn viti, hvað er meint með því. Í 3. gr. frv. stendur, að það sé ekki skylt að hafa lærða verkstjóra við minni háttar vegabætur í sveitum. Hvernig á að túlka þessi orð „minni háttar“? Þetta er ekkert reglugerðaratriði, og þess vegna er nauðsynlegt, að skýrt verði kveðið á um þetta í l. sjálfum. Og það er ekkert tekið fram um það í frv., eins og hv. þm. Borgf. tók fram, hver eigi að ákveða það, hvað sé minni háttar vegavinna, en eins og við vitum, þá eru vegabætur nokkurn veginn jafnvandasamar allar og erfitt að draga þar markalínu á milli.

Í 5. gr. eru ákvæði um, að svipta megi verkstjóra réttindum með dómi, ef hann brýtur af sér um tiltekin atriði. Í gr. eru sett fram 4 atriði, sem hvert um sig getur orðið þess valdandi, ef brotið er í bága við það, að viðkomandi verði sviptur starfi fyrir fullt og allt. Þessi atriði eru:

1. Ef verkstjóri verður valdur að alvarlegum slysförum vegna vítaverðs gáleysis.

2. Gerist sekur um fjárdrátt eða annan óheiðarleik í starfi sínu gagnvart yfirboðurum sínum.

3. Gerir tilraun til þess vísvitandi að draga af tíma eða kaupi verkamanna eða á annan hátt gengur á rétt þeirra.

4. Er ölvaður við verkstjórn.

Það er ef til vill ekkert við það að athuga, að ef framkvæma á þessa gr., þá þarf í hverju einstöku tilfelli að höfða mál á viðkomandi verkstjóra.

Um 2. atriðið er það að segja, að menn geta fyrr gert sig seka um ótrúnað en að það geti beinlínis kallazt óheiðarlegt. Og ég álít, að það ætti að geta valdið stöðumissi, ef verkstjóri gerir sig sekan um ótrúnað, þótt ekki sé beinlínis óheiðarlegt. Ég álít, að þarna sé notað of sterkt orð, og þess vegna gerðar of litlar kröfur til verkstjóra í þessu efni. Því þess verður vitanlega að gæta, að til stéttar, sem fær mikil réttindi, verður líka að gera miklar kröfur.

4. atriðið er það, að verkstjóri megi ekki vera ölvaður við vinnu. Þetta er vitanlega sjálfsögð krafa. Mér finnst, að hún gangi bara ekki nógu langt. Það er vitað, að þar, sem vinnuflokkar vinna víðsvegar úti um land, þá er því þannig háttað, að á laugardögum og sunnudögum hefir mikið af þeim mönnum, sem þar vinna, frístundir, sem notaðar eru mjög misjafnlega. Og því er ekki að leyna, að í sumum þessum vinnuflokkum hefir borið meira á drykkjuskap en víða annarstaðar. Í þessum vinnuflokkum er mikið af ungum mönum. Ég vil þess vegna, að ef á að veita mönnum sérstök réttindi til verkstjórnar, þá séu gerðar kröfur til hinna sömu um reglusemi, ekki aðeins við vinnu, heldur einnig þar fyrir utan. Verkstjórarnir eiga líka að hafa góð áhrif á sína vinnuflokka utan sjálfrar vinnunnar. Þetta er ekki sagt út í bláinn. Það er sagt af reynslu á því, hvað misjöfn áhrif verkstjórar hafa á undirmenn sína utan sjálfrar vinnunnar.

Í 7. gr. frv. er það tekið fram, að verkfræðingar þurfi ekki sérstakt leyfi til verkstjórnar samkv. 1. Ég geri því ráð fyrir, að þeir megi vera drykkfelldir bæði við vinnu og utan hennar. Það er a. m. k. ekkert um það sagt.