24.11.1939
Neðri deild: 67. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (2985)

122. mál, verkstjórn í opinberri vinnu

*Eiríkur Einarsson:

Það er sérstaklega eitt atriði í frv., sem ég vildi leita nokkurrar fræðslu um, þó að hv. þm. Borgf. hafi að nokkru vikið að því, eftir að ég kvaddi mér hljóðs. Þetta atriði er viðvíkjandi ákvæði 1. gr. um verkstjórn við opinbera vinnu. Mér þykir vanta skilgreining á því, hvað sé opinber vinna, því að þetta á sín takmörk, sem eru nokkuð vanddregin stundum. Það, sem einkum vakir fyrir mér, er að fá skýringu á því, hverskonar vegagerðir skuli sérstaklega teljast opinberar. Stundum er engum blöðum um þetta að fletta, þar sem eru t. d. þjóðvegir. En þegar kemur inn á þrengri svið, þar sem kostnaður dreifist, svo sem þegar um er að ræða sýsluvegi eða hreppavegi, sem lagðir eru samkv. þeim ákvæðum, er um þetta eru í vegal., þá sé ég ekki, að skilgreiningin sé hér nógu skýr. Ef þetta á að geta náð, með tilvísun til 3. gr., alla leið til hreppavega, virðist mér vera athugavert, hvort ekki er um of þrengt fyrir dyrum um hið frjálsa hagræðisframtak hreppanna, er fyrir þessu eiga að standa, því að undir slíkum tilfellum eiga þeir mikilla fjárhagslegra hagsmuna að gæta, að þeir megi hafa sem hægasta framkvæmd og forstöðu með þessu. Þá má líka minnast á það, þegar verið er að ræða um lærða verkstjóra í opinberri vinnu, að þessi nauðsyn á lærðri verkstjórn er misjöfn eftir því, hverskonar opinber vinna það er, sem um er að ræða. Ég veit, að hv. frsm. sem öðrum hlýtur að vera það ljóst, að því meira, sem reynir á tekníska kunnáttu við eitthvert verk, því meiri nauðsyn er á lærðri verkstjórn, en því meira aftur sem ræðir um verksvit og hyggindi eins og oft er þar, sem um smærri vegagerðir er að ræða, því meiri nauðsyn er á, að verkstjórinn sé frjáls að verkinu, auðvitað þó þannig, að verkið standi undir yfirumsjón vegamálastjóra. Ég sá ástæðu til að minnast á þetta, því að ég veit, að ef svona frv. með öllum þess kostum og ágöllum á að verða að l., þá mun mörgum verða forvitnismál, nær þetta eða þetta verk heyrir undir l., eins og t. d. þegar um er að ræða sýsluvegi eða hreppavegi í sveit, enda ríkið standi að verkinu með fjárgreiðslu.