25.11.1939
Neðri deild: 68. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (2989)

122. mál, verkstjórn í opinberri vinnu

Bergur Jónsson:

Það hefir verið gert of mikið úr yfirlýsing minni um annríki allshn. Ég var þá að benda hv. þm. Borgf., sem einn þingmanna hefir kvartað undan seinni afgreiðslu hjá n., á það, að hún hefir fengið til meðferðar hartnær helming mála, sem fram hafa komið, síðan þing kom saman að nýju í haust. Hinsvegar eru vinnubrögð í n. allgóð, og hefir tekizt að ryðja frá miklu af málum, sem afgreiða þurfti. Ég vona, að henni verði ekki skotaskuld úr því framvegis að afgreiða svona smámál, sem til hennar kann að verða vísað. Það má þó ekki skilja orð mín svo, að ég sé sérstaklega að slægjast eftir málum handa nefndinni. En mér finnst það misnotkun á þingsköpum, ef nefnd notar sér það ákvæði þeirra, að mál, sem flutt er af nefnd, þurfi ekki að ganga á ný til n., til þess að flytja og knýja áfram athugunarlítið mál, sem kemur henni ekki við. Þetta mál heyrir ekki frekar undir sérsvið iðnn. heldur en annarar sérmálsnefndar í þinginn. Allir sjá t. d., hve fráleitt væri, ef sjútvn. flytti frv. um landbúnaðarmál, eða landbn. um sjávarútvegsmál. Mundi í slíku tilfelli sjálfsagt að vísa máli til réttrar nefndar, þótt flutt væri af nefnd. Hv. þm. iðnn. geta auðvitað flutt það frv., sem hér liggur fyrir, sem þm., en ekki sem nefnd, þar sem málið heyrir ekki nefndinni til. Það mál, sem hér liggur fyrir, er kallað frv. til laga um verkstjórn í opinberri vinnu og snertir yfirleitt ekki iðnaðarlöggjöfina, heldur fyrst og fremst almenn skilyrði til verkstjórnar í almennri vinnu, svo sem vegavinnu o. s. frv.

Ég geri ráð fyrir, að það hafi verið þetta, sem vakti fyrir hv. þm. V.-Húnv., þegar hann kom með till. um að vísa málinu til allshn. Ég vil taka undir það, að mér finnst það vera eðlilegt. Þetta ber þó ekki svo að skilja, að ég sé að slægjast eftir því, að okkar störf séu aukin úr hófi fram. En ég býst ekki við, að þó við tökum þetta mál að okkur, þá verði okkur mikið fyrir að afgreiða það.