05.12.1939
Neðri deild: 75. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í C-deild Alþingistíðinda. (2996)

122. mál, verkstjórn í opinberri vinnu

*Pétur Ottesen:

Hér er komin fram skýring á 3. lið 3. gr. frv., sem þótti óljóst orðaður í frv. En þessi skýring er eingöngu í því fólgin, að skjóta megi ágreiningi, sem út af þessu rís, til þessara og hinna ákveðinna aðila. Ég verð að segja, að þetta er að mínu áliti ekki heppileg lausn, því ég geri ráð fyrir, að það geti valdið nokkrum töfum, að eiga að bíða með framkvæmd ákveðinna verka eftir úrskurði vegamálastjóra eða sýslumanns um það, hvort hér eigi að vera verkstjóri eða ekki, og ef menn eru ekki ánægðir með úrskurðinn, þá að skjóta málinu undir dóm ráðherra. Þetta mundi valda geysilegum töfum við framkvæmd ákveðinna verka, ef það ætti að leysa deilur með slíkum hætti.

Nei, hér virðist mér að óþörfu verið að þrengja kosti þeirra manna, sem standa fyrir þessum framkvæmdum. Það hafa verið menn til þess að gera þetta, sem vegamálastjóri hefir samþ., og engir þeir árekstrar hafa orðið í þessu efni, sem gefi tilefni til að koma fram með tillögur, þar sem verið er ófyrirsynju að stofna til erfiðleika, sem risið geta út af þrætum og geta valdið töfum um framkvæmd nauðsynlegra verka.

Úti um land verða þeir menn, sem verða að mestu leyti að bera þessar framkvæmdir uppi fjárhagslega, að gera þær á þeim tíma, sem þeim finnst beztur frá sínum störfum, og fara svo að setja ákvæði, sem tefðu þetta, og þegar það þarf að taka langan tíma að ákveða, hvort hér þurfi lærðan verkstjóra, þá finnst mér löggjafarvaldið vera að leggja þrepskjöld í veg framkvæmda eins og hér um ræðir.

Það er líka vitað, að þetta frv. er eingöngu komið fram af því, að verkstjórar ætluðu að tryggja hag sinnar stéttar með þessu, en þar sem jafnframt upplýsist, að verkstjórar hjá ríkinu sitja fyrir allri þeirri vinnu, sem þar er að fá, virðast þeir ekki vera í neinu öryggisleysi án þess að löggjafarvaldið færi nokkuð að skipta sér af hagsmunamálum þeirra.

Ég hygg þetta ekki heldur svo nauðsynlegt, að það ætti að lögfesta það, heldur ætti þetta frv. að þessu sinni a. m. k. ekki að fara lengra.